
Líftölfræðingurinn Thor Aspelund er í hringiðu kórónuveirufaraldursins. Hann er maðurinn á bak við spálíkön, gröf og súlurit sem landinn rýnir vandlega í um þessar mundir. Thor telur að þjóðin þurfi að venjast sambúð við veiruna í ár í viðbót.
Thor Aspelund kemur aðvífandi á myndarlegu rafmagnshjóli einn hrollkaldan en sólríkan haustdag í vikunni. Hann spennir af sér hjálminum og læsir hjólinu fyrir utan Háskólatorg þar sem við höfðum mælt okkur mót. Ekkert er eins og það á að vera; torgið iðar ekki af blaðskellandi háskólanemum heldur læðist ein og ein mannvera um galtóman salinn með grímu fyrir vitum. Við innganginn er boðið upp á grímur og spritt og á hverju borði eru hreinsiklútar. Svæðið er lokað af með böndum og skiltum: Lokað vegna Covid. Við náum að kaupa okkur kaffi í bóksölunni og finnum afskekkt horn þar sem ekki er bannað að sitja. Tilgangur fundarins er að komast að því hver þessi maður er; maðurinn sem talar af skynsemi og yfirvegun á skjám landsmanna og upplýsir okkur um tölfræðina á bak við veiruna.
Thor er líftölfræðingur, sem er starfsheiti sem fæst okkar hafa hreinlega heyrt um áður. Líftölfræði er kennd á meistara- og doktorsstigi hjá Háskóla Íslands og veitir hagnýta þekkingu á því hvernig tölfræði er notuð í rannsóknum á sviði líffræði, erfðafræði, lýðheilsu- og heilbrigðisvísinda, og veitir einnig sterkan grunn í tölfræði og gagnaúrvinnslu.
Mikið er nú gott að til er fólk sem lagt hefur á sig þetta nám, því nú í heimsfaraldri er afar mikilvægt að hægt sé að reikna út þetta ólíkindatól sem veiran er, hvert hún fer, hvernig er best að tækla hana og við hverju við getum búist. Dr. Thor Aspelund hefur hingað til verið maðurinn á bak við tjöldin, svo að segja, en í heimsfaraldri steig hann fram í sviðsljósið til að halda þjóðinni upplýstri, ásamt þríeykinu okkar góða. Allt til þess að við getum lifað eins eðlilegu lífi og mögulegt er á tímum heimsfaraldurs.
Róleg innitýpa
Thor fæddist í New York í upphafi ársins 1969, þriðja barn Erlings Aspelund og Kolbrúnar Þórhallsdóttur, en á þeim tíma bjó fjölskyldan á Long Island.
„Faðir minn var stöðvarstjóri Loftleiða á Kennedy-flugvelli og svo fulltrúi forstjóra inni á Manhattan í Rockefeller Center. Mamma var flugfreyja þar til hún eignaðist börn en hún vann líka um tíma í fínum búðum inni á Manhattan,“ segir Thor og segir fæðingarstaðinn útskýra nafngiftina.
„Það var ekki hægt að nota bókstafinn þ í Ameríkunni. Ég átti að heita Þór, en það var ekki hægt og var því skellt í Thor,“ segir hann og brosir út í annað.
„Við fluttum heim stuttu eftir að ég fæddist þannig að ég missti af því að vera New York-búi. Bræður mínir tveir sem eru eldri ólust þar upp til átta og níu ára aldurs. Ég á einnig eina yngri systur,“ segir Thor.
Eftir að fjölskyldan flutti heim tók faðir hans við starfi hótelstjóra á Hótel Loftleiðum.
„Hann var þekktur fyrir það að vera hótelstjórinn; það voru ekkert mörg hótel þá. Við bjuggum fyrst á Öldugötunni og fluttum svo þaðan út á Nes þegar ég var tíu ára. Ég lít alltaf á mig sem Vesturbæing. Ég var settur ári á undan í barnaskóla, því ég var snemma læs og mamma vissi ekkert hvað hún ætti að gera við mig. Ég var ekki gott leikskólabarn; kannski var ég bara innitýpa,“ segir hann og hlær.
