Stöndum á barmi byltingar

Stöndum á barmi byltingar

Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga, er heiðursvísindamaður Landspítalans 2020. Davíð hefur unnið að vísindastörfum í hartnær þrjá áratugi og hefur verið í góðu samstarfi við Íslenska erfðagreiningu. Hann hefur mikinn áhuga á snjalltækni sem hann segir að geti gjörbreytt heilbrigðiskerfinu til hins betra.

Á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut er ys og þys. Starfsfólk með grímur fyrir vitum þýtur önnum kafið um gangana og það er nóg að gera að sinna sjúklingum. Yfirlæknirinn Davíð O. Arnar gefur sér þó tíma til að hitta blaðamann en tilefni heimsóknarinnar er að Davíð var í vikunni útnefndur heiðursvísindamaður Landspítalans 2020. Davíð á að baki langan og farsælan feril sem hjartalæknir en hann brennur einnig fyrir vísindastarfi og hefur mikinn áhuga á samspili erfða og sjúkdóma. Við ræðum vísindin og ferilinn, en einnig áhuga hans á fyrirbærinu vellíðan og á snjalltækninni sem hann segir að geti bylt læknisfræði framtíðarinnar.

A'gerð
MYNDATEXTI: Davíð O. Arnar og Bjarni Torfason í miðri skurðaðgerð.

Opnaði nýjar víddir
Davíð kláraði almennt læknanám hér á landi og eftir nokkurra ára starf hélt hann utan í sérnám til Iowa City, sem er háskólabær í miðríkjum Bandaríkjanna.

„Þar lærði ég lyflækningar og hjartalækningar og tók svo eitt aukaár í raflífeðlisfræði hjartans þar sem var farið í grunnpælingar á hjartsláttartruflunum og meðferð þeirra. Ég kom heim rétt fyrir aldamótin og hef unnið á Landspítalanum síðan. Ég varð fljótlega yfirlæknir Bráðamóttökunar á Hringbraut og svo yfirlæknir Hjartagáttar þegar hún var stofnuð 2010. Svo var ég um stutt skeið framkvæmdastjóri lyflækningasviðs en í raun vildi ég ekki yfirgefa hjartalækningar, sem mér finnst gríðarlega áhugaverðar og skemmtilegar, á þeim tímapunkti. Ég tók í staðinn við starfi yfirlæknis hjartalækninga, árið 2014, og hef verið í því síðan,“ segir hann.

Davíð tók útúrdúr frá hefðbundnu læknisstarfi haustið 2008 þegar hann ákvað svo að bæta enn við sig þekkingu og tók meistaranám í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu við Háskólann í Reykjavík.

„Það var bæði skemmtilegt og örvandi að fara úr hefðbundnu daglegu amstri í aðrar pælingar. Þetta var tveggja ára nám, með vinnu. Ég hef getað nýtt mér mjög margt úr náminu. Þetta opnaði að vissu leyti nýjar víddir, því þegar maður vinnur við lækningar eða stjórnun inni á spítala, þá er maður í svolítið sérstökum heimi. Því er svo nauðsynlegt að líta aðeins út fyrir þennan heim og þetta var svo sannarlega kærkomið tækifæri til þess.“

Fékk vísindabakteríuna
Vísindastörf heilluðu Davíð snemma, en hann hefur alltaf unnið að vísindastörfum meðfram hefðbundinni vinnu sem læknir.

„Áhuginn kviknaði á fjórða ári í læknisfræði. Á meðan sumir segjast fá golf- eða veiðibakteríu, þá má kannski segja að ég hafi fengið vísindabakteríu. Mér finnst þetta passa mjög vel meðfram klínísku starfi því það vakna gjarnan spurningar og hugmyndir að vísindaverkefnum þegar maður er að stunda sjúklinga. Ég vann mikla vísindavinnu í sérnáminu í Bandaríkjunum og eftir að ég kom heim hef ég unnið mjög mikið með Íslenskri erfðagreiningu. Samstarfið byrjaði þannig að ég fór til þeirra með hugmynd úr klíníkinni. Ég hafði tekið eftir því þegar ég var að sinna sjúklingum með gáttatif, sem er algeng hjartsláttartruflun, að hjá einstaklingum sem greindust með sjúkdóminn ungir, sem er fremur óvenjulegt, voru stundum ættartengsl á milli þeirra. Þeir áttu það sömuleiðis margir sammerkt að gáttatifið var mjög erfitt í meðhöndlun. Ég fór að velta fyrir mér hvort það kynnu að búa erfðaþættir þar að baki. Ég talaði við Kára Stefánsson og við ákváðum að skoða þetta nánar og úr hefur orðið mjög árangursríkt og skemmtilegt samstarf,“ segir hann.

