Er ég að fá hjartaáfall? Eða ekki?

Þessar stóru, áleitnu spurningar geta brunnið á fólki á mikilvægum stundum, hvort sem um er að ræða fólk með fyrri sögu um hjartasjúkdóma og áhættuþætti eða allsendis að óvörum. Brjóstverkur er ein algengasta kvörtun þeirra sem leita á bráðamóttöku og ein orsök þeirra getur verið blóðþurrð í hjarta vegna kransæðastíflu.

Komi yfir þyngsli eða verkur fyrir brjóst, mæði eða önnur alvarleg vanlíðan sem gefur grun um hjartaáfall kviknar efi og kvíði.

Víða ber þetta á góma í samfélaginu, umræðan lifir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, sem er af hinu góða til að upplýsa og fræða.

En sé umræðan, umsagnir eða fréttir af málefninu ekki byggðar á læknisfræðilegum forsendum,ekki réttar, eða beinlínis rangar, er slík umræða ekki góð. Falsfréttir í þessu sambandi geta verið beinlínis hættulegar.

Á vef Hjartaheilla, hjartaheill.is er að finna ýmislegt fræðsluefni og einnig eru ýmsar gagnlegar upplýsingar á erlendum síðum, eins og t.d. vef bresku
hjartasamtakanna www.bhf.org.uk

Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir er yfirlæknir hjartaþræðingadeildar Landspítalans. Hún útskrifaðist frá læknadeild HÍ 1998. Eftir starf á Landspítalanum dvaldi Ingibjörg í Edinborg 2001-2013 við störf og frekara nám, sérnám í lyflækningum og hjartalækningum og hjartainngripum auk þess að taka doktorspróf við Edinborgarháskóla.

Hér á eftir eru svör hennar við nokkrum áleitnum spurningum um málefnið:

Hver eru einkenni hjartaáfalls?

Ef við skilgreinum hjartaáfall sem heilkenni sem stafar af bráðri lokun á kransæð, þá fara einkennin talsvert eftir því hve æðin sem lokast er stór og nærir stórt hlutfall hjartavöðvans. Ef um er að ræða eina af meginkransæðum hjartans geta einkennin verið slæm, oftast veruleg þyngsli eða verkur fyrir brjósti, stundum með leiðni í handlegg, axlir, bak eða kjálka.

Önnur samhliða einkenni geta t.d. verið almenn vanlíðan, ógleði, magnleysi, mæði, brjóstsviði eða svimi. Ef um er að ræða litla kransæð þá geta einkennin verið mun vægari. Bráð kransæðastífla getur líka valdið alvarlegum og stundum lífshættulegum takttruflunum eða hjartalosti.

Hvað á ég að gera, hvernig get ég verið viss?

Það er ekki hægt að vera viss fyrr en búið er að meta viðkomandi, taka hjartalínurit og í sumum tilvikum blóðprufur líka. Ef einkenni hafa komið í hvíld og líða ekki hjá innan fárra mínútna er best að setjast/leggjast og kalla eftir aðstoð og hringja í neyðarlínuna, 112. Þau meta þá hvort rétt sé að senda sjúkrabíl á staðinn eða gefa leiðbeiningar og eru í sambandi við bráðamóttöku og hjartadeild eftir þörfum. Viðkomandi ætti ekki að keyra sjálfur.

Hvert er svo framhaldið?

Ef ljóst er að sjúklingur er með bráða kransæðastíflu er hann yfirleitt fluttur beint í hjartaþræðingu á Landspítalann við Hringbraut og þræðingarteymið kallað út.

Ef sjúklingur er í öðrum landshluta er stundum íhugað að gefa svokölluð segaleysandi lyf fyrir flutning. Því fyrr sem blóðflæði kemst á aftur í kransæðinni því minni verður skaðinn. Ef greiningin er óljós eða aðrar greiningar þykja líklegri en þörf er á mati á sjúkrahúsi fer viðkomandi á næstu bráðamóttöku.

Ef einkennin koma og fara eða koma bara við áreynslu er samt rétt að hafa samband við lækni, læknavakt eða heilsugæslu til að meta hver orsökin er, stundum er þá um að ræða þrengingu í kransæð og blóðþurrð í hjartanu við áreynslu.

Stundum er greiningin önnur og ekki talin ástæða til að hafa áhyggjur af hjartasjúkdómi. Langflestir sjúklingar sem fá hjartaáfall fá góða og örugga meðferð með lyfjum, kransæðavíkkun, fræðslu og ráðgjöf.

Með því að þekkja rétt viðbrögð aukast líkur á að fá rétta greiningu og meðferð sem fyrst og draga þannig úr líkum á alvarlegum skaða eða fylgikvillum. Í öðrum tilvikum getur verið um að ræða annan sjúkdóm sem þarf að meðhöndla eða að ekkert alvarlegt reynist á ferðinni.

Gott er einnig að minna á að forvarnir eru besta lækningin.