
Hjartalækningar eru dramatískt og heillandi fag. Mér þykir lífeðlisfræðin í kringum hjarta- og æðakerfið spennandi og hvernig stýringu rafkerfis hjartavöðvans og æðakerfisins er háttað. Svo ótal margt gott hefur líka áunnist í meðferð hjartasjúkdóma á síðustu árum og áhugavert
hvernig hægt er að fyrirbyggja hjartasjúkdóma með réttum lífsstíl og grípa inn í þá snemma,“ segir Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur í hjartalækningum, um ástæður þess að hún menntaði sig í hjartalækningum.

Þórdís Jóna starfar á hjartadeild Landspítalans þar sem hún tekur iðulega á móti fólki með bráð vandamál.
„Starfið tekur á, enda höfum við ekki alltaf langan tíma til umhugsunar, en sem betur fer er hjartað mjög vel rannsakað og stórar rannsóknir til um hvernig meðferð er
best að veita. Mjög margt er hægt er að gera og meira að segja er hægt að fá nýtt hjarta, þótt slíkt gerist í undantekningartilfellum.“
Tveir hópar hjartasjúkdóma
Stærsti hópur hjartasjúkdóma er kransæðasjúkdómur sem orsakast af æðakölkun. Undir það flokkast hjartaöng og hjartaáfall (kransæðastífla).
„Skipta má hjartasjúkdómum í tvo hópa; þá sem eru í æðum hjartans og svo sjúkdóma í hjartavöðvanum, svo sem ofþykknun hjartavöðvans, og sjúkdóma sem valda stækkun á hjartavöðva, en hvort tveggja getur leitt til hjartsláttartruflana og hjartabilunar,“ upplýsir Þórdís Jóna.
Undir hjartasjúkdóma flokkast líka truflanir í rafkerfi hjartans.
„Þá getur okkar innbyggði gangráður bilað og er meðferð þá ísetning nýs gangráðar. Einnig geta raf boð hjartans truflast og valdið til dæmis gáttatifi, sem er algengasta hjartsláttartruflunin. Gáttatif er ekki lífsógnandi, en getur haft langtímaáhrif á hjartað og valdið hættu á hjartabilun,“ útskýrir Þórdís Jóna.
„Við gáttatif er hætta á að myndist blóðtappi í hjartanu sem getur farið af stað og þá endar blóðtappinn gjarnan í höfði og veldur þar heilaslagi. Blóðtappi getur líka lent í fæti eða meltingarfærum, sem er óvenjulegra, en sé fólk með gáttatif reynum við alltaf að fyrirbyggja slag, með því að hafa það á blóðþynnandi meðferð.“
Sleglahraðtaktur er óvenjuleg en lífshættuleg hjartsláttartruflun. „Þá fær viðkomandi yfirleitt blóðþrýstingsfall og fellur jafnvel í yfirlið, sem eru mun alvarlegri einkenni. Einnig geta komið upp óvenjulegir sjúkdómar í hjarta og æðakerfinu, til dæmis bólgur í gollurhúsinu, sem er poki sem umvefur hjartað, og hægt er að fá bólgur í hjartavöðvann, oftast í tengslum við smitsjúkdóma,“ upplýsir Þórdís Jóna.
Slagæðar líkamans teljast líka til hjarta- og æðakerfisins.
„Þar er háþrýstingur meiri áhættuþáttur en sjúkdómur, en þó teljum við hann til hjartasjúkdóma því hann hefur afleiðingar fyrir hjartað. Hjartabilun vegna háþrýstings er sú alvarlegasta, en hár blóðþrýstingur ýtir líka undir kransæðasjúkdóma og hjartsláttartruflanir, auk þess að vera stærsti áhættuþátturinn á heilaslagi.“
Þá eru meðfæddir hjartasjúkdómar og hjartalokur ótaldar sem hjartasjúkdómar.
„Hjartalokurnar geta bilað og er algengast að fá þrengsli í ósæðalokuna vegna kölkunar, eða þá leka í níturlokuna, en þau vandamál fylgja gjarnan hækkandi aldri,“ segir Þórdís Jóna.
Algengasta dánarmeinið
Hjartasjúkdómar eru algengasta dánarmein Íslendinga, sé horft á alla aldursflokka í dánarmeinaskrá. Um það bil þriðjungur þjóðarinnar deyr úr hjarta- og æðasjúkdómum, en í aldursflokknum 75 ára og yngri hafa krabbamein nú yfirhöndina.
„Hjartasjúkdómar valda oft ótímabærum og skyndilegum dauða. Hins vegar má ekki gleyma að rétt eins og með krabbamein, lifir gríðarlegur fjöldi fólks með hjartasjúkdóma og skerðingu á hjartastarfsemi. Við náum að bjarga fleirum sem fá bráðakransæðastíflu og í dag eru lífslíkur allt aðrar en fyrir tuttugu árum,“ segir Þórdís Jóna, sem vill sjá fólk koma á
bráðamóttökuna um leið og fyrstu einkenni gera vart við sig, enda geti hver mínúta skipt sköpum.
