Spurningar og svör varðandi kórónaveiruna

Spurningar og svör varðandi kórónaveiruna

Hvað er vitað um þessa nýju veiru og faraldurinn á þessu stigi?
Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er orsök þessa faraldurs ný tegund kórónaveiru, sem hefur ekki áður greinst í mönnum. Enn er ekki vitað hversu smitandi veiran er, hversu alvarlegum veikindum veiran veldur eða hverjar smitleiðirnar eru. Faraldsfræðilegar upplýsingar eru enn takmarkaðar og því er margt óljóst varðandi útbreiðslu sjúkdómsins. Uppruni veirunnar virðist vera í Wuhan borg í Kína og voru fyrstu tilfellin flest tengd ákveðnum matarmarkaði í borginni, en útbreiðsla veirunnar í Kína hefur verið fremur hröð.

Eins eru upplýsingar um veiruna (2019-nCoV) takmarkaðar, en samkvæmt ECDC virðist nýja veiran líkjast SARS veirunni erfðafræðilega og haga sér svipað þó hún virðist ekki eins skæð.

Hvað er kórónaveira?
Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (m.a. fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða (eins og MERS-sýkingin í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012 og SARS sýkingin frá Kína á árunum 2002-2003). SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu.

Er til bóluefni gegn nýju kórónaveirunni?
Það er ekkert bóluefni til gegn þessari veiru og því ekki hægt að bólusetja.

Hver eru einkennin?
Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. 2019-nCoV getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4-8 degi veikinda.

Hverjir eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni?
Enn er ekki búið að skilgreina áhættuhópa m.t.t. alvarlegrar sýkingar. Um 15-20% staðfestra tilfella eru metin alvarleg. Þessi tala mun mögulega lækka þegar auðveldara verður að greina vægari tilfelli með aukinni útbreiðslu prófa fyrir nýju veirunni. Flestir sem létust á fyrstu vikum faraldursins voru aldraðir (meðalaldur 75 ár vs 49 ár meðal fyrstu staðfestu tilfella) og með undirliggjandi sjúkdóma s.s. hjarta- og lungnasjúkdóma, sykursýki eða lifrarsjúkdóma. Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu en vitað er að sterameðferð tafði bata í SARS faraldrinum en hafði óveruleg áhrif á endanlega útkomu.

Eru barnshafandi konur í sérstakri áhættu?
Engar upplýsingar hafa borist um sérstaka hættu fyrir barnshafandi konur eða hættu á fylgikvillum meðgöngu vegna 2019-nCoV. Engar sérstakar ferðaráðleggingar eru í gildi fyrir barnshafandi konur hvað þetta varðar, aðeins almennar ráðleggingar vegna ferðalaga Opnast í nýjum glugga m.t.t. 2019-nCoV.

Hvaða meðferð er í boði?
Engin sértæk meðferð er þekkt við sjúkdómnum. Meðferð beinist því að einkennum eftir ástandi sjúklings. Almenn aðhlynning getur einnig komið að góðu gagni.

Er hægt að greina nýja kórónaveirusýkingu á Íslandi?
Já. Próf til að greina nýja kórónaveiru er komið í gagnið á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Ekki er mælt með að taka sýni hjá einkennalausum til að leita að nýrri kórónaveirusýkingu þar sem það veitir falskt öryggi hjá þeim sem ganga með smit en niðurstaða prófsins er yfirleitt neikvæð þar til einkenni koma fram.

Hvað er vitað um smit manna á milli?
Veiran smitast á milli einstaklinga. Smitleið er talin vera snerti- og dropasmit, svipað og inflúensa. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða þurrkar sér um nefið og hraustur einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur hans mengast af dropum og hann ber þær svo upp að andliti sínu. Ekki hefur verið staðfest að fólk geti verið smitandi áður en einkenni koma fram og hafa kínversk sóttvarnayfirvöld dregið það í efa út frá faraldsfræðilegum rannsóknum þar. Sjá einnig svar við „Hvað get ég gert til að forðast smit?“

Hver er hættan á frekari útbreiðslu?
Sýkingin hefur verið staðfest í löndum utan Kína (í ýmsum Asíulöndum, Ástralíu, Frakklandi og Bandaríkjunum,). Reynslan af SARS og MERS sýnir að viðeigandi smitvarnir eins og handþvottur og að bera pappír/klút fyrir vit við hnerra og hósta sem og einangrun sjúklinga er árangursríkt við að hefta útbreiðslu.

Hættan á frekari útflutningi frá Kína er enn til staðar en sennilega hafa aðgerðir kínverskra stjórnvalda við að takmarka ferðalög innanlands og lokun flugvallarins í Wuhan veruleg áhrif á þá hættu. Tilhlýðilegar sóttvarnaráðstafanir þegar tilfelli koma upp í Evrópu munu væntanlega takmarka frekari útbreiðslu innan Evrópu.

