Um 70 þúsund Íslendingar tilheyra áhættuhópum vegna kórónuveirunnar:

Um 70 þúsund Íslendingar tilheyra áhættuhópum vegna kórónuveirunnar:

Talið er að um það bil sjötíu þúsund Íslendingar tilheyri áhættuhópum en þeir eru taldir líklegri til að veikjast alvarlega af völdum veirunnar en aðrir. Fólkið er í mismikilli áhættu enda sjúkdómar misalvarlegir hjá hverjum og einum.

„Til dæmis bara þegar kemur að sykursýki þá vitum við að yfir sextugt þá eru þetta 7.600 manns. Með langvinna lungnateppu eru það 4.700 manns. Háþrýstingur hefur verið nefndur sem áhættuþáttur en það eru yfir þrjátíu þúsund manns í hópi sextíu ára og eldri. Hjartasjúkdómar og aðrir eru 16.000 manns og svo mætti lengi telja og síðan er auðvitað hópur aldraðra mjög stór þannig yfir 67 ára eru þetta 43.500 manns,“ segir Alma D. Möller, landlæknir.

Enn sé byggt á gögnum frá Kína varðandi áhættuþættina þar sem gögn frá Evrópu eigi eftir að berast. Hún segir gríðarlega mikilvægt að gögnin verði tekin saman svo hægt verði að segja með vissu hverjir þurfi að halda áfram að gæta sín sérstaklega vel.

Þetta fólk hefur meira og minna verið í verndarsóttkví frá byrjun mars og það sér ekki fyrir endann á henni og landlæknir segist ekki geta sagt hvenær það verður.

Í Kompás sem birtist á Vísi í fyrramálið og sýndur er í opinni dagskrá að loknum kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld er skyggst inn í líf fólks sem tilheyrir mismunandi hópum. Fólkið er í einlægum viðtölum en það er sammála um að óvissan sé verst, að vita ekki hvenær óhætt er að snúa út í samfélagið á ný.

„Eins og fyrrum sóttvarnarlæknir hefur sagt: Í faraldri þá er eina vissan, óvissan. Það gildir svo sannarlega í þessum faraldri,“ segir Alma D. Möller, landlæknir.

Vísir – Kompás