Hjarta-og æðasjúkdómar

Hjarta-og æðasjúkdómar

Ein algengasta dánarorsök á Vesturlöndum eru hjarta- og æðasjúkdómar og vitum við mjög mikið um það hvernig þeir þróast og hvaða áhættuþættir liggja til grundvallar. Greining og meðferð hefur stórbatnað á síðustu áratugum og sýna gögn að okkur hefur orðið talsvert ágengt í nálgun á þennan sjúkdóm hérlendis en betur má ef duga skal.

Í stuttu máli eru hjarta- og æðasjúkdómar þrengingar og flæðiröskun í slagæðakerfi líkama okkar, þannig kemst ekki nægjanlegt magn blóðs, súrefnis og næringarefna á sinn stað. Kerfið er byggt upp með þeim hætti að það er tengt við hjartað sem sér um að halda þrýstingi og tryggja eðlilega starfsemi í hinum ýmsu líkamspörtum. Þessir sjúkdómar þróast á mörgum árum og áratugum og er summa áhættuþáttanna það sem gildir í því, auk erfðaþátta hvers og eins. Ef þú átt nákominn ættingja sem hefur fengið hjartaáfall, heilaáfall eða glímt við slíka sjúkdóma, þá ertu líklegri til að þróa með þér hjarta- og æðasjúkdóm en aðrir.

Lúmskir áhættuþættir
Reykingar eru auðvitað sá áhættuþáttur sem hefur verið hvað mest áberandi í þróun hjarta- og æðasjúkdóma. Í dag er vitað að það er engum hollt og ættu allir að hætta, eða fá náungann sem þeir þekkja og reykir til að hætta þeim óþverra.

Aðrir áhættuþættir eru hár blóðþrýstingur og er nauðsynlegt að mæla hann reglulega þar sem fólk getur gengið um með háan blóðþrýsting árum saman án þess að vera meðvitað um það. Háar blóðfitur og mismunandi samsetning þeirra er einnig skilgreindur áhættuþáttur og er eina leiðin til að átta sig á því að fá blóðrannsókn. Of hátt kólesteról er talið ýta undir kölkun æða og skapa þrengingar.
Aldurinn er mikilvægur þar sem þessir sjúkdómar taka tíma í þróun og því má segja að eftir því sem hann færist yfir aukist líkur á að vandi skapist í æðakerfinu. Ofþyngd og offita auk hreyfingarleysis auka áhættu verulega og er þar frekar flókið samspil efnaskipta og bólguþátta á ferðinni, ef viðkomandi þjáist af sykursýki þá aukast líkurnar.

Kæfisvefn hefur verið nefndur til sögunnar og svo má ekki gleyma mataræðinu sem hefur vissulega mikla þýðingu. Nauðsynlegt er að reyna eftir fremsta megni að draga úr fjölda áhættuþátta, hreyfa sig reglulega, borða holla og fjölbreytta fæðu, draga úr streitu og álagi og einnig tækla áhættuþættina sérstaklega með því að halda þeim í skefjum eða losa sig alfarið við þá, líkt og til dæmis reykingar. Aldrinum fáum við ekki breytt en markmiðið er að vera hraust á efri árum og helst laus við hjarta- og æðasjúkdóma.

Fréttablaðið laugardaginn 30. maí 2020