Hjartsláttartruflanir – Auðvitað bregður fólki við!

Hjartsláttaróþægindi eru tiltölulega algeng hjá fólki á öllum aldri og eiga sér margs konar orsakir. Í mörgum tilvikum eru þau ekki hættuleg en geta valdið talsverðum óþægindum.

Höfundur: Davíð O. Arnar, yfirlæknir.
Davíð er sérfræðingur í lyflækningum, hjartalækningum og heilbrigðisstjórnun.

Flestum finnst sú tilfinning að verða varir við hjartsláttinn vísbending um að eitthvað alvarlegt kunni að vera að. Hjartsláttaróþægindi geta í mörgum tilfellum verið vegna takttruflana í hjarta en þó þarf það ekki alltaf að vera svo.

Það hefur komið í ljós að allt að þriðjungur þeirra sem hefur hjartsláttaróþægindi hefur ekki neinar takttruflanir í hjarta. Þessi hópur skynjar hins vegar hjartslátt sinn sem óeðlilega þungan eða hraðan en mögulegar orsakir þess gætu verið til dæmis streita, mikil koffínneysla eða notkun ákveðinna orkudrykkja.

Eðlilegur hjartsláttarhraði er nokkuð breytilegur. Hvíldarpúls er að jafnaði á bilinu 55-75 slög á mínútu en ekki er óvanalegt að hvíldarpúls þeirra sem eru í góðu líkamlegu ásigkomulagi eins og til dæmis íþróttamanna sé milli 40 og 50 slög á mínútu. Hvíldarpúls getur stundum verið nokkurs konar spegill á almennt líkamsástand. Hjá ungum hraustum einstaklingi getur hvíldarpúls yfir 90-100 til dæmis mögulega verið merki um að sá einstaklingur sé í afar slæmu líkamlegu formi eða hafi jafnvel sjúkdóm eins og ofstarfsemi í skjaldkirtli.

Af eiginlegum hjartsláttartruflunum eiga sennilega um þrír fjórðu tilfella uppruna í efri hólfum hjartans. Orsakir þeirra flokkast gróft séð í þrennt: Ofansleglahraðtaktur, sem getur komið vegna þess að einstaklingurinn hefur aukaleiðnibraut í hjartanu, gáttatif og aukaslög. Hjá yngra fólki er mun algengara að hjartsláttarfrávik eigi sér upptök í efri hólfum heldur en þeim neðri.

Minnihluti hjartsláttartruflana eiga sér upptök í neðri hólfum hjartans. Í langflestum tilfellum er þar um að ræða svo kölluð aukaslög sem oftast eru stök. Í sjaldgæfum tilfellum getur sést takttruflun sem kölluð er sleglahraðtaktur (ventricular achycardia). Sú tegund hjartsláttartruflunar getur verið hættuleg og getur jafnvel leitt til skyndidauða. Þeir sem hafa hjartasjúkdóm eins og til dæmis kransæðasjúkdóm eða hafa fengið kransæðastíflu eru líklegri en aðrir til að fá hjartsláttartruflanir frá neðri hólfum. Rétt eins og að þeir sem finna fyrir hjartsláttaróþægindum hafa í sumum tilfellum ekki takttruflanir þá kemur fyrir að sjúklingar með verulegar hjartsláttartruflanir geti verið einkennalausir. Einkennin geta stundum verið lúmsk, t.d. finna sumir eingöngu fyrir áreynslumæði og skertu úthaldi en ekki beint hjartsláttaróþægindum.

Lýsing einstaklinga á hjartsláttaróþægindunum gefur gjarnan vísbendingu um tegund þeirra. Þeir sem hafa aukaslög lýsa einkennum á þann hátt að hjartað sleppi úr slagi og svo komi þungt högg. Hjá þeim sem hafa hraðtakt eru einkenni frekar þannig að hjartað tekur skyndilega á rás, slær mjög hratt í stuttan tíma, og óþægindin hætta jafn hratt og þau hófust.

Orsakir hjartsláttartruflana hjá yngra fólki skiptast aðallega í tvennt, aukaslög og takttruflanir tengdar aukaleiðnibandi í hjartanu. Aukaslög geta verið lífsstílstengd og komið fram við streitu, mikla koffínneyslu og reykingar. Þeir sem fá takttruflanir sem standa stöðugt í um það bil 5-15 mínútur hafa oft aukaleiðniband í hjartanu sem er meðfæddur galli en kemur oft ekki fram fyrr en á unglingsárum eða snemma á fullorðinsárum. Talið er að allt að 10% einstaklinga kunni að hafa aukaleiðsluband í hjartanu. Margir verða aldrei varir við tilvist þess en við ákveðnar aðstæður getur það stuðlað að mjög örum hjartslætti. Undir slíkum kringumstæðum getur myndast hringrás af hröðum rafboðum milli aukaleiðnibandsins annars vegar og hins vegar  hins eiginlega leiðslubands milli efri og neðri hólfa sem allir hafa. Þetta er kallað ofansleglahraðtaktur eða supraventricular tachycardia.