„Einkenni geta verið skyndilegur brjóstverkur án áreynslu og sem situr í einhverjar mínútur, og hafi fólk ekki augljósa skýringu á verknum viljum við fá það strax til skoðunar. Við viljum frekar sjá fólk einu sinni of oft heldur en þegar það er orðið of seint og því miður kemst talsvert stór hluti þeirra sem látast af völdum bráðakransæðastíflu aldrei á spítalann og deyr á vettvangi.“
Einkenni hafi líka oft látið á sér kræla áður en alvarleg veikindi ágerast hratt.
„Ekki er óalgengt að fólk sem kemur á spítalann eftir endurlífgun rifji upp einkenni, sem það hefði átt að tengja við að væri hjartasjúkdómur áður, eða þá að ættingjar segi frá að sá látni
hafi fundið einkenni af og til, og kannski ætlað að leggja sig til að harka af sér og þá dáið í svefni.“
Greinarmun þurfi að gera á hjartavandamálum sem hafi aukist hægt og sígandi og þeim sem beri brátt að.
„Einkenni sem koma fyrirvaralítið og fara hratt versnandi á nokkrum dögum benda til þess að eitthvað alvarlegt sé yfirvofandi. Slík einkenni eru breyting á áreynslugetu, óeðlileg mæði eða brjóstverkur, óvenjulegur hjartsláttur og yfirliðstilfinning við áreynslu. Brjóstverkur getur svo verið staðsettur annars staðar en yfir miðju brjósti. Hann getur verið í handleggjum, aftur í baki eða í kjálka, en flestir lýsa honum eins og fargi á brjóstinu,“ upplýsir Þórdís Jóna.
Einkenni bráðakransæðastíflu eru brjóstverkur, yfirliðstilfinning, ógleði, kaldur sviti og vanlíðan.
„Haldi maður að hjartaáfall sé í aðsigi biður maður aldrei um skutl á spítalann heldur hringir beint í 112, því margt getur gerst á leiðinni og maður bjargar því ekki sjálfur. Þá þarf fagfólk að vera tilbúið til lífsbjargar. Hægt er að taka hjartalínurit í sjúkrabílum á höfuðborgarsvæðinu og ef þar greinist bráðakransæðastífla er sjúklingnum beint strax á hjartadeild þar sem tekin er af honum kransæðamynd og gerð hjartaþræðing.“
Tökum einkenni alvarlega
Þórdís Jóna mælir með reglubundinni hreyfingu og fjölbreyttu Miðjarðarhafsmataræði með áherslu á grænmeti, fisk, hollar olíur og trefjaríkan mat, en það hefur komið best út sem forvörn gegn hjartasjúkdómum.
„Í dag vita allir að reykingar eru mjög skaðlegar hjarta- og æðakerfinu. Góður svefn og geta til að takast á við streitu og álag er líka góð forvörn. Þá borgar sig alltaf að meðhöndla háþrýsting, annað hvort með lyfjum eða fyrirbyggjandi lífsstílsmeðferð.“
En þótt hjartasjúkdómar séu dauðans alvara, segir Þórdís Jóna ástæðulaust að fólk gangi um með öndina í hálsinum yfir því að vera mögulega hjartveikt.
„Fólk á einfaldlega að vera vakandi fyrir breytingu á líðan og einkennum, taka þau alvarlega og leita sér aðstoðar ef þau koma fram. Það á að sinna heilsu sinni og fyrirbyggjandi þáttum, leggja rækt við lífsstílinn, en það má heldur ekki leggjast í sjálfsásökun eða upplifa skömm fyrir að fá hjartasjúkdóm. Við sumu getum við einfaldlega ekki gert og þótt við getum orðið margt höfum við ekki enn fundið lausn við gátunni hjá öllum.“
Sjálf leggur Þórdís Jóna ríka rækt við heilsu sína og hreysti.
„Ég borða hollt og vel af grænmeti, hef aldrei reykt og læt reglulega mæla blóðfitur, blóðsykur og blóðþrýsting. Þá stunda ég langhlaup og keppi í utanvegahlaupi fyrir Íslands hönd. Það er mitt áhugamál og ástríða.“
HJARTAHEILL stendur nú að söfnun til fjármögnunar á fræðslu- og forvarnarverkefnum í málefnum endurlífgunar.
HJARTAHEILL leitar til almennings og fyrirtækja í landinu um stuðning við þessi verkefni sín.
Stuðning þinn getur þú veitt:
Með greiðslu í heimabanka, kr. 3.500 eða meira eða minna.
Með millifærslu á reikning: 0513 26 1600, Kennitalan er: 511083 0369.
Með hringingu í síma 903 7100 styrkir þú verkefnið um 3.500 kr.