„Það hefur verið talað um að kransæðasjúkdómar erfist, en það var minna vitað með gáttatif. Okkar rannsóknir hafa sýnt að ef þú átt nákominn ættingja með gáttatif, þá næstum tvöfaldast áhættan hjá þér. Og ef þú átt ættingja sem greinst hefur með gáttatif undir sextugu, þá fimmfaldast sú áhætta. Þetta segir okkur það að erfðaþættir spila þarna rullu, og sérstaklega hjá þeim sem greinast yngri.“

Gáttatif veldur usla
„Gáttatif er algengasta hjartsláttartruflunin. Við vitum að um sex þúsund Íslendingar hafa á einhverjum tímapunkti fengið gáttatif, en það getur ýmist komið og farið á víxl, eða verið langvarandi. Það veldur alla jafna miklum einkennum; hjartsláttaróþægindum, úthaldsskerðingu, mæði og eiginlega bara mikilli vanlíðan. Stöku sjúklingar finna þó tiltölulega lítið fyrir þessu, sem er út af fyrir sig merkilegt. Gáttatif birtist því í ýmsum myndum en það alvarlegasta við gáttatif er að það getur ýtt undir blóðsegamyndun í hjartanu. Um það bil þriðjungur allra heilablóðfalla er tilkominn vegna gáttatifs. Stundum er heilablóðfall fyrsta birtingarmyndin, því fólk hefur annaðhvort ekki hlustað á einkennin eða jafnvel ekki vitað að það væri með gáttatif,“ segir Davíð.

„Þetta er því ansi áhugaverður sjúkdómur sem getur valdið heilmiklum usla og er oft erfiður í meðferð. Það er svo margt sem við vitum ekki enn og þar held ég að erfðarannsóknir geti hjálpað okkur. Rannsóknir okkar með Íslenskri erfðagreiningu hafa aukið grundvallarskilning okkar á sjúkdómnum. Við höfum hingað til haldið að gáttatif væri aðallega til komið vegna truflunar í rafkerfi hjartans en það kemur í ljós að sennilega skiptir hjartavöðvinn í gáttinni meira máli en við héldum,“ segir hann og nefnir að það skipti miklu máli að komast almennilega til botns í sjúkdómnum svo hægt sé að meðhöndla hann á réttan hátt.

Davíð segir vera til lyf við gáttatifi, sem virka þó ekki mjög vel. „Þau ná að halda um helmingi sjúklinga í réttum takti, svona í besta falli, og svo eru þau mögulega hættuleg, með ýmsar alvarlegar aukaverkanir. Því er ekki alltaf fýsilegt að nota þessi lyf og mjög mikilvægt að passa að prófíll sjúklings passi við eiginleika lyfsins. Það er sömuleiðis merkilegt að það hafa ekki komið ný lyf að neinu marki við gáttatifi í næstum um fjóra áratugi. Það vantar klárlega ferska og nýja hugsun í lyfjaþróun við gáttatifi,“ segir Davíð og segir marga sjúklinga núorðið gangast undir svokallaða brennsluaðgerð.

„Aðgengið að þessum aðgerðum er ekki nóg; við gerum um 200 á ári hérlendis og megináherslan í meðferð sjúkdómsins er á lyfjameðferð.“

Samstarfið við Kára einstakt
Davíð hrósar Íslenskri erfðgreiningu í hástert og samstarfinu sem hann segir hafa verið algjörlega frábært.

„Þar vinnur framúrskarandi fólk með mismunandi bakgrunn en á það sameiginlegt að vera með brennandi áhuga á viðfangsefninu og rosalegan metnað. Það sem skiptir mestu máli þegar maður er að vinna í rannsóknum er að vera heppinn með samstarfsfólk. Það hef ég svo sannarlega verið. Kári hefur byggt upp mjög öflugt þekkingarfyritæki og að mínu mati er Íslensk erfðagreining fremsta mannerfðafræðistofnun heims. Ég er ekki viss um að Íslendingar átti sig á því hversu öflug vísindi fara fram hjá þeim. Kynni mín við Kára hafa haft afgerandi áhrif á minn vísindaferil. Hann hefur reynst mér bæði frábær mentor og vinur,“ segir Davíð og segir þá hafa birt á fjórða tug vísindagreina sem læknar og vísindamenn erlendis hafi sýnt mikinn áhuga.