„Ég var mjög mikið inni að leika og var rólegt barn, en fór auðvitað út í leiki, eins og var gert í þá daga,“ segir hann.
Thor segist ekki hafa haft áhuga á vísindum sem barn.
„Ég hafði strax brennandi áhuga á sögu og þá aðallega heimsstyrjöldunum. Við vinirnir vorum mikið í stríðsspilum, ég og Halli,“ segir hann og á við Harald Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins.
„Sagan var í fyrsta sæti, en ég var samt alltaf góður í stærðfræði; það lá vel fyrir mér. Ég hugsaði ekkert út í það að verða eitthvað tengt stærðfræði á þessum árum. Ég man ég var alltaf mjög heillaður af fluginu, vegna tengsla pabba við Loftleiðir. Ég hefði alveg verið til í að verða flugmaður og gekk með þann draum lengi í maganum. Pabbi var líka duglegur að fljúga en hann átti litla Cessnu. En svo sé ég ekki nógu vel; ég er mjög nærsýnn. Svo fór lífið bara ekki í þá áttina.“
Lék Rómeó í Herranótt
Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík og segir Thor að eiginlega ekkert annað hafi komið til greina, enda höfðu báðir bræður hans fetað þá braut.
„Í menntaskóla fór ég að hugsa um aðra hluti, eins og menningarstarf, og fór líka að hugsa um námið á annan hátt, en ég var afskaplega heppinn með kennara. Ég fékk mikinn áhuga á leiklist og fór í leiklistarfélagið Herranótt. Ég var í tvö ár í Herranótt; seinna árið sem formaður. Þá settum við upp Rómeó og Júlíu og lék ég Rómeó,“ segir Thor og brosir að minningunni.
Býr í þér leikari?
„Kannski,“ segir hann sposkur.
„Leikarinn í mér var þarna. En ég var kannski eitthvað feiminn við að fylgja því svo eftir. Þannig að ég fór aldrei í inntökuprófið í Leiklistarskólann.“
Eftir menntaskólann tók háskólinn við og hóf Thor nám í rafmagnsverkfræði og síðar í guðfræði.
„Ég fór smá krókaleiðir, en ég hef alltaf haft áhuga á ýmsu. Ég kláraði eitt og hálft ár í rafmagnsverkfræði en áhuginn datt niður og ég var að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera. Ég þekkti gott fólk í guðfræði og sló til og tók seinni hluta vetrar þar. Ég sá fljótt að guðfræðin yrði ekki að ævistarfi en þetta var heiðarleg skoðun á tilverunni og mjög ánægjulegur tími.“
Ertu trúaður?
„Ég pæli mikið í trú og hvað trú þýðir. Það er erfitt að vera trúaður og vera í vísindum, en þetta getur vel farið saman. Ég er frekar að velta fyrir mér möguleikunum af því maður veit ekkert; það er ekkert í hendi. Ég les mikið um trúarbrögð, um kristni og um hinn sögulega Jesú. Ég vil ekki taka trú hátíðlega heldur spá og spekúlera. Svo hef ég mjög gaman af því að fara í kirkju og fer frekar oft í messu. Þar er gott að hugsa um lífið og tilveruna og um leið er það góð hvíld,“ segir Thor.
„Ég er líka mikið í jóga og hugleiðslu. Þetta getur allt farið saman.“
Tilviljanir og tölfræði
Eftir að Thor hafði prófað sig áfram í bæði verkfræði og guðfræði, hóf hann nám í stærðfræði.
