HJARTASTOPP ER LÍFSHÆTTULEGT!

Sjóvá - Hjartaheill

Nýlokið er söfnunarátakinu Hjartastopp, þar sem lögð var áhersla á fyrstu hjálp og endurlífgun við hjartastopp. HJARTAHEILL naut þar aðstoðar fjölmargra og sérstaklega ber að nefna tryggingafélagið Sjóvá, sem lagði verkefninu svo öflugt lið að það skipti sköpum um farsæla framkvæmd þess.

HJARTAHEILL vill sérstaklega þakka Sjóvá fyrir þennan mikilvæga stuðning.

Það er staðreynd að árlega fá um 200 manns hjartastopp hér á landi. Langmestur hluti þeirra á sér stað utan spítala, fjarri þeim og jafnvel órafjarri spítölum eða heilbrigðisþjónustu. Þá er mikil hætta á ferðum, því það getur tekið 3 – 5 mínútur að verða fyrir alvarlegum heilaskaða af völdum hjartastopps. Rétt viðbrögð og réttar ráðstafanir á réttum tíma skipta því sköpum. Helstu ráð til endurlífgunar í viðlögum er samstundis beiting hjartahnoðs og hjartastuðtækis.

HJARTAHEILL studdi samhliða verkefnið „Börnin bjarga“, sem var liður í þessu verkefni. Þetta átak er ekki einangrað verkefni í starfi HJARTAHEILL, heldur hafa forvarnir og endurlífgun átt stóran sess í því um árabil.

Á komandi árum verður haldið áfram á þeirri braut sem HJARTAHEILL hafa markað sér. Eftir því sem betri árangur hefur náðst í glímunni við hjartasjúkdóma hefur verið lögð vaxandi áhersla á forvarnir og kunnáttu almennings í endurlífgun.

HJARTAHEILL eru landssamtök áhugafólks um heilbrigði hjartans og lífsgæði í íslensku samfélagi. Félagið leggur áherslu á framfarir í forvörnum, fræðslu og meðferð hjartasjúkdóma auk þess að standa vörð um hagsmuni og réttindi hjartasjúklinga. Í samtökunum eru fagfólk, hjartasjúklingar, aðstandendur og annað áhugafólk um málefnið. Félagið rekur víðtækt stuðningsnet fyrir félagsmenn sína, m.a. forvarnarstarf, félagsráðgjöf- og lögfræðiráðgjöf.

Sjóvá - Hjartaheill
Á myndinni t.v. er Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvaá og Sveinn Guðmundsson, formaður Hjartaheilla.