Efla má sjálfsbjargargetu eldri borgara

Efla má sjálfsbjargargetu eldri borgara

Margir eldri borgarar eru meðvitaðir um að undirbúa sig til að takast á við þriðja æviskeiðið, en það hefst um það bil sem starfslok verða hjá flestum. Á þessum árum skiptir máli að vera í góðu líkamlegu og andlegu jafnvægi, að vera sem lengst sjálfbjarga með allar daglegar athafnir, svo sem að klæðast, baða sig, geta farið á salerni, matast og að komast um í samfélaginu.

Þurfa nýtt húsnæði
Þegar heilsan er farin að gefa sig geta komið upp ýmsir erfiðleikar varðandi sjálfsbjargargetu og þá er mikilvægt að horfast í augu við vandann. Hugsanlega þarf að huga að nýjum húsgögnum bæði stólum, sófa og rúmi sem auðveldara er að standa upp úr, aðrir þurfa að breyta til inni á baði, til dæmis taka baðkar sem erfitt er að komast upp í og setja sturtu í staðinn. Aðrir þurfa að skipta um húsnæði til að vera með gott aðgengi til að auðvelda þeim að komast inn og úr húsi. Mikið úrval er til af hjálpartækjum sem auka öryggi og sjálfbjargargetu fólks. Sjúkratryggingar Íslands bjóða til dæmis upp á úrval hjálpartækja, eftir ákveðnum skilgreiningum, sem lánuð eru út og er þeim síðan skilað aftur eftir notkun en önnur tæki má kaupa. Ýmis hjálpartæki eða breytingar á umhverfi auka sjálfsbjargargetu einstaklings en oft þarf að læra nýjar aðferðir eða breyta sínum venjum.

Mörg slys á baðherbergi
Góðar leiðbeiningar um notkun hjálpartækja geta hins vegar ýtt undir þátttöku í athöfnum daglegs lífs þrátt fyrir skerta getu.

• Þegar jafnvægið skerðist og aukin hætta er á byltu getur mikið öryggi verið í göngugrind, eða jafnvel hjólastól til lengri ferða.

• Þeir sem eiga erfitt með að fara í og úr rúmi geta nýtt sér grip á rúmið eða stuðningsstöng.

• Því miður verða mörg slys í heimahúsum inni á baðherbergi og því nauðsynlegt að huga að góðu aðgengi þar. Allir eldri borgarar ættu að hafa handföng á vegg fyrir ofan baðkar eða á sturtuveggjum. Þeir sem hafa t.d. baðkar geta nýtt sér baðbretti og þeir sem eru með hátt þrep inn í sturtuklefa geta nýtt sér baðstóla og/eða stuðningsstangir. Allir þurfa síðan að eiga að eiga góða stama gúmmímottu á baðkarsbotninn eða sturtubotninn og aðra með stömu undirlagi til að stíga á þegar stigið er út úr sturtunni.

• Einnig er hægt að aðlaga umhverfi í kringum salerni. Þar sem salerni er mjög lágt er hægt að fá salernisupphækkun sem hækkar upp salernið svo auðveldara sé að standa upp og setjast niður. Einnig getur verið gott að setja handföng í kringum salerni.

Margir eldri borgarar hafa nú þegar tileinkað sér snjalltækni og lært að nota tölvur, spjaldtölvur eða snjallsíma. Tæknin gerir okkur auðveldara með að hafa aðgang að netbanka, fá heimsendar vörur, minna okkur á til dæmis að taka lyfin okkar og ekki síður að vera í sambandi við sína ættingja og vini. Aðgangur að Heilsuveru auðveldar öll samskipti við heilsugæsluna en þar er hægt að endurnýja lyf og fá ráðleggingar í gegnum netið.

Auðvelda daglegt líf
Iðjuþjálfar innan Heimahjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis (HH) fara heim til fólks til að meta hvernig best er að bæta iðjuvanda fólks og efla sjálfbjargargetu þeirra. Það er gert með því að meta aðstæður, þörf fyrir hjálpartæki og almenna ráðgjöf. Það er oft ótrúlega margt hægt að gera til að auðvelda ýmislegt í daglegu lífi og auka sjálfsbjargargetuna.

Skjólstæðingar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem búa í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði hafa aðgang að þjónustu iðjuþjálfa Heimahjúkrunar HH. Þeir geta beðið heimilislækni eða hjúkrunarfræðing sem sinnir heilsuvernd aldraðra á heilsugæslustöð að senda beiðni um heimilisathugun. Þeir sem búa annars staðar geta fengið upplýsingar á sinni heilsugæslustöð um þá möguleika sem eru í boði.

Eftir Ásbjörg Magnúsdóttir og Guðrún K. Hafsteinsdóttir iðjuþjálfar hjá Heimahjúkrun HH í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi.

Unnið í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Morgunblaðið fimmtudaginn 14. maí 2020