Lögmæti reglugerðar áður verið dregið í efa

Lögmæti reglugerðar áður verið dregið í efa

Fyrirhuguð breyting Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands hefur mælst illa fyrir meðal sérgreinalækna. Sem kunnugt er hafa samningar við sérgreinalækna verið lausir frá 2018.

Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að samningaviðræður væru nýhafnar aftur eftir langt hlé og umrædd reglugerðardrög hefðu komið læknum á óvart. Ummæli Þórarins um að hann teldi hæpna lagastoð fyrir reglugerðardrögunum vöktu nokkra athygli.

Eins og rakið var í Morgunblaðinu í gær fela fyrirhugaðar breytingar meðal annars í sér að þeir læknar sem rukka komugjöld samkvæmt gjaldskrá muni ekki njóta kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögmæti reglugerða Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra er lúta að sérgreinalæknum er dregið í efa. Dögg Pálsdóttir, lögfræðingur Læknafélags Íslands, fjallaði um þetta í grein í Læknablaðinu fyrir skemmstu. Þar sagði hún að minnst tvö ákvæði reglugerðarinnar um endurgreiðslu kostnaðar hefði skort viðeigandi lagastoð á þeim tíma sem reglugerðin var sett.

„Í 7. gr. reglugerðarinnar segir að sérgreinalæknar eigi að veita SÍ upplýsingar og gögn sem eru nauðsynleg vegna eftirlitshlutverks SÍ. Engin lagastoð var á þessum tíma fyrir eftirliti SÍ með veitendum heilbrigðisþjónustu þegar engir samningar eru í gildi. Þá heimild fékk SÍ fyrst með lögum nr. 92/2020, sem gengu í gildi 22. júlí 2020, liðlega einu og hálfu ári eftir að reglugerðarákvæðið var sett. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að þessum lögum kemur skýrt fram að auka þurfi heimildir stofnunarinnar og að þær nái ekki til eftirlits með þjónustuveitendum sem standa utan samninga,“ segir í grein Daggar.

„Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að til að sjúkratryggðir njóti sjúkratryggingaréttar síns beri veitanda heilbrigðisþjónustu að skila reikningsupplýsingum til SÍ á því formi sem stofnunin ákveður. Engin lagaheimild sýnist þó fyrir því skilyrði, sbr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar,“ segir þar enn fremur.

Persónuvernd gerði athugasemdir
Þrjú ný skilyrði bætast við með fyrirhuguðum breytingum. Í fyrsta lagi áðurnefnt skilyrði sem koma á í veg fyrir að sjúklingar greiði komugjald. Læknar hafa bent á að hægur vandi væri að komast að samkomulagi um slíkt ef gjaldskrá yrði einfaldlega hækkuð og tæki mið af kostnaði. Gjaldskráin hefur ekki verið hækkuð síðan í lok árs 2019. Annað skilyrðið er að sérgreinalæknum verði skylt að skila ársreikningi. Telja læknar að skýr ákvæði séu í lögum um eftirlit með starfsemi lækna en ekki sé stafkrók að finna um heimild til að fara í ársreikninga þeirra.

Þriðja og síðasta skilyrðið felur í sér heimild yfirvalda til að innkalla starfsemisupplýsingar sérgreinalækna. Samkvæmt upplýsingum blaðsins hafa sérgreinalæknar, og raunar fleiri heilbrigðisstéttir, staðið í stappi við embætti landlæknis um slíkt skilyrði vegna persónuverndarsjónarmiða sjúklinga. Mun álit Persónuverndar frá því fyrir ári hafa sýnt fram á að slík heimild væri of víðtæk í ljósi nýrra persónuverndarlaga.