„Ég fann mig strax vel í líkindafræði og tölfræði og svo algebru, sem er frekar abstrakt. En ég hafði alltaf áhuga á hagnýtu hliðinni. Ég fékk ótrúlega gott tækifæri sem nemi; svona geta örlögin togað mann í réttar áttir. Kjartan Magnússon heitinn hafði kennt mér í MR og þarna hitti ég hann aftur, en hann var þá með rannsóknarverkefni og vantaði nema. Kjartan var að rannsaka fiskistofna fyrir Hafrannsóknastofnun með Gunnari Stefánssyni tölfræðingi og ég fæ þá þar vinnu við að skoða stofnstærðir fiska. Mér fannst svo spennandi að geta notað stærðfræðina í eitthvað hagnýtt. Svo þegar ég var búinn að læra meira í tölfræði fór ég að vinna að rannsókn hjá dr. Hólmfríði K. Gunnarsdóttur. Hún var að rannsaka krabbamein vinnandi kvenna og hvernig það var mismunandi milli stétta. Þar kviknaði áhuginn á tölfræði tengdri heilbrigðisvísindum. Það var tilviljun að ég lenti í þessum tveimur verkefnum en þarna sá ég hvernig hægt væri að nota tölfræði í hagnýtum verkefnum og neistinn kviknaði. Ég fann þá hvar áhuginn lá og ákvað að halda áfram í tölfræði.“
Á háskólaárunum kynntist Thor konu sinni, lækninum Örnu Guðmundsdóttur.
„Þar er komin enn ein læknatengingin,“ segir Thor og brosir.
„Og svo er Guðrún systir mín læknir. Og reyndar yfirlæknir á sóttvarnasviði hjá Þórólfi. Við erum systkinin á kafi í að vinna við Covid. Hver hefði spáð því?“
Snemma á tíunda áratugnum flutti unga parið til Iowa í Bandaríkjunum með ungan son sinn. Arna hóf sérnám í innkirtlalækningum en Thor byrjaði í meistaranámi í tölfræði. Þar dvöldu þau í góðu yfirlæti í sex ár og eftir heimkomuna bættust tveir drengir í hópinn.
„Ég tók líka doktorspróf í Iowa á meðan Arna var að klára sína sérgrein. Þarna var rólegt og gott að vera.“
Thor skrifaði doktorsritgerð sína um tölfræði greiningarhæfni í læknisfræði.
„Ég gerði rannsóknir á greiningarhæfni myndgreiningar, aðallega röntgen. Þessi rannsókn nýttist mér vel seinna meir. Þegar maður lærir eitthvað nýtt, veit maður ekki hvar það kemur til með að nýtast.“
Brjálað að gera
Við heimkomuna hóf Thor störf hjá Hjartavernd undir handleiðslu Vilmundar Guðnasonar, forstöðulæknis. Þar vann Thor að ýmsum rannsóknum og bjó til fjölmörg spálíkön.
„Ég er enn að vinna að rannsóknum hjá Hjartavernd,“ segir Thor en hann er einnig prófessor í tölfræði.
„Ég fann það strax í menntaskóla að akademískt umhverfi átti vel við mig. Það er öruggur staður til að vera á,“ segir hann og hlær.
„Ég kem þá þar inn og byrja að kenna líftölfræði til meistara- og doktorsnáms. Ég hef farið alveg í þá áttina. Svo kenni ég lifunargreiningu og um spálíkön; aðferðir til að meta hversu lengi fólk lifir og áhættur í umhverfi. Svo kenni ég með hinum kennurunum í faraldsfræði, auk stærðfræði. Þannig að ég er víða,“ segir Thor og segist njóta þess að miðla þekkingu til nemenda sinna.
„Ég tala stundum svolítið hægt þannig að mér er sagt að nemendur mínir stilli á meiri hraða þegar þeir hlusta á fyrirlestra mína á netinu,“ segir hann og hlær.
Thor er með puttana í fleiri verkefnum.
„Ég er líka með sprotafyrirtæki sem heitir RetinaRisk, en þetta er alþjóðasamstarf sem tengist sykursýki og augnlækningum. Við erum að þróa app sem stýrir því hversu oft fólk fer til augnlækna og hversu mikla þjónustu fólk vill. Málið er að langflestir þurfa að fara sjaldnar til augnlækna en þeir gera og með þessu er hægt að spara mikið fé í heilbrigðiskerfinu. Ég er svo líka formaður skimunarráðs fyrir krabbameinum. Þar erum við að móta stefnur varðandi skimun á krabbameini. Landlæknir á frumkvæði að þessu með skimunarráðið; hún hefur mikla framtíðarsýn,“ segir Thor og viðurkennir að það sé yfrið nóg að gera.