Hvað er verið að gera á Íslandi?
Opinber viðbrögð á Íslandi munu miðast við alvarleika hinnar nýju veiru í ljósi nýrra áreiðanlegra upplýsinga:

  • Undirbúningur á Íslandi er samkvæmt viðbragðsáætlun Opnast í nýjum glugga sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
  • Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna hafa verið uppfærðar og gefnar út.
  • Leiðbeiningar til almennings og ferðamanna um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið Opnast í nýjum glugga ef grunur vaknar um sýkingu af völdum hinnar nýju veiru hafa verið gefnar út.
  • Á alþjóðlegum flugvöllum Opnast í nýjum glugga og í höfnum Opnast í nýjum gluggalandsins verður unnið samkvæmt sérstökum viðbragðsáætlunum.
  • Heilbrigðisstofnanir hafa verið hvattar til að uppfæra sínar viðbragðsáætlanir.
  • Ekki er ástæða til að hvetja til ferðabanns til eða frá Kína en ferðamenn eru hvattir til að sleppa ónauðsynlegum ferðalögum á svæði þar sem faraldur geisar og huga vel að sýkingavörnum á ferðalögum almennt.
  • Ekki er ástæða til að skima farþega á flugvöllum hér á landi eins og er, en upplýsingum um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið vegna veikinda í tengslum við þennan faraldur verður dreift til ferðalanga með ýmsum leiðum.

Stendur til að loka landinu fyrir ferðamönnum?
Sóttvarnalæknir í samráði við stjórnvöld hefur vald til að beita ýmsum harkalegum ráðum til að sporna við útbreiðslu farsótta, skv. sóttvarnalögum. Afar mikilvægt er að sóttvarnaviðbrögð séu í samræmi við alvarleika ógnar og vega þarf áhrif viðbragða á móti áhrifum farsóttarinnar. Viðbragðsáætlanir sóttvarnalæknis lýsa þessu samhengi ágætlega en þar er möguleg lokun eða takmörkun samgangna tekin fyrir á hættu- og neyðarstigum. Eins og staðan er núna er unnið á óvissustigi og hafa sóttvarnalæknir, almannavarnir og heilbrigðisráðherra ákveðið að ekki sé ástæða til að loka landinu nú. Mögulegt er að smit berist hingað með ferðamönnum en mikill meirihluti ferðamanna sem hingað kemur hefur ekki verið á sýktum svæðum. Ef landinu er lokað komast Íslendingar sem staddir eru erlendis ekki heim og öll aðföng og útflutningur stöðvast. Ef tekin væri ákvörðun um lokun landsins núna er útilokað að segja til um hversu lengi slíkar ráðstafanir yrðu í gildi. Möguleikinn á þessu úrræði er í stöðugri endurskoðun í samræmi við áhættumat á hverjum tíma.

Af hverju er ekki skimun fyrir kórónaveirunni á flugvellinum hér?
Ekki er hægt að leita að veirunni hjá einkennalausum ferðalöngum þar sem hún finnst ekki í vessum fyrr en einkenni koma fram. Hitamælingar og spurningalistar til farþega frá sýktum svæðum hafa verið notaðir til að reyna að finna einkennalausa smitaða einstaklinga við komu á flugvelli í ýmsum löndum í SARS faraldrinum og heimsfaraldri inflúensu 2009. Enginn einstaklingur sem greindist síðar með SARS í löndum sem reyndu að skima hafði verið undir sérstöku eftirliti eftir flugvallaskimun og mjög lágt hlutfall einstaklinga sem valdir voru til eftirlits eftir flugvallaskimun í heimsfaraldri inflúensu greindust síðar með veiruna. Þessar aðferðir eru því bæði lítið næmar og lítið sértækar en skimun þarf að vera næm til að hún sé gagnleg og lítið sértæki leiðir til þess að margir yrðu mögulega settir í stranga sóttkví að ástæðulausu. Báðar þessar aðferðir eru líka háðar því að fólk sé heiðarlegt, taki ekki hitalækkandi lyf og segi rétt til um hvar það hefur verið. Þær eru einnig taldar gagnlegri þar sem beinar ferðir eru milli upprunastaðar sýkingar (nú Wuhan) og áfangastaðar þar sem skimun fer fram (Keflavík/Akureyri) en engar beinar ferðir hafa verið milli Wuhan og Íslands hingað til. Mun vænlegra til að takmarka útbreiðslu er talið að tryggja aðgengi ferðalanga að upplýsingum um hvar og hvernig það geti fengið læknishjálp, á máli sem þeir skilja. Þeim upplýsingum hefur verið dreift á flugvellinum og eru veikir einstaklingar hvattir til að gefa sig fram til að þeir geti fengið læknishjálp og ráð um hvernig þeir geta takmarkað smithættu til annarra.

