Til þess að það komi blóð þegar við dettum, rekum okkur í eða meiðum okkur á annan hátt þarf húðin að skerast í sundur. Í húðinni og mjúku vefjunum undir henni eru æðar og ef þær skerast í sundur og „gat“ er á húðinni berst blóð úr þeim út á yfirborð líkamans. Þá er sagt að það blæði. Ef litlar bláæðar og háræðar undir húðinni skaddast og blóð lekur út úr þeim án þess þó að húðin rofni safnast blóðið fyrir undir henni og það kemur marblettur. Sjá nánar Hvað er marblettur?).

 

Hversu alvarleg blæðing er fer mjög eftir því hvaða æðar skerast í sundur. Hættulegast er ef stór slagæð skerst í sundur. Slagæðar eru æðar sem flytja blóð frá hjartanu og innan þeirra rennur blóðið í takti við hjartsláttinn eins og nafn þeirra gefur til kynna. Blóðmissir getur orðið mjög mikill og hraður fari slagæð í sundur þannig að á nokkrum mínútum getur einstaklingurinn misst megnið af blóði sínu, það er að honum blæðir út, ef ekkert er að gert.

Mikill blóðmissir getur einnig hlotist af því þegar bláæð skerst í sundur en hann verður þó ekki eins hraður og ef um er að ræða slagæð, enda rennur blóð innan bláæða í jöfnum straumi en ekki með slætti í takti við hjartað.

Þegar blæðir á yfirborði líkamans er talað um útvortis blæðingu en einnig er möguleiki á svokölluðum innvortis blæðingum. Þær eru ekki sjáanlegar á yfirborðinu en geta verið jafn hættulegar og hinar. Þá rofnar æð inni í líkamanum og blóð berst úr henni og safnast fyrir á milli líffæra og vefja. Þrýstingur blóðsins á nærliggjandi líffæri getur verið mjög mikill og komið fram sem mikill sársauki auk þess að hindra starfsemi þeirra. Blóð sem ekki er innan æða eins og eðlilegt er getur verið mjög hættulegt og líkja má áhrifum þess við að vefirnir „drukkni“.

Þegar blæðir, hvort sem það er innvortis eða útvortis hefur blóð borist úr sínum eðlilega farvegi, æðunum, og líkt og með ár sem fara úr farvegi sínum, er það ekki til góðs.
Mynd: Shands HealthCare