Hvað er Hjartaheill og fyrir hvað standa samtökin?

HJARTAHEILL stendur nú að söfnun til ármögnunar á fræðslu- og forvarnarverkefnum í málefnum endurlífgunar.

Hjartaheill voru stofnuð til að bæta lífslíkur íslenskra hjartasjúklinga.

Það hefur tekist framar öllum vonum og lífslíkur fólks sem fær hjartasjúkdóma eru betri nú en nokkru sinni.

Allt starf Hjartaheilla miðar að því að bæta forvarnir, fræðslu og aðstöðu til lækninga á þessum sjúkdómi.

Sem betur fer eru hjartalækninga á Íslandi nú í fremstu röð. Hér er hátæknibúnaður, þrautreynt og vel menntað starfslið og jafnast við það besta sem þekkist erlendis.

Hjartaheill eiga sinn þátt í þessari þróun og hafa lagt fram mikla fjármuni til tækjakaupa. Þau hafa verið fjármögnuð með sjálfstæðum fjáröflunum, átaksverkefnum og ekki síst með söfnunarkúlum Hjartaheilla sem hafa verið drjúg tekjuöflun.

Hjartaheill voru stofnuð 1983 og hétu þá Landssamtök hjartasjúklinga, en nafninu var síðar breytt í Hjartaheill. Fljótlega urðu til deildir í landshlutum og starfið var afar öflugt.

Hjartaheill gengu í Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, SÍBS, árið 1992 og eiga sjálfstæða aðild að Öryrkjabandalagi Íslands.

Neistinn, aðstandendafélag hjartveikra barna var stofnað 1995 og er deild innan Hjartaheilla. Starf Neistans hefur verið þróttmikið í áranna rás og hefur Styrktarsjóður hjartveikra barna, sem er á vegum Neistans veitt ómetanlegan stuðning til foreldra sem hafa þurft að kosta miklu til vegna hjartveikra barna sinna, m.a. til nauðsynlegra ferðalaga vegna aðgerða og margs annars.

Hvað er Hjartaheill?
Hvað er Hjartaheill?

Á tuttugu og fimm ára afmæli Hjartaheilla 2008 gengu Hjartadrottningarnar til liðs við samtökin en þær eru hluti af Go-Red hreyfingunni, sem eru alþjóðleg samtök kvenna til varnar hjartasjúkdómum.

Hjartaheill unnu mikið brautryðjendastarf með því að ferðast um landið ár eftir ár í tvo áratugi og bjóða upp á fríar mælingar á blóðþrýstingi, blóðfitu, súrefnismettun, og fjölmörgum þáttum öðrum. Það starf er nú komið í fastan farveg með samvinnu við SÍBS og fleiri samtök.  undir heitinu Líf og heilsa.

Samstarf við Hjartavernd, sem var mikið á fyrstu árum sambandsins, hófst að nýju árið 2010 með útgáfu sérstaks fræðslublaðs um málefni um hjarta- og æðasjúkdóma í samvinnu við Hjartavernd og Heilaheill, samtök þeirra sem fengið hafa heilablóðfall. Þetta samstarf hefur haldið áfram og gengur vel.

Misskilnings gætir stundum á hlutverki Hjartaverndar, sem eru sérfræðisamtök og annast rannsóknir og Hjartaheilla, sem eru samtök áhugafólks um bættan hag hjartasjúklinga. Þau sameinast hins vegar í starfi og aðgerðum að forvörnum. Þar fara hagsmunir þeirra mjög vel saman.

Hlutverk Hjartaheilla er:

  • að sameina hjartasjúklinga, aðstandendur þeirra og áhugafólk um heilbrigt hjarta
  • að stuðla að betri heilsu og bættum lífsgæðum í íslensku samfélagi, með áherslu á framfarir í forvörnum, fræðslu og meðferð hjartasjúkdóma
  • að standa vörð um hagsmuni og réttindi hjartasjúklinga
  • að starfa faglega
  • að framfylgja markmiðum samtakanna.

HJARTAHEILL stendur nú að söfnun til fjármögnunar á fræðslu- og forvarnarverkefnum í málefnum endurlífgunar.
HJARTAHEILL leitar til almennings og fyritækja í landinu um stuðning við þessi verkefni sín.

Stuðning þinn getur þú veitt:
Með greiðslu í heimabanka, kr. 3.500 eða meira eða minna.
Með millifærslu á reikning: 0513 26 1600, Kennitalan er: 511083 0369.
Með hringingu í síma 903 7100 styrkir þú verkefnið um 3.500 kr.