Hafnfirsku drengirnir lifðu af tveggja tíma hjartastopp

Felix Valsson

Drengirnir tveir, sem voru í bíl sem fór í sjóinn í Hafnarfirði í janúar, voru í hjartastoppi í tvo tíma og eru fyrstu og einu Íslendingarnir sem hafa lifað af jafn langt hjartastopp. Læknirinn sem sá um meðferð drengjanna segir málið einstakt á alla mælikvarða, en þeir eru báðir komnir heim af spítala.
Þrír drengir voru í bíl sem fór í sjóinn við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði, föstudagskvöldið 17. janúar. Einn komst upp úr sjónum af sjálfsdáðum en kafarar björguðu hinum tveimur, Kristjáni Hrafni Ágústssyni 15 ára og Helga Vali Ingólfssyni 17 ára. Þrjátíu mínútur liðu frá því að bíllinn lenti í sjónum og þar til drengirnir voru komnir á þurrt land. Endurlífgun hófst strax í sjúkrabílnum á leiðinni á Landspítalann við Hringbraut þar sem Felix Valsson tók á móti þeim.

„Þeir voru ekki með neinn hjartslátt. Sjúkraflutningsmenn og læknar á spítalanum voru að skiptast á að hnoða þá og reyna að halda blóðrás til hjartans og heilans. Og þetta leit mjög illa út í raun og veru,“ segir Felix.

Engin lífsmörk á spítalanum
Engin lífsmörk voru með drengjunum þegar þeir komu á spítalann. Þeir voru ískaldir eftir að hafa lent í sjónum, líkamshitinn 29 og 30 gráður. Þeir voru í hjartastoppi í tvo tíma, eða frá því að þeir lentu í vatninu og þar til þeir voru tengdir við hjarta- og lungnavél.

„Þeir voru kaldir, sem okkur fannst gott. Það er vitað að kuldi verndar heilann fyrir súrefnisskorti,“ segir Felix.

Ótrúleg stund þegar þeir vöknuðu
Sérstakri kælimeðferð var beitt til að reyna að koma í veg fyrir heilaskaða og var hitastigi drengjanna haldið við 32 gráður í tvo sólarhringa. Hægt og rólega náðu þeir svo eðlilegum líkamshita. Þá voru þeir lagðir inn á gjörgæsludeild þar sem þeir fóru í öndunarvél, Kristján Hrafn í nokkra daga en Helgi Valur í nokkrar vikur. Og svo gerðist hið ótrúlega.

„Maður fær enn þá gæsahúð þegar maður sá að þeir vöknuðu. Það var bara ótrúleg stund. Sérstaklega því ef maður er hreinskilinn, þetta leit ekki vel út í byrjun. Þetta var langur tími, löng endurlífun og blóðprufur sem við tökum töluðu ekki vel fyrir þeim. Þeir voru orðnir mjög súrir, maður mælir sýrustigið á líkamanum, og sérstaklega annar var með sýrustig sem ég hef hreinlega aldrei séð neinn lifa af.“

Kælimeðferð áður gefið góða raun
Meðferðin er sú sama og Felix hafði umsjón með þegar níu ára drengur festist í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði fyrir fimm árum og var við það að drukkna, og þegar ungur drengur fannst meðvitundarlaus á botni Breiðholtslaugar árið 2003. Báðir drengirnir náðu sér. Felix segir þó að mál Kristjáns Hrafns og Helga Vals sé einstakt á alla mælikvarða.

„Þessi tilfelli, þar hafði hjartað byrjað að slá löngu áður en við settum þá á hjarta- og lungnavélina. En þetta er fyrsta tilfellið sem við erum með hér, og þó víðar væri leitað, þar sem við tökum drengi sem eru í hjartastoppi allan tímann þar til þeir fara á vélina. Svoleiðis að þetta er mjög sérstakt og við höfum aldrei gert þetta áður. Þannig þetta eru fyrstu Íslendingar sem hafa lifað annað eins af? Já það er alveg hægt að fullyrða það með mikilli vissu.“

Allt gekk upp
Felix segir allt hafa gengið upp frá byrjun til enda. Snögg viðbrögð allra sem komu að slysinu, kafara og sjúkraflutningamanna, og svo samvinna starfsfólks landspítala við meðferð drengjanna.

„Það var ótrúlegt að sjá samvinnuna, samheldnina. Og að lokum bara að fá að kynnast svona sterkum fjölskyldum finnst mér alveg yndislegt,“ segir hann.

Batinn ekkert minna en kraftaverk
Kristján Hrafn var útskrifaður af spítala í febrúar og Helgi Valur fyrir nokkrum vikum. Helgi Valur verður áfram í endurhæfingu næstu mánuði en Kristján hefur næstum náð sér að fullu. Felix segir bata þeirra ótrúlegan.

„Ég held að engan hefði órað fyrir því þegar við vorum að berjast fyrir þessu að eftir þennan stutta tíma væru þeir báðir komnir heim. Svo það er gríðarlega gleðilegt og gaman að sjá það. Það er ekkert ofsögum sagt að segja að þetta sé hálfgert kraftaverk. Nei, ég hugsa að það sé alveg óhætt að kalla þetta kraftaverk. Það er ekkert minna.“

Rúv.is 20. apríl 2020