„Það er brjálað að gera, kannski aðeins of mikið.“
Kenndi Þórólfi tölfræði
Í miðju viðtali heyrast lágar drunur, byggingin fer að titra sem endar með miklum dynk. Háskólatorg skelfur. Eftir að hafa jafnað okkur á jarðskjálftanum notum við tækifærið og skiptum yfir í mál málanna, kórónuveiruna og hlutverk Thors í samfélagi sem er í heljargreipum heimsfaraldurs.
„Ég var ekkert á þessu sviði, faraldsfræðinni, og grunaði ekki að við ættum eftir að sjá svona veirufaraldur. Í febrúar, rétt áður en veiran kom hingað, fannst konu minni að ég þyrfti að fara að spá í þetta. Ég hugsaði þá: Hvað er ég að trana mér inn á þetta svið?“ segir hann og hlær, en er nú löngu kominn á kaf í vinnu á þessu sviði.
Í ljós kemur að Thor þekkti Þórólf Guðnason vel áður.
„Þórólfur sóttvarnalæknir tók doktorspróf í lýðheilsu hjá okkur og þekkir okkur vel. Það er gaman að vinna með honum og ég kenndi honum tölfræði. Hann var frábær nemandi, það er ekki að spyrja að því,“ segir hann kíminn.
„Þórólfur hafði samband við okkur í byrjun mars og vildi hittast til að spá í málin. Við hittumst svo og ákváðum að það þyrfti að meta framgang faraldursins og ekki síst að hafa einhvers konar hugmynd um hvaða álag hann hefði á heilbrigðiskerfið. Það var alltaf fókusinn; álagið á heilbrigðiskerfið. Þá var reynslan komin frá Kína að faraldurinn færi upp og niður í bylgjum. Þeir reyndar hömruðu þetta niður með svakalega hörðum aðgerðum. Við vorum sannfærð um það þá, og erum enn, að það væri hægt að halda þessu niðri með aðgerðum, en þær þyrftu að vera nokkuð stífar. Svo þegar þetta gekk niður hér í fyrstu bylgju, þá var þetta svolítið eins og í Kína. Þetta fór hratt upp og hratt niður, en við tókum mjög ákveðið á þessu sem þjóð í fyrstu bylgju. Þá hugsaði fólk, bæði hér og annars staðar á Norðurlöndum, að það yrði jafnvel ekki önnur bylgja, eða þá einungis litlar,“ segir hann.
Thor segir það ekki hafa verið markmið að að spá fyrir um næstu bylgju.
„Það var reyndar búið að spá því fyrir okkur hjá Imperial College í London. Þeirra hugmynd var að fyrsta bylgjan væri stærst og svo kæmi minni haustbylgja. Þess vegna vorum við svolítið hissa þegar önnur bylgjan kom í lok júlí, en hún varð ekki neitt neitt. Svo þarf oft ekki nema smá óheppni, eins og stórt hópsmit, til að breyta hlutum eins og gerðist núna í haust. Í september var meiri hreyfanleiki í þjóðfélaginu og það er eins og þegar maður kveikir lítinn neista, þá getur orðið bál. Þeir hjá Imperial College spá svo fjórðu bylgju um jólin,“ segir Thor.
„Kannski þurfum við bara að búast við því og undirbúa okkur með það í huga, svo það þyrfti mögulega ekki að loka öllu aftur. Er hægt að hugsa jólahlaðborðin þannig að fólk smitist ekki? Ég veit það ekki.“
Hópsmit skekkti myndina
Thor fann sig fljótt í vor á bólakafi í vinnu fyrir sóttvarnalækni og stendur sú vinna enn yfir.
„Við höfum unnið í þessu jafnt og þétt, en við erum fáliðuð. En við erum mjög heppin með fólk og nemarnir okkar í tölfræði og stærðfræði eru frábærir. Það þurfa svo margir að koma að þessu; og fleiri en faraldsfræðingar og líftölfræðingar.“
Thor hefur búið til spár sem lýsa því hvernig faraldurinn hegðar sér, en eins og með aðrar spár, rætast þær ekki alltaf. Fjöldi smitaðra nú í október var meiri en spáð hafði verið.
