Hjartaheill 37 ára í dag

Alþjóðlegi hjartadagurinn 2020

HJARTASTOPP ER LÍFSHÆTTULEGT!Hjartaheill 37 ára í dag.

Samtök sjúklinga hafa margvíslegu hlutverki að gegna. Þau eru vettvangur skoðanaskipta, þau efla samstöðu og baráttuvilja, þau gefa upplýsingar og fræðslu og veita ráðgjöf um forvarnir.

Síðast en ekki síst hafa þau margsinnis sýnt og sannað að með samtakamætti sínum hafa þau burði til að veita góðum málum lið. Með smáum og stórum fjárframlögum til félagsmála, velferðarmála hverskonar sem og til tækjakaupa eða stuðnings við tækjakaup. Með því hafa sjúklingasamtök margsinnis lagt sitt að mörkum við uppbyggingu heilbrigðisstofnana, tækninýjungar og framþróun sem annars hefði e.t.v. tekið miklu lengri tíma og kostað þjáningar, fórnir einstaklinga og fjölskyldna, jafnvel mannslíf.

Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, eru samtök af því tagi sem lýst er hér að framan. Hjartaheill er öflugur félagsskapur 4.300 virkra einstaklinga sem flestir eiga það sameiginlegt að hafa fengið hjartaáfall eða æðasjúkdóma og fengið bót sinna meina eða að minnsta kosti svo mikla bót að þeir geta haldið áfram að lifa lífinu, hafa lifað áfallið af og eiga í mörgum tilfellum betra líf eftir aðgerð heldur en það var orðið fyrir áfallið.

Og það eru því sem betur fer margfalt fleiri en þessir 4.300 einstaklingar sem eiga gott líf eftir hjartaaðgerð og mættu taka þátt í starfsemi Hjartaheilla. Með því yrðu samtökin ennþá öflugri og betur fær um að takast á við þau margvíslegu verkefni sem samtökin fást við, hjartasjúklingum til hagsbóta.

Það er e.t.v. ekki öllum ljóst að hjarta- og æðasjúkdómar leggja flesta Íslendinga að velli. Á ári hverju látast um 700 einstaklingar úr sjúkdómum af þessu tagi, nær tveir á hverjum einasta degi ! En margir fleiri fá hjartasjúkdóma og lifa þá af, sem betur fer! Njóta þeirrar góðu þjónustu sem okkar öfluga heilbrigðiskerfi býður upp á og býr yfir, bæði hvað varðar mannafla og tækjabúnað.

Kæru velunnarar. Hjartaheill þakkar ykkur hjartanlega fyrir stuðninginn þessi 37 ár og væntir þess að stuðningur ykkar haldi áfram við samtökin því án ykkar erum við ekki fær um að veita þá þjónustu sem er í boði hjá Hjartaheillum.