Hefur þegar bjargað mannslífi

Davíð Ottó Arn­ar

Hjarta­deild Land­spít­ala og heil­brigðis­tæknifyr­ir­tækið Si­dekickHealth eru að hefja sam­starf um að rann­saka nýja nálg­un í eft­ir­liti hjarta­sjúk­linga með öpp­um í snjall­tæki. Rannís veitti ný­lega 135 millj­óna króna styrk til þessa verk­efn­is, sem er óvenju­hár styrk­ur til vís­inda­verk­efn­is hér­lend­is.

Davíð Ottó Arn­ar
Hjarta­deild Davíð Ottó Arn­ar, yf­ir­lækn­ir á hjarta­deild Land­spít­al­ans, hef­ur stýrt rann­sókn­inni. — Morg­un­blaðið/Á​sdís

Davíð O. Arn­ar, yf­ir­lækn­ir hjarta­deild­ar Land­spít­ala, hef­ur haft for­ystu um rann­sókn­ina þar á bæn­um, svo það ligg­ur beint við að biðja hann um að út­skýra verk­efnið.

„Tækn­inni í snjall­tækj­um – sím­um, úrum og þess hátt­ar – fleyg­ir fram og þar á meðal við skrán­ingu á alls kyns heil­brigðis­upp­lýs­ing­um, en þær koma ekki að miklu gagni fyr­ir heil­brigðis­starfs­fólk nema við setj­um upp ferla og far­vegi fyr­ir þau. Þar kem­ur sam­starfið við Si­dekickHealth ein­mitt til sög­unn­ar.

Við á hjarta­deild­inni erum búin að eyða mik­illi vinnu í að bæta aðstöðuna, efla tækja­kost og fjölga sér­fræðing­um, en upp á síðkastið höf­um við hins veg­ar verið að velta fyr­ir okk­ur hvernig við get­um bætt eft­ir­lit með hjarta­sjúk­ling­um, hvaða eft­ir­lit eigi að vera hjá okk­ur, hvað henti bet­ur fyr­ir heilsu­gæslu eða sér­fræðilækna úti í bæ.

Tryggvi Þor­geirs­son hjá Si­dekick var einn af hinum fyrstu sem við töluðum við, enda hafði Si­dekickHealth reynslu af þróun á sta­f­ræn­um heil­brigðismeðferðum. Hann sýndi því strax áhuga að þróa það lengra og bæta við þess­um þætti, að fylgj­ast með sjúk­lingn­um með fjar­vökt­un og bæta viðlyk­il­lífs­mörk­um.

Við fáum þær upp­lýs­ing­ar um snjall­for­rit, sér­stakt al­grím vinn­ur úr öll­um þess­um upp­lýs­ing­um og gef­ur vís­bend­ingu um hvar sjúk­ling­ur­inn er stadd­ur heilsu­fars­lega.

Þetta er kjarn­inn í því sem við vilj­um gera, en síðan fer hjúkr­un­ar­fræðing­ur yfir niður­stöðurn­ar hjá sjúk­lingn­um, en hann get­ur svo kallað til lækni, nær­ing­ar­ráðgjafa, sjúkraþjálfa, sál­fræðing o.s.frv., eft­ir því sem þörf er tal­in á. Þá er haft sam­band við sjúk­ling­inn, eða hann kallaður inn ef það eru veru­leg frá­vik, nú eða bara senda hon­um stutt skila­boð ef allt er í góðu lagi. Þetta veit­ir bæði betri og mark­viss­ari þjón­ustu, þar sem við erum að nýta okk­ar sérþjálfaða heil­brigðis­starfs­fólk bet­ur.“

Og í betri tíma, ekki satt?
„Ein­mitt, af því að það er þannig með lang­vinna sjúk­dóma, að þegar það verður bráð versn­un, þá á það sér iðulega aðdrag­anda. Með þess­ari leið verðum við þeirra fyrr vör, frek­ar en að sjúk­ling­ur­inn fái ein­kenni, fari að líða verr en komi ekki til okk­ar fyrr en allt er komið í óefni 4-5 dög­um síðar. Þá jafn­vel í sjúkra­bíl á bráðamót­töku og svo inn á hjarta­deild, þar sem þeir liggja kannski í viku til 10 daga. Ef við gæt­um séð merki um þessa versn­un á öðrum degi og kallað fólk inn, þá gæt­um við hlynnt að því á göngu­deild og komið í veg fyr­ir að fólk verði mikið veikt. Sem myndi vita­skuld auka lífs­gæði og lífs­lík­ur, minnka biðröðina á bráðadeild­inni, fækka inn­lögn­um og nýta okk­ar krafta bet­ur.“