„Það var stórt hópsmit í hnefaleikastöðinni í Kópavogi sem skekkti myndina. Svona er erfitt að sjá fyrir,“ segir hann og nefnir að í spálíkani er ekki gert ráð fyrir frávikum, eins og hópsmiti.
„Við erum að bregðast við þessu og sjáum að þessi bylgjuhugsun á kannski ekki við ástandið núna. Við sjáum ekki núna að við séum að ná að sigra þetta, eins og í fyrstu bylgju, heldur að halda þessu niðri. Þetta verða misstórar bylgjur og stundum tökum við ekki eftir að það sé bylgja ofan í bylgju. Við erum að bakka svolítið núna því við sjáum að við getum ekki verið að spá svona með þessum hætti lengur heldur þurfum við að líta til skemmri tíma í senn. Við erum búin að stytta spár niður í tíu daga; þetta er eins og tíu daga veðurspár. Við sættum okkur við það að þetta er orðið flóknara.“
Ertu svekktur þegar spárnar klikka?
„Það er eiginlega ekki hægt að segja að þær klikki. Ef við náum að halda faraldrinum niðri eins og að hlutirnir séu undir stjórn, þá mun faraldurinn ganga svona. Það gerðist í fyrstu og annarri bylgju en svo ekki núna. En það er vísbending; það bilaði eitthvað hjá okkur. Svona hópsmit setur okkur af leið. Það brást eitthvað í umhverfinu. Spálíkanið segir okkur bara hvað hefði gerst ef allt hefði verið undir stjórn,“ segir hann og líkir þessu við vaxtarkúrfu barna.
„Börn vaxa eftir kúrfunni. Þegar við sjáum barn fara út af leið er ekkert að vaxtarkúrfunni, heldur áttum við okkur á því að þarna þarf að grípa inn í hjá þessu barni.“
Að setja okkur þolmörk
Annað sem Thor vinnur að í faraldrinum er að reikna út smitstuðul veirunnar, sem þýðir hversu margir einstaklingar smitast út frá einni manneskju.
„Þá reiknum við út hraðann á smitum. Hvort það séu að greinast óvenjumörg smit. Við erum að fara meira inn á þá braut að gefa upplýsingar um smitstuðulinn, en gefum líka út spá um fjölda. Ef smitstuðullinn er hár, segir það manni að þetta er að fara mjög hratt um,“ útskýrir Thor.
Sem líftölfræðingur, hvernig sérðu þetta fyrir þér enda?
„Ég hef áhyggjur af því að það sé langt í land. Við eigum eftir að fá bóluefni og svo á eftir að dreifa því. Við verðum ekki komin með hlutina í lag fyrr en seint á næsta ári. Ég spái því. Þess vegna verðum við að fara að hugsa hlutina öðruvísi. Mögulega verðum við að setja okkur markmið með það fyrir augum að það verði alltaf einhver smit. Við þurfum að ákveða hvað við þolum mörg smit; setja okkur þolmörk. Það gengur vel hjá spítalanum núna að halda utan um þetta,“ segir hann.
„Smitrakningin verður líka að halda í við faraldurinn. Það er lykilatriði. Við erum alltaf að læra betur á þetta. Hvernig er hægt að halda skólum opnum? Það er erfið tilhugsun að halda skólum lokuðum fram á vor. Eins með íþróttir, við vitum hvað það gerir börnum gott að vera í íþróttum. Við þurfum kannski að sætta okkur við smit á ákveðnum fjölda og grípa svo inn í ef fjölgar of mikið.“
Hvað með að loka öllu algjörlega í tvær vikur og drepa alveg niður veiruna?
„Ég hef áhyggjur af því að hún laumi sér alltaf inn aftur, einhvern veginn. Ég held að það sé ekki hægt að stoppa þetta. Við þurfum frekar að taka þá stefnu að lifa með aðgerðum gegn veirunni. Fram á næsta sumar.“
Thor nefnir að smitrakning og sóttkví sé að skila góðum árangri.
