
Stjórnendur Lára M. Sigurðardóttir og Pétur Magnússon á Reykjalundi.
„Endurhæfing er mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu og efling hennar er sennilega ein besta leiðin til þess að ná markvissari nýtingu fjármuna. Heilsueflandi starf getur til dæmis komið í veg fyrir að fólk þurfi að leggjast inn á hátæknisjúkrahús og auðveldar öðrum að komast aftur út á vinnumarkaðinn eða verða með öðru móti virkir þáttakendur í samfélaginu. Það er leiðarljósið í öllu okkar starfi,“ segir Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar.
Með dagskrá alla þessa viku verður þess minnst að 75 ár eru síðan Reykjalundur í Mosfellsbæ var opnaður, þá sem endurhæfingarstöð fólks sem glímdi við afleiðingar berkla. Langt er síðan sigur náðist á þeim sjúkdómi og í dag leitar á Reykjalundi fólk sem þarf að stoð og þjálfun til að ná aftur vopnum sínum eftir til dæmis eftir veikindi, slys eða önnur áföll. Á bilinu 1.000-1.200 manns koma á ári hverju í meðferð á Reykjalundi og er aðsóknin mikil.
„Reykjalundur er í raun allt önnur stofnun en var þegar ég hóf hér störf árið 1983,“ segir Lára M. Sigurðardóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Reykjalundi. „Fyrir 37 árum var hér enn fólk sem hafði fengið berkla, og glímdi við varanlega skerta starfsorku af þeim sökum. Hér bjuggu sumir í áratugi og störfuðu, enda var Reykjalundur þá „vinnuhæli“ eins það var kallað. Þegar berklar liðu undir lok fóru hjarta- og lungnasjúklingar í meiri mæli að koma hingað. Í dag er hér sinnt alhliða endurhæfingu. Flestir okkar skjólstæðingar eru hér aðeins yfir dag en einnig er hér 14 rúma sólarhringsdeild sem er fyrir þá mesta þjónustu þurfa.“
Aftur út í samfélagið
Læknisfræðileg endurhæfingu á Reykjalundi hefur það inntak uppræta, minnka eða bæta fyrir skerðingu í færni og virkni hvers skjólstæðings. Tekið er mið aðstæðum sjúklings og meðferðin sniðin eftir því. Takmarkið er að bæta lífsgæði fólks þannig að viðkomandi geti að nýju orðið virkur þátttakandi í samfélaginu.
Að meðferðarstarfi kemur fólk í ólíkum fagstéttum en á Reykjalundi eru efnaskipta- og offitu-, geðheilsu-, gigtar-, hjarta-, lungna-, tauga- og hæfingar- og verkjateymi – auk þess sem sérstakt meðferðarteymi sinnir starfsendurhæfingu skjólstæðinga. Starf þetta er unnið við hinar bestu aðstæður en á Reykjalundi eru æfinga og íþróttasalir, meðferðar- og vinnustofur, og tvær sundlaugar svo eitthvað sé nefnt.
Sótt í verkfærakistur
„Margar fagstéttir koma að meðferðarstarfinu hér og gerir stöðu Reykjalundar um margt einstaka. Við getum brugðist við vanda hvers skjólstæðings og aðstæðum í samfélaginu sem breytast hratt. Síðustu árin hefur verið áberandi hve margir þurfa aðstoð vegna lífsstílstengdra þátta, til dæmis kulnun, offitu og efnaskiptasjúkdóma. Því fylgir oft álag á stoðkerfi og andlegur vandi,“ segir Lára. „Sérstaklega höfum við hér lagt okkur fram við að sinna fólki sem gæti með tilliti til aldurs verið virkt á vinnumarkaði. Slíkt útilokar þó ekki að eldri komist hingað í meðferð ef þarf.“
Síðasta vetur var gert samkomulag milli Landspítala og Reykjalundar, um að af sjúkrahúsinu komi til endurhæfingar fólk sem veikst hefur af Covid-19 og þarf endurhæfingu í kjölfar veikinda. Slen, síþreyta og hjarta- og lungnasjúkdómar eru meðal annars afleiðingar sýkingarinnar en margt er þó óljóst enn. Í dag eru um 40 manns á biðlista eftir meðferð vegna Covid-19 á Reykjalundi og nánast á degi hverjum bætast nýjar umsóknir um meðferð við, að sögn Péturs Magnússonar.
„Þau sem þurfa endurhæfingu vegna Covid eru fólk á öllum aldri sem glímir við misjafnar afleiðingar veikindanna. Þessi hópur hefur verið í forgangi hér síðustu mánuði, en úr reynslubanka okkar og verkfærakistum voru hér á ekki löngum tíma þróaðar aðferðir og lausnir til að geta sinnt honum sem best,“ segir Lára.
Krónan áttfaldast
Fyrr á þessu ári stofnaði SÍBS óhagnaðardrifið félag, Reykjalaundur endurhæfing ehf . um meðferðarstarfið. Félagið hefur sérstaka stjórn, en hlutverk SÍBS sem eiganda verður sem fyrr að fjármagna uppbyggingu, m.a. með happadrættisfé. Daglegur rekstur byggir aðallega á þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands.
„Fjármunir sem hið opinbera ver til heilbrigðisþjónustu verða alltaf takmarkaðir. Með fólksfjölgun og hækkandi meðalaldri er því mikilvægt að þróa nýjar leiðir í heilsueflandi stafi. Framlög ríkisins til Reykjalundar eru um tveir milljarðar króna á ári og rannsóknir segja hverja krónu sem fer í endurhæfingarstarf skili sér jafnvel áttfalt til baka. Því er til mikils að vinna,“ segir Pétur Magnússon.
Morgunblaðið mánudaginn 5. október 2020