„Þessar greinar hafa undantekningarlaust birst í mjög virtum ritum, til dæmis í Nature og Nature Genetics. Þetta hefur verið skemmtileg vegferð og eru þessar niðurstöður þegar byrjaðar að hjálpa okkur við að bæta klíníska þjónustu.“

Hafið þið þá fundið eitthvað sem getur bætt heilsu fólks með gáttatif?

„Við erum farin að nýta erfðaupplýsingar meira og meira í klínískri vinnu á spítalanum. Ég held að það muni bara aukast. Svo hafa niðurstöðurnar hjálpað okkur að skilja gáttatif betur og á annan hátt en við gerðum í byrjun. En það er rétt að undirstrika að þetta er langhlaup, erfðafræðin getur verið flókin og túlkun niðurstaðna ekki alltaf augljós.“

Heilbrigður lífsstíll
Þú talar um að erfðabreytileikar gætu aukið áhættu á gáttatifi, en eru aðrir áhættuþættir?

„Það er mjög margt sem getur ýtt undir gáttatif, en hefðbundnir áhættuþættir eru sjúkdómar eins og háþrýstingur, sykursýki, kransæðasjúkdómur og hjartabilun. Á síðustu árum hafa komið fram aðrir áhættuþættir, eins og offita, sem er auðvitað vaxandi vandamál hjá vestrænum þjóðum, áfengisneysla og kæfisvefn. Við erum að átta okkur betur á að það eru lífsstílsþættir sem skipta máli varðandi gáttatif en auðvitað líka erfðaþættir og oft fer þetta saman. Ef fólk hefur sterka ættarsögu um gáttatif ætti það fólk að vera enn ákveðnara í að huga að heilbrigðum lífsstíl. Ég held að áhrif heilbrigðs lífsstíls séu vanmetin, ekki síst hjá einstaklingum með langvinna sjúkdóma. Þetta er nokkuð sem við læknar höfum ekki gefið nægilegan gaum og tölum alveg örugglega ekki nóg um við sjúklinginn. Þá er ég að tala um hreyfingu, að halda sér í kjörþyngd, reykleysi, mikilvægi svefns og jafnvel innhverfrar íhugunar.“

Fjarvöktun á einkennum
„Ég hef velt mikið fyrir mér hvernig hægt sé að koma betur þessum skilaboðum um heilbrigðan lífsstíl áleiðis. Það er stundum erfitt í stuttu viðtali við sjúkling, en ég tel að snjalltækni gæti verið áhugaverður kostur í þessu tilliti. Margir nota snjallsímann nú þegar til að skrá ýmsar heilsufarslegar upplýsingar um sig; púls, öndunartíðni, súrefnismettun, blóðþrýsting, svefnmynstur og hreyfimynstur sem dæmi. En kannski gætum við bætt um betur og nýtt þessa tækni til að koma upplýsingum um lífsstílsbreytingar og hvatningu til sjúklinga. Við getum líka nýtt okkur snjallsímana betur til að fylgjast með sjúklingum; verið með einhvers konar fjarvöktun á þeirra einkennum. Við erum einmitt með tilraunaverkefni á hjartadeildinni sem gengur út á fjarvöktun einstaklinga með hjartabilun sem er gríðarlega áhugavert,“ segir Davíð og útskýrir að fólk notar þá snjallforrit til að svara spurningum um líðan og fær þá skor sem birtist í grænum, gulum eða rauðum litum, eins og umferðarljós. Davíð segir að þetta gæti reynst mjög vel og hjálpað að forgangsraða og meta sjúklinga.

„Þeir sem eru þá alltaf á grænum lit þurfa kannski ekki að koma jafn títt á göngudeild. Þeir sem eru á gulu eða rauðu þurfa meiri athygli,“ segir hann.

Davíð segir þau einnig hafa fjarvaktað fólk með gangráð og bjargráð og að það hafi gefist mjög vel.

„Við erum líka að senda þeim sem eru í hjartabilunarverkefninu upplýsingar um hreyfingu og mataræði og reynum að sníða það eftir hverjum og einum,“ segir Davíð og er sannfærður um að í slíkri fjarvöktun liggi mikil tækifæri til að bæta heilbrigðisþjónustu.

Nútímavætt heilbrigðiskerfi
„Við stöndum eiginlega á barmi byltingar í heilbrigðisþjónustu, bæði hvað varðar framfarir í erfðafræði, sér í lagi raðgreiningu erfðamengis og svo í að nýta snjalltæknina. Hvort tveggja er ofboðslega spennandi. Þótt bein samskipti lækna og sjúklinga séu og verði áfram mjög mikilvæg þá verður vinnulag okkar að þróast með tækninni,“ segir Davíð og bendir á að unga fólkinu í dag finnist ofureðlilegt að eiga mikil samskipti í gegnum samfélagsmiðla og allt eins líklegt að það muni eiga við ýmsa þjónustu sem þau sæki sér í framtíðinni.