„Með því tökum við ansi marga út fyrir sviga sem hefðu annars smitað aðra, þannig að í heildina er smitstuðullinn lægri. Þeir sem eru í sóttkví eru ekki að smita. Þetta er grundvallaraðgerð, annars værum við búin að missa tökin.“
Stefnum í nýjar áttir
Hefurðu gert einhverja útreikninga um mátt sóttvarna, eins og grímunotkun?
„Já, nú er einmitt verkefnið að taka nýja stefnu. Nú hefur safnast saman reynsla síðustu mánaða, frá mörgum löndum. Hvaða aðgerðir hafa verið notaðar og hvernig smitin breyttust í takt við það. Til að geta gert eitthvað vitrænt eru menn núna að rannsaka hvaða aðgerðir virka best. Það er stundum erfitt að toga þær í sundur, því að margar aðgerðir eru í gangi á sama tíma. Við erum að reyna að finna út hvaða samsetningar virka best; getum við sleppt einhverju? Getum við haft grímuskyldu og þá farið í fimmtíu manna hópareglu? Eða er það samt ekki nógu gott? Getum við haft opna skóla? Vinnustaði? Þetta verkefni er núna að fara á flug. Við erum að vinna þetta með finnskum fræðimanni í Bandaríkjunum og ætlum að vera þar í samfloti með að vega og meta áhrif aðgerða. Við erum að finna góðar samsetningar á aðgerðum sem við getum sætt okkur við. Þá getum við vegið og metið nokkra mismunandi kosti. Ég er að fara af stað að rannsaka þetta núna. Við stefnum í nýjar áttir,“ segir Thor.
„Það er mjög erfitt að finna einhverja eina leið núna sem virkar, en finnska módelið komst mjög fljótt að þeirri niðurstöðu að við eigum bara að vera heima. Fólk á bara að halda sig heima. Við höfum aldrei reynt þá leið, eins og hefur verið prófað á Spáni og fleiri stöðum. Það kýlir niður faraldurinn, en við hljótum að geta rannsakað hvort hægt sé að skipta út einhverjum möguleikum í staðinn fyrir þennan. Það er það sem þessar rannsóknir beinast að.“
Ekki með í næsta faraldri
Þú nefndir að fjórða bylgjan myndi skella á um jólin. Verður hún jafn slæm og sú þriðja?
„Það er ómögulegt að segja. Það er hreyfileikinn í þjóðfélaginu sem setur allt af stað og þá er hættan fyrir hendi. Við höfum verið að rannsaka þetta í líkanagerð, þennan hreyfiþátt. Hann er algjör áhrifavaldur.“
Er fólk þá of mikið á ferðinni?
„Já, það var það. Við erum núna minna á ferðinni og erum núna líka með grímur. Kannski getum við ráðið við þetta um jólin ef við hugsum þetta fyrirfram. Við verðum að gera það, ekki vill maður hafa allt lokað um jólin.“
Burtséð frá leiðindum veirunnar, hefur þetta ekki verið spennandi verkefni fyrir líftölfræðing?
„Jú, og sérstaklega eru þetta spennandi tímar fyrir samstarf á milli fagsviða. Það eru alls kyns möguleikar að birtast okkur og þetta er nokkuð sem við þurfum að kunna. Þetta fag, faraldsfræði smitsjúkdóma, var svolítið að gleymast af því að faraldrar komu ekki mikið til Íslands, þeir voru oft í fjarlægum löndum. En þetta er ekkert síðasti faraldurinn. Segjum að það kæmi annar heimsfaraldur eftir tíu ár, þá verður unga fólkið sem er að vinna að þessu núna fljótt að bregðast við og það er mikilvægt að vinna í samstarfi við önnur lönd. Þá verð ég eldri og verð ekkert með í því, nema mögulega sem ráðgjafi,“ segir Thor og brosir.
„Þegar bóluefnið kemur sný ég mér að öðru og þá tekur einhver annar við. Ég ætla ekki að vera í næsta faraldri, það er alveg á hreinu. Ég á það samt til að segja alltaf já þegar ég er beðinn um eitthvað.“
Morgunblaðið laugardaginn 24. október 2020