Hvað get ég gert til að forðast smit?
Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit. Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti. Eftir því sem raunhæft er er rétt að forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta. Grímur nýtast best þegar þeir sem eru veikir nota þær en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt, s.s. fyrir heilbrigðisstarfsmenn eða viðbragðsaðila í samfélaginu þegar þeir hlúa að veikum. Við þrif eftir aðra, s.s. í veitingasölum eða á almenningssalernum getur verið gagnlegt að nota hanska en mikilvægt er að taka af sér hanska þegar slíkum verkum er lokið og hreinsa vel hendur. Sjá nánar hér.

Hvað þýðir að vera útsettur fyrir 2019-nCoV smiti?
Einstaklingur sem hefur umgengist veikan einstakling með 2019-nCoV sýkingu hefur verið útsettur. Með því er átt við að hafa verið innan við 1 metra frá veika einstaklinginum meðan hann var veikur og með hósta eða hnerra, eða hafa snert hann, sofið í sama rúmi, dvalið í sama húsnæði eða verið í sama farartæki (öðru en millilandaflugvél) þar sem einhver var veikur, hóstandi og hnerrandi. Heilbrigðisstarfsmenn sem hafa sinnt sjúklingum með 2019-nCoV sýkingu hafa líka verið útsettir, en nota oft hlífðarbúnað við sín störf sem hefur áhrif á smithættuna. Vegna þess hve sýkingin er útbreidd í Wuhan er nú gert ráð fyrir að allir sem hafa verið þar hafi verið útsettir. Kórónaveirusýkingar valda veikindum innan 14 daga frá smiti, svo það eru aðeins þeir sem hafa verið útsettir innan 14 daga sem eru álitnir í hættu á að veikjast.

Er munur á sóttkví og einangrun?
Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki ennþá veikur sjálfur. Einangrun á við sjúklinga með einkenni smitandi sjúkdóms. Hvort sem um sóttkví eða einangrun er að ræða þarf að takmarka umgengni við annað fólk, sjá nánar í leiðbeiningum til einstaklinga í sóttkví eða einangrun Opnast í nýjum glugga. Þess vegna getur þurft að fá aðstoð við aðföng o.þ.h. en nánari upplýsingar um slíkt þarf að fá frá yfirvöldum á hverjum stað þegar ákvörðun um sóttkví/einangrun er tekin. Heimild sóttvarnalæknis til að grípa til slíkra ráðstafana er lögð fram í 12. grein sóttvarnalaga Opnast í nýjum glugga.

Ég hef verið útsett(ur) fyrir 2019-nCoV smiti, hvað á ég að gera?
Smithætta hérlendis er hverfandi sem stendur. Ef þú hefur verið á ferðalagi undanfarnar 2 vikur á svæðum þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp eða á einhvern hátt komist í snertingu við einstakling með sjúkdóminn, en hefur engin einkenni sjúkdómsins nú, er þér bent á að hafa samband við svl@landlaeknir.is til að fá nánari leiðbeiningar um smitgát og eftirlit. Sóttvarnalæknir mælist til að þú haldir þig heima í 14 daga eftir að þú fórst frá Kína, sjá leiðbeiningar um sóttkví Opnast í nýjum glugga.

Ég hef verið útsett(ur) fyrir 2019-nCoV smiti og er að veikjast, hvað á ég að gera?
Smithætta hérlendis er hverfandi sem stendur. Ef þú hefur verið á ferðalagi undanfarnar 2 vikur á svæðum þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp eða á einhvern hátt komist í snertingu við einstakling með sjúkdóminn, og hefur einkenni sem gætu tengst 2019-nCoV er þér bent á að hafa samband við heilsugæsluna þína eða Læknavaktina í síma 1700 til að fá nánari leiðbeiningar um smitgát og eftirlit. Ef um neyðartilvik er að ræða, hringið í 112. Munið að nefna ferðasögu m.t.t. kórónaveirusýkingar í samskiptum við heilbrigðisþjónustuna og 112. Ekki fara á sjúklingamóttöku án þess að hafa látið vita af þér fyrirfram. Meðan þú bíður niðurstöðu læknisskoðunar og/eða rannsókna getur verið gagnlegt að fara eftir leiðbeiningum fyrir einstaklinga í einangrun Opnast í nýjum glugga. Ef samskipti við aðra eru óhjákvæmileg er rétt að vera með grímu fyrir andlitinu eða að lágmarki nota bréf fyrir munn og nef við hósta og hnerra.

Get ég smitast af 2019-nCoV við að opna vörusendingar frá Kína?
Nei.

Heimild: Landlæknisembættið