„Að mínu viti liggur ein helsta áskorun þeirra sem stýra heilbrigðiskerfinu í skýrari verkstjórn og verkaskiptingu milli mismunandi eininga þess. Við erum að mörgu leyti með gott heilbrigðiskerfi með mörgum öflugum einingum innan þess. En meinsemdin er kannski ekki síst sú að þær hafa þróast svolítið án samhengis,“ segir Davíð og nefnir að vanti meiri samvinnu og samþættingu á milli spítala, heilsugæslu og sjálfstætt starfandi læknastofa.

„Ég held að heilbrgiðiskerfið yrði öflugra með skýrari verkaskiptingu um hverju á að sinna á hverjum stað og hvernig hægt sé að efla samstarfið á milli. Með því opnast tækifæri til að nýta fjármuni á skynsamlegri hátt.“

Gen sem stjórna vellíðan?
Vellíðan og heilbrigður lífsstíll hefur verið Davíð lengi hugleikinn.

„Öll höfum við áhuga á þessu fyrirbæri, vellíðan. En á hverju byggist þessi tilfinning? Svarið er sennilega margþætt. Mín skoðun er sú að jafnvægi milli hvetjandi (sympatískra) og letjandi (parasympatískra) hluta ósjálfráða taugakerfisins skipti þar miklu máli. Ójafnvægi, og þá sér í lagi aukin virkni hvetjandi hlutans, geti verið erfitt,“ segir hann.

„Skammtímastreita getur verið jákvæð en streita til lengri tíma er mjög skaðleg. Hún getur leitt til alls kyns líkamlegra vandamála; hjartsláttartruflana, hás blóðþrýstings, meltingartruflana, höfuðverks og stoðkerfisvanda. Svo leiðir það líka til kvíða, einbeitingarskorts og jafnvel þunglyndis. Þetta eru hlutir sem talað er um þegar talað er um síþreytu og kulnun. Ég er þeirrar skoðunar að of mikil keyrsla á hvetjandi hlutann sé skaðleg og við þurfum að ná meira jafnvægi. Við getum gert það á margan hátt; með því að hreyfa okkur, ná góðum svefni, stunda innhverfa íhugun og slökun. Við gerum ekki nóg af því að ræða jákvæð áhrif af þessu og hvað þurfi að gera til að ná jafnvægi. Þarna eru ákveðin sóknarfæri sömuleiðis,“ segir Davíð og nefnir að þarna geti snjalltæknin komið vel að notum.

„Kannski eru þarna tækifæri til að meta jafnvægið í ósjálfráða taugkerfinu með ýmsum upplýsingum sem fólk skráir daglega, til dæmis púlsgildi og blóðþrýsting. Það mætti rannsaka líðan fólks samfara þessari upplýsingasöfnun og kanna fylgnina. Svo ef til vill mætti nota svona upplýsingar áfram í erfðarannsóknum og reyna að finna þau gen sem stýra vellíðan,“ segir hann og brosir.

Mikil viðurkenning
Landspítalinn hefur í fimmtán ár útnefnt heiðursvísindamann ársins. Sá er útnefndur sem þykir hafa skarað fram úr í vísindavinnu á sínum ferli. Í ár er Davíð O. Arnar heiðraður og er hann að vonum ánægður. Hann vill þó deila þessum heiðri með samverkafólki sínu.

„Þetta er ofboðslega mikil viðurkenning og ekki síst fyrir þá sem hafa unnið með mér. Þetta er teymisvinna og samstarfsaðilarnir skipta höfuðmáli. Þetta er fyrst og fremst viðurkenning fyrir verkefnin sem við höfum unnið saman.“

Við förum að slá botninn í samtalið en hættum ekki fyrr en við höfum rætt sjálft læknisstarfið.

„Mér finnst læknisstarfið alveg frábært og ég get ekki hugsað mér betra starf. Þetta er fjölbreytt, gefandi og líflegt. En auðvitað eru ýmsar áskoranir og starfið getur verið krefjandi á köflum. Kjarni málsins er hins vegar sá að maður er að vinna alla daga að áhugaverðum verkefnum með frábæru fólki. Samskiptin við sjúklinga eru þó það sem gerir þetta svo skemmtilegt. Læknir þarf að hafa áhuga á að leysa vandamál skjólstæðingsins og hann þarf að vera lausnamiðaður og úrræðagóður,“ segir Davíð að lokum.

Morgunblaðið laugardaginn 10, október 2020