Og bjarga manns­líf­um?
„Já, ein­mitt. Og gam­an að geta sagt frá því að þess­ar rann­sókn­ir hafa senni­lega þegar bjargað manns­lífi. Við gerðum í sum­ar 8 vikna fýsi­leik­a­rann­sókn á því hvernig svo ný­stár­leg nálg­un gengi fyr­ir sig, hversu vilj­ugt fólk væri að nota svona nýj­ung og hvernig okk­ur gengi að vinna með það. Þetta var vissu­lega skamm­ur tími og ekki nema 17 sjúk­ling­ar, en niðurstaðan var sú að all­ir nema einn voru mjög ánægðir með viðmótið, okk­ur fannst mjög þægi­legt að taka á móti þess­um upp­lýs­ing­um og þetta gekk vel.

En við fund­um einn sjúk­ling sem svaraði á þann hátt að okk­ur leist ekki á blik­una. Hann bjó úti á landi, þannig að hann átti langt að sækja til lækn­is, en af því að við sáum að eitt­hvað var að, þá fór hann af stað og komst sam­dæg­urs und­ir lækn­is­hend­ur. Þá kom í ljós að hann var að þróa með sér hjarta­áfall, sem hægt var að af­stýra.“

Það sak­ar varla að nán­ast all­ir séu komn­ir með snjall­tæki?
„Nei, svo sann­ar­lega ekki og áhugi al­menn­ings er mik­ill til þess að nota þessa nýju tækni sér til svo beinn­ar heilsu­bót­ar. Þar blasa við ótal tæki­færi til þess að færa 2. stigs for­varn­ir nær al­menn­ingi og nýta heil­brigðis­starfs­fólk bet­ur og fyr­ir veik­asta fólkið.“

 Eyk­ur það þekk­ing­una líka?
„Vafa­laust. Ef gögn­in eru gerð óper­sónu­grein­an­leg er ljós­lega mik­ill lækn­is­fræðileg­ur ávinn­ing­ur í því. Við höf­um aldrei rýnt með kerf­is­bundn­um hætti í svo mik­il heilsu­fars­leg gögn og þau myndu ör­ugg­lega segja mjög áhuga­verða sögu. Þá gæt­um við lík­lega lært sitt­hvað nýtt og mögu­lega fengið fyr­ir­boða um það fyrr að eitt­hvað sé að fara úr­skeiðis, gert eitt­hvað í því strax og von­andi af­stýrt heilsu­bresti. Það gæti verið heilsu­gæsla framtíðar, sem þarf þó ekki að vera langt hand­an við hornið.“

 Er Ísland vel til þess fallið?
„Já, svo sann­ar­lega. Hér er vel upp­lýst og vel menntað fólk, sem býr við nokkra vel­meg­un og jöfnuð, það er nýj­unga­gjarnt og vill gjarn­an taka þátt í rann­sókn­ar­starfi, hér eru framúrsk­ar­andi fyr­ir­tæki í heil­brigðis­geir­an­um á borð við Íslenska erfðagrein­ingu og Si­dekickHealth, við höf­um sam­ræmda og bráðum sam­tengda sjúkra­skrá um allt land og erum með nokkuð þróað heil­brigðis­kerfi sem held­ur vel utan um sitt fólk.“

En hver eru næstu skref?
„Sam­vinna okk­ar við Si­dekickHealth hef­ur gengið afar vel og við hyggj­umst halda áfram á þeirri braut. Við erum langt kom­in með að þróa snjall­for­rit við hjarta­bil­un, við erum að byrja að þróa sams kon­ar for­rit fyr­ir kran­sæðasjúk­dóma og gáttatif. En miðað við hvað þetta hef­ur gengið vel, þá von­umst við til þess að geta haf­ist handa við rann­sókn­ir af full­um krafti seinna á þessu ári.“

Nú var faðir þinn, Gúst­af Arn­ar, yf­ir­verk­fræðing­ur Pósts og síma. Teng­ist áhugi þinn á sím­tækni því?
„Já kannski, en ég held það sé blanda af mörgu. Hjarta­lækn­ing­ar eru svo­lítið tækni­lega sinnað fag, svo jú, senni­lega kem­ur tækni­á­hug­inn dá­lítið frá hon­um. En leiðin hingað var löng og ströng og ég verið hepp­inn með að fá tæki­færi til að vinna með snjöllu fólki, sem hef­ur haft sam­eig­in­leg­an áhuga á að nýta mögu­leika tækn­inn­ar til fulls. Ég brenn fyr­ir því og margt afar spenn­andi fram und­an.“

Morgunblaðið 18. febrúar 2021