Fann hugarró í listinni eftir erfið áföll

Kara Kristel opnar sína fyrstu sýningu í Hringekjunni við Þórunnartún í dag. Fréttablaðið/Valli

Í dag opnar Kara Kristel sína fyrstu listasýningu. Kara missti afa sinn úr hjartaáfalli árið 2019, en honum lýsir hún sem sínum besta vini. Hún hefur verið í sjálfsvinnu eftir greiningu með áfallastreituröskun.

Kara Kristel Signýjardóttir vakti fyrst athygli hér á landi fyrir hispurslaus skrif um kynlíf og samskipti kynjanna á bloggi sem hún hélt úti. Kara Kristel er engu minna hispurslaus í dag þótt viðfangsefnið sé annað. Hún hefur vakið athygli fyrir einlægar færslur um líkamsvirðingu á samskiptamiðlum. Í dag opnar hún sýningu á teikningum í Hringekjunni í Þórunnartúni. Yfirskrift sýningarinnar er Muna að passa hjartað, og hún samanstendur af blýantsteikningum af hjörtum. Málefnið er henni sérstaklega hugleikið þar sem hjartasjúkdómar eru algengir í fjölskyldunni hennar. Kara missti afa sinn árið 2019 úr hjartaáfalli og hafði fráfallið mikil áhrif á Köru, sem var í kjölfarið greind með áfallastreituröskun.

„Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ég sé með bullandi ADHD, vissulega á lyfjum við því, en ég hef aldrei litið á greininguna sem hindrun eða afsökun. Ég hef alltaf verið þannig að ef ég hef ekki áhuga er mér alveg sama. En þegar ég fæ áhuga á einhverju þá eyði ég heilu dögunum, vikunum eða mánuðum í það,“ segir Kara.

Seldi steina á okurverði
Síðustu tvo mánuðina hafa teikningarnar átt hug hennar allan en þar áður var aðaláhugamálið öllu sérstakara.

„Í fyrrasumar fékk ég mikinn áhuga á hegningarlögum á Íslandi. Ég eyddi þremur mánuðum í það, las allar mögulegar BA-ritgerðir sem ég fann um hegningarlög og málaferli af öllum gerðum, las greinargerðir og reglugerðir nokkrum sinnum. Þegar mér leið eins og ég vissi allt sem mig langaði að vita þá hætti ég. Ég hvorki planaði þetta né var með eitthvert markmið tengt þessu. Ég ætlaði ekkert að verða lögfræðingur eða gera neitt með þessa þekkingu. Ég hef stundað þetta frá því ég man eftir mér og það hefur oft komið sér vel, vinir og fjölskylda eru dugleg að leita til mín því ég er líklegust til að hafa þekkingu á ólíklegustu málum.“

Kara segist ekki hafa teiknað mikið í æsku og þetta sé því tiltölulega nýtilkomið áhugamál.

„Ég hef hins vegar alltaf verið listræn og skapandi, stödd í mínum eigin heimi. Ég held að ég hafi verið fimm ára þegar ég byrjaði að tína steina í fjörunni og selja þá ofan á rafmagnskassa við sjoppu. Allt á okurverði sem túristarnir borguðu glaðir,“ segir hún og hlær.

Í herferð með sjálfri sér
Frá því í september 2019 hefur Kara verið í herferð með sjálfri sér og sinni andlegu heilsu, eins og hún orðar það sjálf.

„Í kringum áramótin var ég búin að taka mér mánuð í pásu frá sköpun. Ég fann að ég var orðin eirðarlaus, fór fyrst að búa til skartgripi úr steinum sem ég átti, hálsmen og hringa, en fann ekki alveg hugarró í því. Góð vinkona mömmu minnar, listakonan Michelle Bird, leyfði mér að koma í stúdíóið sitt og þar eyddi ég nokkrum dögum og gerði þrjú stór málverk. Málverkin voru svolítið brútal, sonur minn má til dæmis alls ekki sjá þau,“ segir hún.

Í kjölfarið langaði hana að halda flæðinu gangandi þar sem hún fann mikla hugarró í listsköpuninni.

„Þannig að ég fór að prufa mig áfram með blýantinn heima. Fyrrum samstarfskona mín frá því ég starfaði á Þingvöllum, listakonan Guðrún Tryggvadóttir, var ekki lengi að byrja að leiðbeina mér og gefa mér verkefni. Ég teiknaði alls konar myndir, en eftir að ég teiknaði fyrsta hjartað var ekki aftur snúið. Ég þurfti að gera fleiri, ég elska hjörtu.“

Mætti því segja að þú finnir ákveðna sáluhjálp í því að skapa?

„Algjörlega, það er mín leið til að sleppa tökunum á hugsunum. Ég á það til að gleyma mér alveg tímunum saman. Mér líður alltaf vel eftir á og á stundum erfitt með að stoppa og fara að sofa,“ segir hún.

