Snjalltæki og heilbrigðistækni færa heilbrigðisþjónustu heim

Tryggvi Þorgeirsson

Sidekick var stofnað árið 2014 og sérhæfir sig í þróun á stafrænum heilbrigðislausnum og fjarheilbrigðiskerfum til að bæta líðan sjúklinga, auka meðferðarheldni og draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk með því að fjarvakta einkenni sjúklinga svo styðja megi þá í daglegu lífi utan stofnana.

Tryggvi Þorgeirsson
Snjalltæki og heilbrigðistækni færa heilbrigðisþjónustu heim

Fjarheilbrigðismeðferð Sidekick er m.a. notuð til að styðja við fólk með langvinna sjúkdóma, eins og hjartabilun eða krabbamein.

Sidekick tryggði sér nýlega þriggja milljarða fjármögnun, sem var leidd af erlendu vísisjóðunum Wellington Partners og Asabys Partners auk aðkomu fyrri fjárfesta, Frumtak Ventures og Novator.

„Íslenska heilbrigðiskerfið er að mörgu leyti vel í stakk búið til að innleiða tæknilausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga utan stofnana. Þar starfar framsækið og vel menntað fólk og við getum ekki hugsað okkur betri samstarfsaðila en hjartadeild Landspítalans,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri og stofnandi Sidekick.

„Það er enginn vafi á því að sjúklingar eru tilbúnir til þess að nota stafrænar lausnir,“ segir Tryggvi og bendir á góðar viðtökur víða erlendis líkt og hér á landi.

„Verkefnið með hjartadeildinni hefur farið einstaklega vel af stað, áhugi notenda er mikill og við erum að stíga fyrstu skrefin í átt að breiðari notkun fjarheilbrigðislausna í íslensku heilbrigðiskerfi og færa mikilvægan hluta þjónustunnar heim til fólks. Það má líkja þessu við þróunina í bankakerfinu, þar sem stór hluti bankaþjónustu er nú aðgengilegur í gegnum snjalltæki. Við erum að fara sambærilega leið í heilbrigðisgeiranum.“

Morgunblaðið 18. febrúar 2021