Hóf hjartaþræðingar hér á landi

Hóf hjartaþræðingar hér á landi

Árni KristinssonÁrni Kristinsson, fyrrverandi yfirlæknir á Landspítalanum og prófessor við HÍ – 85 ára
Hóf hjartaþræðingar hér á landi

Árni Kristinsson er fæddur 18. febrúar 1935 í Reykjavík og ólst upp og bjó við Sólvallagötuna í Vesturbænum í 30 ár, og síðan við Kaplaskjólsveg í 50 ár, en 6 ár í London.

Árni gekk í Miðbæjarbarnaskólann, GaggóVest og varð stúdent frá MR 1954. „Það voru dæmalaust góðir kennarar í öllum skólunum. MR54 árgangurinn heldur fast saman, hittist oftar en mánaðarlega og fer árlega í ferðalög bæði utanlands og innan.“ Árni varð kandídat frá læknadeild HÍ í febrúar 1962.

„Daginn eftir útskrift sigldi ég með Heklu til Patró, var einn þar í mánuð, sá um lækningar, apótek, sjúkrahús og lenti í inflúensufaraldri þar sem nær allir í Tálknafirði lögðust samtímis í bólið. Annað er eftirminnilegt frá kandídatsárunum þegar ég var eini kandídatinn á fæðingardeildinni í aprílmánuði 1963, og tók þá á móti öllum börnum sem fæddust þar, þ.ám. syni mínum. Það munaði litlu að fæðingarhjálp yrði sérgreinin.“

Árni hélt til London í sérnám haustið 1963 sem lauk með doktorsprófi 1969 frá Lundúnaháskóla. Hann byrjaði á að vinna á slysavarðstofu í suðurhluta Lundúnaborgar. „Ég hafði verið í ýmsum störfum á kandídatsárunum mínum á Íslandi svo ég var mörgu vanur. Ég fékk því góð meðmæli frá slysavarðstofunni og það hjálpaði til að ég var valinn í húskarlsstöðu á Central Middlesex-spítala hjá Richard Asher. Það var sérstakur karakter en ótrúlega klár í klínískum lyflækningum. Í heimboði hjá honum í Wimpole Street var dóttir hans, Jane Asher, nú leikkona og var kærasta Paul McCartneys á þessum tíma, hann bjó í kjallaranum. Jane bauð mér í eftirpartí með Bítlunum en ég var kominn með tvö lítil börn og komst ekki.“ Með hjálp Ashers komst Árni inn á Hammersmith-spítalann. „Þar var Mekka læknakennslu í framhaldsnámi.“

Árni kom heim jólin 1968 og varð sérfræðingur á lyflækningadeild á Landspítalanum og síðan yfirlæknir á hjartadeild 1988. Hann kom á fót hjartaþræðingum hér á landi, en á þessum tíma var kreppa í landinu þegar síldveiðarnar hrundu og litlir fjármunir til að kaupa ný tæki. „Það var því barningur að byggja upp aðstöðu fyrir hjartaþræðingar. Á hálfri öld sem liðin er hefur verið stöðug framþróun og dánartíðni kransæðasjúklinga á spítala féll hjá þeim sem voru með kransæðastíflu úr 35 prósentum niður í næstum 0.“

Árni varð dósent í almennri lyflæknisfræði við læknadeild HÍ 1975 og prófessor 2004. Hann vann að fjölþjóða rannsóknum og var m.a. fulltrúi Íslands í Norrænu lyfjanefndinni 1975-1996 og formaður 1980-1981 og 1990-1991. „Hún var sett á laggirnar 1975 en á þeim tíma voru öll lyf skráð í hverju landi fyrir sig. Nefndin vann við að samræma vinnuna þannig að ef sótt var um lyf í einu landi þá gilti það einnig fyrir hin löndin, en þessi vinna varð grunnurinn að Evrópsku lyfjastofnuninni.“ Árni var kjörinn félagi í Breska hjartalæknafélaginu 1973 og heiðursfélagi í Félagi íslenskra lyflækna 2004.

Áhugamál Árna eru meðal annars skógrækt. „Maður fór að huga að því að hafa eitthvað að gera þegar vinnunni væri lokið og er kominn með tvo hektara af skógi við Selvatn á Miðdalsheiði þar sem ég er með bústað.“ Aðrar tómstundir eru að vera með fjölskyldunni, ferðalög og klassísk tónlist. „Mikilvægt er að hugsa um heilsuna og þess vegna fer ég í sund á hverjum degi.“

Fjölskylda
Eiginkona Árna frá 1976 var Asta Marie Faaberg, f. 27.4. 1935, d. 7.2. 2017, bankafulltrúi. Foreldrar hennar voru hjónin Harald Faaberg, f. 28.8. 1890, d. 4.5. 1972, skipamiðlari í Reykjavík, og Sigríður Einarsdóttir Faaberg, f. 28.8. 1903, d. 28.2. 1991, húsmóðir í Reykjavík. Fyrri eiginkona Árna frá 1959 var Erla Gunnarsdóttir Cortes, f. 22.6. 1939, d. 11.5. 2006, skrifstofumaður. Þau skildu 1974. Foreldrar hennar voru Gunnar Jóhannes Cortes, f. 21.10. 1911, d. 22.5. 1961, læknir í Reykjavík og Kristrún Þorsteinsdóttir Cortes, f. 9.3. 1914, d. 8.6. 2003.

Börn Erlu og Árna eru: 1). Gunnar Jóhannes Árnason, f. 27.11. 1959, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu í Reykjavík. Maki: Vilborg Soffía Karlsdóttir, f. 2.12. 1962, forstöðumaður menningarmála hjá Kópavogsbæ. Börn þeirra eru Árni Freyr, f. 1991, Sunnefa, f. 1993, og Júlía, f. 1999; 2). Kristinn Halldór Árnason, f. 26.4. 1963, tónlistarmaður í Reykjavík. Sonur hans er Árni Dagur, f. 1993; 3) Snorri Örn Árnason, f. 13.5. 1970, sérfræðingur hjá Héraðssaksóknara í Reykjavík. Sambýliskona hans er Elva Benediktsdóttir, f. 15.12. 1979, lögfræðingur hjá Útlendingastofnun, og sonur Snorra er Ármann, f. 2000. Sonur Östu Marie Faaberg og Jóns Jónssonar, stjúpsonur Árna, er Gísli Þór Jónsson, f. 25.4. 1963, járningamaður í Svíþjóð. Eiginkona hans er Ingela Bjurenborg, f. 17.6. 1970, fiskinnflytjandi í Svíþjóð. Börn þeirra eru Andór, f. 2001 og Freyja Christina, f. 2002.

Systkini Árna: Þorbjörg Kristinsdóttir, f. 12.3. 1925, fyrrverandi latínukennari, býr í Kópavogi; Ármann Kristinsson, f. 21.11. 1926, d. 12.5. 1994, sakadómari í Reykjavík; Auður Katrín Kristinsdóttir, f. 8.4. 1943, d. 31.1. 1979, sjúklingur.

Foreldrar Árna voru hjónin Kristinn Halldór Júlíus Ármannsson, f. 28.9. 1895, d. 12.6. 1966, rektor MR, og Þóra Árnadóttir, f. 11.6. 1900, d. 23.3. 1986, nuddkona og húsfreyja í Reykjavík.

Morgunblaðið þriðjudaginn 18. febrúar 2020