Hjartans mál
Kara segir hjartasjúkdóma algenga í föðurætt hennar. Langamma hennar var þriðji Íslendingurinn til að gangast undir hjartaskurðaðgerð hér á landi. Hún lifði löngu lífi eftir aðgerðina og var orðin 96 ára gömul þegar hún lést. Nokkrum mánuðum síðar lést svo sonur hennar, afi Köru, úr hjartaáfalli.

„Hann var 75 ára þegar hann lést, eins og pabbi hans sem lést á svipuðum aldri vegna hjartaáfalls. Þetta er mjög ættgengt og þess vegna er þetta málefni mér mjög kært og mikilvægt.“

Kara lýsir afa sínum sem hennar besta vini og skírði hún son sinn í höfuðið á honum.

„Það kom aldrei neitt annað nafn til greina. Ég bjó mikið hjá honum og hann var mitt helsta öryggi og minn helsti peppari. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa alltaf gefið mér mér tíma til að eyða með honum, alveg sama hvort ég var 13 ára gelgja, 17 ára vitleysingur eða fullorðin móðir. Ég sótti alltaf mikið í hans félagsskap. Stundum þegar ég kom heim af djamminu sat hann við eldhúsborðið, því hann vaknaði mjög snemma og ég kom heim mjög seint. Þá settist ég alltaf með honum og mér þykir ótrúlega vænt um þær minningar,“ segir Kara Kristel.

Kvíðinn versnaði
Eftir að hafa misst afa sinn byrjaði Kara að upplifa lítil kvíðaköst sem fóru svo versnandi.

„Áður en ég vissi var ég hætt að sofa. Ef ég náði svefni fékk ég martröð og vaknaði. Ég var í krefjandi vinnu á erfiðasta tímanum og á hverjum degi eftir tíu tíma vinnudag kom ég heim, lagðist á gólfið og grét í einn til þrjá klukkutíma. Ef ég gat sofnað eftir það þá vaknaði ég á milli 2 og 3 á nóttunni og starði á loftið þangað til vekjaraklukkan hringdi. Það gekk svona í nokkra mánuði.“

Kara var harðákveðin í að byrja að vinna í sínum málum, sem hún segir hafa gengið mjög vel.

„Ég var svo ákveðin í því að það þyrfti bara að gerast, ég þyrfti bara að taka fyrir öll áföll sem ég hafði grafið lengst inni. Ég tók það alvarlega og tók markviss skref, eitt í einu, í samstarfi við sálfræðinginn minn.“

Ekki í karakter
Kara segist ekki setja fram eitthvað gervisjálf á samfélagsmiðlum.

„Í grunninn er ég alveg eins og í raunveruleikanum, ég er mjög „authentic“ á samfélagsmiðlum. Munurinn er hins vegar dýptin. Ég vel hvað ég sýni og það er mjög stór partur míns persónulega lífs sem ég birti ekki á samfélagsmiðlum og deili bara með mínum nánustu. Það fylgir því ákveðinn friður og ró að eiga persónulegt líf sem enginn veit mikið um. En persónuleikinn er eiginlega sá sami, ég er oftast ekki í neinum karakter.“

Undanfarið hefur Kara verið dugleg að setja inn færslur tengdar líkamsvirðingu.

„Því meira sem ég sá því meira varð ég hissa. Staðreyndin er sú að allt of margir glíma við brotna sjálfsmynd eða hatur á eigin líkama. Hetjusögurnar eru endalausar, sem er frábært, en svo sorglegt á sama tíma. Ég hef aldrei litið á líkamann minn sem neitt annað en líkama, ég fitna, ég grennist, ég fæddi barn, grenntist. Ég hef aldrei upplifað hatur eða ást á líkamanum mínum sem fer út í öfgar, sem er mjög algengt,“ segir hún.

Kara segist því styðja umræðuna heilshugar, en hún hafi orðið mjög hissa við að átta sig á því hve stórt vandamálið væri.

„En ef ég get haft góð áhrif á stelpur og konur með færslunum mínum, af hverju ekki? Allir eiga skilið að elska líkamann sinn. Að minnsta kosti ekki hata hann, þetta er bara líkami. Það er fullt af öðru í lífinu til að vera pirraður yfir að mínu mati. Við erum öll alls konar, og það er grilluð pæling að fyrirtæki og einstaklingar geti haft svona neikvæð áhrif til lengdar á líkamsímynd fólks.“

Sýningin Muna að passa hjartað verður opnuð í dag í Hringekjunni, Þórunnartúni 2. Eftirprent af verkunum eru einnig til sölu á staðnum og rennur allur ágóðinn af þeim til Hjartaheilla.

Verkin á sýningunni eru til sölu. Eftirprent eru seld til styrktar Hjartaheilla.
Verkin á sýningunni eru til sölu. Eftirprent eru seld til styrktar Hjartaheilla.

Fréttablaðið