Telur lagastoð fyrir breytingum hæpna

Telur lagastoð fyrir breytingum hæpna

Telur lagastoð fyrir breytingum hæpna
• Ráðherra vill uppræta komugjöld hjá sérfræðilæknum

„Við fyrstu sýn virðist lagastoðin undir reglugerðardrögunum vera mjög hæpin, en auðvitað bera ráðherra og ráðgjafar ráðuneytisins fulla ábyrgð á þeim,“ segir Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti fyrir helgi breytingu á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Felur breytingin meðal annars í sér að þeir læknar sem rukka aukakostnað samkvæmt gjaldskrá muni ekki njóta kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands.

Standa kerfinu fyrir þrifum
Sem kunnugt er rann samningur sjálfstætt starfandi sérgreinalækna út árið 2018 og síðan þá hafa ekki náðst samningar við ríkið. Hefur því verið stuðst við tímabundnar reglugerðir ráðherra um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Í kynningu á fyrirhuguðum breytingum Svandísar á reglugerðinni er rakið að í sumum tilvikum hafi sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar sett gjaldskrár til hliðar við opinbera kerfið sem valdi því að sjúklingar þurfi að greiða tvo reikninga. „Annan þeirra fá þeir endurgreiddan í hlutfalli við heildarútgjöld sín til heilbrigðisþjónustu. Hinn reikninginn þurfa þeir að greiða að fullu til sérgreinalæknisins, sjúklingar fá þann kostnað ekki endurgreiddan og hann reiknast ekki til afsláttar af heildarútgjöldum sjúklingsins. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki upplýsingar um umfang þessara gjalda og þau standa fyrir þrifum því kerfi sem sett hefur verið upp af hinu opinbera með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.“

Læknar skili ársreikningum
Þessar breytingar hugnast sérgreinalæknum ekki og komu sjónarmið þeirra skýrt fram í grein Stefáns E. Matthíassonar í Morgunblaðinu í gær. Stefán bendir á að í endurgreiðslureglugerðum hafi ráðherra einhliða ákveðið einingaverð og hafi það ekki fylgst verðlagsþróun. Því hafi læknar og fyrirtæki þeirra neyðst til að bæta upp þennan mun með komugjöldum.

„Þetta gæti nú ráðherrann auðveldlega lagað með því að uppfæra einingaverð sitt til raunkostnaðar! Annað er enn kostulegra sem er að læknum sem sinna sjúklingum og eru ekki í neinu samningssambandi við SÍ beri að skila inn árlega endurskoðuðum ársreikningum til stofnunarinnar. Eitthvað sem ég verð að segja er alger nýlunda í opinberri stjórnsýslu á Íslandi og auðvitað lögleysa,“ skrifar Stefán.

Stefán furðar sig í greininni á litlum samningsvilja ríkisins. Hann segir að komur til sérfræðilækna séu á pari við komur á Landspítala og heilsugæsluna. „Að auki eru þar allt að 20 þúsund skurðaðgerðir, þúsundir speglana, myndgreiningarannsókna, blóðrannsókna auk ýmissa annarra,“ segir hann.

„Núverandi ríkisstjórn hefur aukið framlög til heilbrigðismála umtalsvert en undir forystu sitjandi heilbrigðisráðherra hefur þess verið gætt að þessir fjármunir renni að meginhluta til þjónustu sem rekin er af opinberum aðilum. Fyrir nokkrum árum voru heildarframlög til sérfræðilæknisþjónustu um 6-7% af heilbrigðisútgjöldum en árið 2019 einungis 4,7% og margt bendir til að sama tala fyrir 2020 sé 4%.“

Morgunblaðið 13. apríl 2021