Hugsaðu um hjartað – þú hefur bara eitt !

Hugsum um hjartað

Hjartastuðtæki eru orðin algeng en þau eru á mörgum almenningsstöðum, íþróttavöllum, sundhöllum og líkamsræktarstöðvum. Þau geta skipt sköpum þegar fólk fer í hjartastopp en margir veigra sér við að nota þau. Hjörtur Oddsson, hjartalæknir, var í viðtali í Samfélaginu á Rás eitt.

Hjartastopp
Hjörtur Oddsson, hjartalæknir

Hjörtur starfar á Hjartagátt Landspítalans og situr einnig í stjórn Endurlífgunarráðs Íslands. Hann segir að hjartastuðtækin séu fyrir fólk til að grípa í þegar einhver fær hjartastopp. „Þegar maður kemur að einstaklingi sem er meðvitundarlaus reynir maður að kanna hvort hann sé í hjartastoppi eða ekki. Ef hann andar ekki eða andar óeðlilega á maður að hefja hjartahnoð,“ segir Hjörtur. Gott sé að hnoða taktfast 100–120 sinnum á mínútu og gott að fylgja takti úr lagi. Hjörtur nefnir lagið Staying alive sem dæmi. „Það er ekkert sem slær Bee Gees við til að halda takti,“ segir hann en nefnir einnig Öxar við ána og Piparkökusönginn úr Dýrunum í Hálsaskógi.

Oftast nær dugar eitt stuð
Sumir eru hræddir við að valda meiri skaða með því að tengja stuðtækið við aðra en Hjörtur segir að það sé óþarfi. „Það stuðar ekki nema takturinn sé óeðlilegur,“ og ef tækið er sett á manneskju sem er með eðlilegan hjartslátt þá gerist ekki neitt. Tækið stuði eingöngu þegar það skynjar hjartastoppstakt. Þegar tækið er notað heyrist rödd sem leiðbeinir um næstu skref. Flest tæki hérlendis leiðbeina fólki á íslensku.

Hjörtur mælir með því að fólk hiki ekki við að nota tækið komi það að einhverjum í hjartastoppi. „Þú staðfestir stoppið, kallar á hjálp, hefur hnoð og reynir að fá einhvern, ef það er tæki í nágrenninu, til að sækja það.“ Hnoðið er til að vinna inn tíma og gæta þess að heilinn fái súrefni því fleiri heilafrumur deyja með hverri mínútu sem ekkert súrefni berst til heilans. „Oftast nær dugar eitt stuð og þá vaknar sjúklingurinn. Langoftast þegar stopp verður úti í bæ þá er það eitt eða tvö stuð og þá er sjúklingurinn kominn til meðvitundar,“ segir Hjörtur.

Ættu að vera til staðar á öllum vinnustöðum
Hjörtur segir endurlífgunarárangur hérlendis mjög góðan, í kringum 25-30 prósent. Hann segir marga kunna endurlífgun en það sé viss þröskuldur fyrir fólk að nota tækið. Málið sé hins vegar einfalt, það þurfi bara að setja tækið á brjóstkassa og láta það leiðbeina sér. Hjartastuðtæki eru á mörgum vinnustöðum en oft séu þau ekki nógu vel merkt. Fólk eigi ekki að hika við að nota tækin eða vera með þau á vinnustöðum, þau séu ekki mjög dýr og þurfi ekki mikið viðhald. Hjartastuðtæki eru til dæmis í bönkum og á togurum en dæmi eru um að skipstjóri hafi bjargað lífi skipverja í hjartastoppi um borð.

Má nota tækið á alla
„Þetta er ein auðveldasta leiðin til að bjarga mannslífi ef þú kannt þetta,“ segir Hjörtur og segir jafnframt að það megi nota hjartastuðtækin á alla. „Því fyrr sem þú stuðar einstaklinginn því auðveldara er það fyrir einstaklinginn því þú hnoðar minna og þú getur valdið rifbrotum og svoleiðis ef þú hnoðar lengi,“ segir Hjörtur. Það má nota tækið á aldraða, mjög veikt fólk og börn en Hjörtur tekur fram að börn fari mjög sjaldan í hjartastopp og ef þau hætta að anda sé takttruflun sjaldnast vandamálið. En mælir hann með hjartastuðtækjum? „Já ég mæli með þeim. Þau eiga að vera á mörgum stöðum og við eigum að vita hvar þau eru.

Fréttin var birt á RÚV 2019 og á vel við í dag

HJARTAHEILL stendur nú að söfnun til fjármögnunar á fræðslu- og forvarnarverkefnum í málefnum endurlífgunar.

HJARTAHEILL leitar til almennings og fyrirtækja í landinu um stuðning við þessi verkefni sín.

Stuðning þinn getur þú veitt:

Með greiðslu í heimabanka, kr. 3.500 eða meira eða minna.
Með millifærslu á reikning: 0513 26 1600, Kennitalan er: 511083 0369.
Með hringingu í síma 903 7100 styrkir þú verkefnið um 3.500 kr.
Með því að greiða valgreiðslur í heimabanka.