Gáttatif er algengasta viðvarandi hjartsláttartruflunin og finna þeir einstaklingar gjarnan fyrir hröðum og mjög óreglulegum hjartslætti. Nánar verður fjallað um gáttatif í síðari pistli. Í langflestum tilfellum er ofansleglahraðtaktur ekki hættulegur þó að þar geti verið undantekningar. Hins vegar getur þessi tegund hjartsláttartruflana valdið verulegum einkennum eins og til dæmis ónotum fyrir brjósti, andnauð, svima og  afnvel yfirliði. Þessi einkenni geta staðið mislengi. Stundum er aðeins um að ræða eitt til tvö aukaslög en fyrir kemur að köst geti staðið upp í nokkrar klukkustundir. Slíkt  hefur yfirleitt ekki nein skaðleg áhrif á hjartað til lengri tíma en ef hraður hjartsláttur stendur samfellt í nokkrar vikur getur það haft skaðleg áhrif á samdráttargetu hjartans.

En hvað er gert til að rannsaka fólk sem kvartar umhjartsláttaróþægindi? Í fyrstu er reynt að átta sig á mynstri hjartsláttartruflananna, þ.e. hvort líklegra sé að  einstaklingurinn hafi aukaslög eða takttruflanir sem standa í einhvern ákveðinn tíma. Jafnframt athugum við hvort truflanirnar tengist einhverjum undirliggjandi hjartasjúkdómi sem er reyndar ekki algengt hjá yngra fólki. Einnig mælum við magn  skjaldkirtilshormóna í blóði til að útiloka að slíkt vandamál geti verið til staðar.

Stundum brugðið á það ráð að setja á fólk hjartsláttarsírita (Holter síriti) sem það gengur með og nemur öll hjartaslög yfir 24 klukkustunda tímabil. Vandamálið getur þó verið að stundum koma þessi einkenni ekki nema endrum og sinnum og því tekst ekki alltaf að finna orsakir þeirra með því að skrá taktinn í einn sólarhring. Ef einkenni eru áfram íþyngjandi er næsta skrefið að láta sjúklinga hafa sírita sem það gengur með
samfellt í eina viku. Hjá þeim sem hafa endurtekin einkenni kemur til greina að nota sérstaka tækni sem gerir einstaklingum kleift að taka upp hjartalínurit með snjallsímanum sínum og senda það síðan til læknis með tölvupósti. Þetta er afar áhugaverð tækni sem á eflaust eftir að vera notuð enn meira þegar fram í sækir.

Ef hjartsláttaróþægindunum fylgja yfirlið eða önnur alvarleg einkenni og ekki hefur tekist að sýna fram á orsök með einfaldari aðferðum er stundum brugðið á það ráð að nota ígræddan taktnema. Ígræddur taktnemi er lítið tæki sem er sprautað undir húð á brjóstkassa með til þess gerðu tæki. Taktneminn tekur upp öll frávik í hjartslætti og er með rafhlöðu sem endist í 3 ár. Auðvelt er að lesa af tækinu með sérstakri tölvu og einnig er hægt að nota nýja tækni sem fjarvaktar taktnemann utan sjúkrahúss og les af honum og sendir skilaboð gegnum GSM netið. Þannig er mögulegt að uppgötva frávik í hjartslætti án þess að einstaklingurinn með taktnemann þurfi að koma á sjúkrahús.

Meðferð hjartsláttaróþæginda fer eftir orsökum og í vægari tilfellum þarf oft ekki að aðhafast neitt. Aukaslög eru meðhöndlað með lyfjum ef þau eru tíð og gefa mikil einkenni. Þau lyf sem koma til greina í upphafi eru svokallaðir beta blokkar eða kalsíum blokkar. Ef til vill þarf sterkari lyf í völdum tilfellum. Við ofansleglatakttruflunum er núorðið beitt brennsluaðgerð á aukaleiðslubandinu. Mun sjaldgæfara er að beita þurfi gangráðs eða bjargráðsmeðferð.

Það er erfitt að vita hvort tíðni hjartsláttaróþæginda hefur verið að aukast þar sem við höfum engar góðar rannsóknir á því til að styðjast við. Hins vegar er þetta nokkuð algeng kvörtun. Ef til vill hafa streita og álag aukist í þjóðfélaginu og það kann að valda því að fleiri finna fyrir hjartsláttaróþægindum. Hér áður fyrr voru einkenni um slíkt stundum verið talin kvíðatengd, kölluð kvíðaköst og ef til vill ekki athuguð frekar. Nú á dögum höfum við hins vegar margar rannsóknaraðferðir til að kanna mögulegar orsakir hjartsláttaróþæginda og því er þetta kannski oftar kannað ofan í kjölinn. Það kemur þó stundum fyrir að engin orsök fyrir hjartsláttaróþægindum finnist þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir.