Enn af konum og hjartasjúkdómum

Enn af konum og hjartasjúkdómum

Umræða um hjarta- og æðasjúkdóma hefur löngum hverfst um karlmenn, enda lögðust þessir sjúkdómar frekar á karla en konur fyrr á árum. Um miðja tuttugustu öldina tóku æ fleiri konur að greinast með þessa sjúkdóma og árið 2001 voru þeir orðnir algengasta dánarorsök kvenna.

Tilfellið er hins vegar að um þá staðreynd er aðeins helmingur evrópskra kvenna meðvitaður. Sjúkdómsferlið, greining og meðhöndlun er um margt ólíkt á milli kynja. Færri konur greinast á meðan verndandi áhrifa kvenhormónsins estrogen gætir, en það hefur áhrif á æðar og meðal annars kransæðar. En sex til tíu árum eftir tíðahvörf er dánartíðni kvenna svipuð hjá konum og körlum.

Áhættuþættir
Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma tengjast bæði erfðum og lífsstíl og eru þeir sömu hjá báðum kynjum. Reykingar hafa verið metnar hættulegasti þátturinn og er mikil áhersla lögð á að fá reykingamenn og -konur til að hætta að reykja. Í upphafi þeirrar baráttu tóku konur vel við sér, en samkvæmt árlegum úrtaksathugunum Embættis landlæknis árið 2019 eru aðeins fleiri konur sem reykja í dag. Línuritið er þó svipað hjá báðum kynjum og reykingafólki fækkar jafnt og þétt.

Of hár blóðþrýstingur og of há blóðfita eru einnig þekktir áhættuþættir, en því fylgir þögul áhætta þar sem oft koma engin einkenni fram. Ómeðhöndlað ástand hefur hins vegar alvarlegar afleiðingar. Ofþyngd leiðir einnig oft af sér sykursýkitýpu II og fylgir því mikil áhætta á að fá æðakölkun, sem leiðir til hjarta- og æðasjúkdóma.

Sá áhættuþáttur sem fer hvað mest vaxandi í nútímasamfélagi er streitan, en henni er mikilvægt að ná tökum á. Harmslegill (Broken Heart) eða Takotsupo, er sjúkdómur sem greinist nú í auknum mæli og oftar hjá konum eftir fimmtugt heldur en körlum og er streita í kjölfar áfalla og erfiðleika talin vera ein helsta orsök hans.

Konur vangreindar og minna meðhöndlaðar

Enn af konum og hjartasjúkdómum
Valgerður er hjúkrunarfræðingur og lýðheilsufræðingur, sem hefur sérhæft sig í endurhæfingu hjartasjúklinga.
Hún segir að góðar forvarnir séu sterkasta vopnið í baráttunni gegn hjartasjúkdómum. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Á það hefur verið bent í umræðu og rannsóknum að konum með hjartasjúkdóma sé ekki eins vel sinnt og körlum þegar kemur að greiningu og meðferð og í gegnum tíðina hafa þær verið vangreindar. Í sumum tilvikum kann það að stafa af því að einkenni kvenna lýsa sér á annan hátt en hjá körlum. Þess eru líka dæmi að konur slái því á frest að leita til læknis. Oft virðast þær vanmeta verkina eða setja fjölskylduna í forgang og telja sig ekki hafa tíma til að sinna verkjum sínum. Ekki er vitað hvaða ástæður vega þyngst en víst er að oft hefur verið brugðist seint við þegar konur kvarta um hjartverki og meðhöndlun því ekki hafist í tæka tíð. Konum hefur líka síður verið boðin endurhæfing en körlum.

Að viðhalda eða öðlast heilbrigðara hjarta
En hvernig eiga konur að hlúa að sér til að öðlast heilbrigðara hjarta? Forvarnir eru sterkasta vopnið. Forvörnum er sinnt með því að fylgjast vel með þöglum áhættuþáttum; láta mæla blóðþrýsting og fylgjast með blóðfitu, einkum og sér í lagi ef þekkt saga er um þessa þætti í fjölskyldunni. Allir ættu að vita að sykursýki af týpu II er gjarnan fylgifiskur offitu og vinna þarf gegn henni með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Þá er mikilvægt að temja sér reglubundna hreyfingu og helst utan dyra. Það hjálpar að fara í gönguferðir, þó ekki sé nema fimmtán mínútur á dag, en ákjósanlegt er að hreyfa sig minnst þrjátíu mínútur daglega. Nýjar rannsóknir benda til að hreyfing hafi enn meiri áhrif en áður var talið. Hún eykur vellíðanarhormón, bætir beinheilsu og eykur fitubrennslu.

Hollt mataræði er líka algert lykilatriði og mikilvægt er að kynna sér nýjustu ábendingar ábyrgra næringarfræðinga um heilsusamlegt fæði. Þó má ekki gleyma að leyfa sér stundum að njóta þess að borða það sem manni þykir gott, þó allt sé að sjálfsögðu best í hófi.

Líffræðilegar ástæður valda því að reykingar eru konum hlutfallslega hættulegri en körlum. Með því að hætta að reykja geta konur minnkað líkurnar á að fá hjartaáfall um helming á fimm árum. Eftir fimmtán reyklaus ár er áhættan orðin sú sama og hjá einstaklingi sem aldrei hefur reykt.

Skref í átt að hjartaheilsu
Í dag komumst við ekki hjá því að rekast á upplýsingar um hvernig bæta megi lífsstílinn. Hvarvetna er að finna uppskriftir að hollu fæði og hvatningu til aukinnar hreyfingar og streitulosunar. Fjölbreytnin er nær óendanleg, jafnvel svo mikil að valkvíði bætist við aðra streituþætti. Mikilvægt er að hver og einn finni einfalda og þægilega leið til að sinna heilsu sinni og hjartaheilsu, taki lítil, auðveld skref eitt og eitt í senn í áttina að því framtíðarverkefni sem heilbrigður lífsstíll er.

Valgerður Hermannsdóttir,
varaformaður Hjartaheilla.

HJARTAHEILL stendur nú að söfnun til fjármögnunar á fræðslu- og forvarnarverkefnum í málefnum endurlífgunar.
HJARTAHEILL leitar til almennings og fyrirtækja í landinu um stuðning við þessi verkefni sín.
Stuðning þinn getur þú veitt:
Með greiðslu í heimabanka, kr. 3.500 eða meira eða minna.
Með millifærslu á reikning: 0513 26 1600, Kennitalan er: 511083 0369.
Með hringingu í síma 903 7100 styrkir þú verkefnið um 3.500 kr.