
Þann 8 október, 1983 var Landssamtök hjartasjúklinga stofnuð sem síðar fékk heitið Hjartaheill.
Það var mikill elja og dugnaður í stofnfélögum þegar samtökin hófu starfssemi sína fyrir 37 árum og var Guðmundur Rúnar Óskarsson, löggiltur endurskoðandi einn af stofnfélögunum.
Frá fyrstu tíð var Guðmundi falið það starf að endurskoða reikninga samtaknna. Í starfi sínu var hann skipulagður og vandvirkur og nutu samtökin þekkingar hans og vinnu allt til dánardægurs.
Fyrir stuttu síðan kastaði ég kveðju á þennan góða félaga okkar þar sem hann var að koma á starfsstöð sína en ég er með rekstur minn í næsta húsi við endurskoðendastofu hans. Það var erfitt að fá þá frétt að félagi okkar hafi orðið bráðkvaddur þann 11. ágúst s.l.
Lífið kemur ekki upp í stafrófsröð og við fáum ekki ráðið þeim bókstaf sem okkur er úthlutað í lífinu.
Sorgin er óaðskiljanlegur partur af lífinu og hjá því verður ekki komist í þessu lífi að takast á við sorgina. Við verðum að læra að lifa með sorginni.
Góðar minningar raðast upp í kringum störf Guðmundar og þátttöku hans í starfssemi Hjartaheilla.
Hjartaheill hefur treyst á sjálfboðaliða í sínum röðum frá stofnun samtakanna. Fólk fer í sjálfboðaliðastörf af ýmsum ástæðum. Mörgum finnst starfið áhugavert og gefandi, aðrir vilja láta gott leiða af sér. Sjálfboðaliðastarf getur nefnilega verið lærdómsríkt og þroskandi.
Við vorum afar heppinn að hafa fengið Guðmund í raðir okkar. Hann var virkur þátttakandi sem tók þátt í því að móta umhverfi sitt og samfélag með störfum sínum í Hjartaheill.
Þakklæti okkar felst í því að kunna að bera kennsl á það sem virðist sjálfsagt og læra að meta það mikils. Á stórum fundi í samtökum okkar var ákveðið að veita Guðmundi æðsta heiðursmerki samtakanna sem er úr gulli. Það var vel við hæfi, og var hann vel að þessum sóma kominn.
Fyrir hönd samtaka okkar vil ég nota tækifærið og þakka Guðmundi fyrir framlag hans og þátttöku í starfinu.
Félagar í Hjartaheill, SÍBS og aðildarfélögum kveðja góðan félaga með söknuði og þakklæti fyrir samfylgdina.
Sorgin er mikil og sendum við fjölskyldu hans dýpstu samúðarkveðju.
Mannsandinn líður ekki undir lok, minning um góða manneskju lifir í hjarta og minni. Líkt og sólin sem virðist ganga undir, en alltaf heldur áfram að lýsa.
Sveinn Guðmundsson, formaður.