Dánartíðni eftir aðgerðir lág

Dánartíðni eftir aðgerðir lág

Landspítali Tómas Guðbjartsson skurðlæknir í opinni hjartaaðgerð. — Morgunblaðið/RAX

• Rannsókn íslenskra lækna sýnir að þótt árangur kransæðahjáveituaðgerða sé almennt góður hér á landi eru lífslíkur sjúklinga með sykursýki síðri • Mikilvægt talið að sporna við aukinni sykursýki

Langtímalífslíkur sjúklinga með sykursýki, sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð hér á landi, eru almennt góðar en þó síðri en þeirra sem ekki glíma við sjúkdóminn. Þetta er meðal þess sem ný rannsókn íslenskra lækna leiðir í ljós en sagt er frá henni í vísindaritinu Interactive Cardiovascular and Thoracic Surgery .

Rannsóknin nær til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi á árunum 2001 til 2016, alls 2.060 manns. Þar af voru 17% með sykursýki. Sjúklingum var fylgt eftir í næstum níu ár að meðaltali og bornar saman langtímalífshorfur og tíðni alvarlegra fylgikvilla hjá sjúklingum með sykursýki og sjúklingum sem ekki voru með sjúkdóminn.

Fyrsti höfundur greinarinnar er Tómas Andri Axelsson læknir og er rannsóknin hluti af doktorsverkefni hans við læknadeild Háskóla Íslands en hann er nú við sérfræðinám í Stokkhólmi. Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir, er leiðbeinandi hans og stjórnandi rannsóknarinnar.

Tómas Guðbjartsson segir að rannsóknin skeri sig úr mörgum slíkum rannsóknum vegna þess hversu lengi sjúklingunum er fylgt eftir. Til þess hafi þurft mikla vinnu Tómasar Andra og samstarfsmanna við að afla upplýsinga um afdrif sjúklinganna.

Rannsóknin leiddi í ljós að dánartíðni eftir aðgerðina var almennt lág. 98% lifðu hana. Dánartíðni sjúklinga með sykursýki var þó hærri innan við 30 daga frá aðgerð. Einnig voru langtímalífslíkur sykursýkissjúklinga síðri enda þótt þær væru góðar fyrir báða hópa. Fram kemur í fréttatilkynningu að niðurstöðurnar eru í takt við sambærilegar erlendar rannsóknir og árangur hérlendis sambærilegur því sem þekkist á stærri sjúkrahúsum í nágrannalöndum.

Draga þarf úr ofþyngd
Rannsóknin sýnir að sykursýki er mikilvægur áhættuþáttur fyrir kransæðahjáveituaðgerðir, ekki aðeins eftir aðgerð heldur einnig þegar til lengri tíma er litið. „Við erum ánægð með að hlutfall sjúklinga með sykursýki er ekki hærra en raun ber vitni. Staðan er svipuð í nokkrum löndum en sums staðar, ekki síst í sumum ríkjum Bandaríkjanna, er hlutfallið komið yfir 40%. Það viljum við ekki sjá á Íslandi,“ segir Tómas Guðbjartsson. Hann segir að óveðursský séu á himni varðandi þróunina. Hér séu allt of mörg vandamál tengd offitu. „Við sjáum það á börnunum okkar í grunnskólum og á ungu fólki að ofþyngd er vaxandi vandamál. Efnaskiptavandamál eins og sykursýki eru fylgifiskur þess.“

Getur snúist við
Þessi þróun mun leiða til þess að fleiri sjúklingar sem gangast munu undir kransæðahjáveitu í framtíðinni verða með sykursýki. Spurður hvað hægt sé að gera nefnir Tómas fyrst að góður árangur hafi náðst í reykingavörnum og við að draga úr vandamálum vegna hækkaðs blóðþrýstings og kólesteróls. „En ef við náum ekki betri tökum á ofþyngdarvandamálum getur sá árangur jafnast út eða jafnvel snúist við.“

Morgunblaðið laugardagur 29. febrúar 2020