Frá fræðslunefnd fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga.
KRANSÆÐASJÚKDÓMAR eru ört vaxandi heilsufarsvandamál á Íslandi. Í tilefni af alþjóðadegi hjúkrunarfræðinga 12. maí vill fræðslunefnd fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga vekja athygli á einkennum kransæðasjúkdóma. Hér verður fjallað um brjóstverk sem oftast er fyrsta einkenni kransæðasjúkdóms.
Af hverju fær maður brjóstverk?
Verkur fyrir brjósti getur átt sér ýmsar orsakir. Hann getur til dæmis komið frá hjarta, vélinda/maga, stoðkerfi eða lungum. Hér verður eingöngu fjallað um verk fyrir brjósti sem kemur frá hjarta.
Kransæðarnar liggja utan á hjartavöðvanum. Hlutverk þeirra er að tryggja hjartanu súrefni og næringu, en forsenda þess er fullnægjandi blóðflæði til hjartavöðvans. Brjóstverkur getur gert vart við sig þegar súrefnisþörf hjartans er ekki fullnægt. Hann getur meðal annars stafað af þrengslum eða stíflu í kransæðum hjartans, en kransæðastífla er í daglegu tali oft kallað hjartaáfall. Brjóstverkur getur komið við líkamlega eða andlega áreynslu, eftir þunga máltíð eða í kulda. Brjóstverkur getur einnig gert vart við sig í hvíld.
Eftirfarandi einkenni geta bent til kransæðaþrengsla/kransæðastíflu:
• Óþægindi/verkir fyrir miðjum brjóstkassa sem standa lengur en 5–10 mínútur.
• Óþægindin/verkirnir geta komið og farið eða verið viðvarandi. Þeim er oft lýst sem viðatilfinningu, herpingi, þyngslum eða bítandi verk. Þessum einkennum er stundum ruglað saman við brjóstsviða eða nábít.
• Verkir í efri hluta líkamans sem jafnvel leiða út í vinstri handlegg eða báða handleggi, herðar, bak, hnakka, háls, kjálka eða maga.
• Óþægindunum/verkjunum geta líka fylgt önnur einkenni, svo sem höfuðverkur, slappleiki, þreyta, ógleði, mæði, andnauð, svimi, þungur hjartsláttur og kaldur sviti.
Birting kransæðasjúkdóms er oft á tíðum óljós og dæmi eru um að vaxandi mæði og þreyta séu einu einkennin. Þetta getur einkum átt við um eldri einstaklinga, þá sem eru með sykursýki og konur.
Hvað skal gera ef brjóstverkur gerir vart við sig?
Algengt er að þeir sem fá brjóstverk í fyrsta sinn leiði hann hjá sér og fresti því að leita sér læknishjálpar. Ef verkur eða óþægindi hverfa ekki eftir örfáar mínútur og þeim fylgja einhver þeirra einkenna sem áður voru tilgreind ber að taka það alvarlega. Þá er full ástæða til að leita strax læknishjálpar og/eða hringja í neyðarlínuna 112.
Fólk sem greinst hefur með kransæðaþrengsli ætti ávallt að eiga og hafa meðferðis tungurótartöflur, einnig kallaðar sprengitöflur. Þær er hægt að fá án lyfseðils í næsta apóteki. Þess ber að geta að þær eru viðkvæmar fyrir ljósi og hnjaski og hafa stuttan gildistíma.
Ef brjóstverkur hverfur ekki í hvíld eða eftir inntöku þriggja tungurótartaflna sem teknar eru inn með fimm mínútna millibili skal strax hafa samband við lækni og/eða hringja í 112.
Mikilvægt er að greina snemma eða útiloka kransæðaþrengsli frá öðrum orsökum brjóstverks til að árangursrík meðferð geti hafist sem fyrst. Afleiðingar kransæðasjúkdóma geta haft varanleg áhrif á heilsu og lífsgæði.
Fræðslunefnd fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga,
ÁSTA JÚLÍA BJÖRNSDÓTTIR,
BJÖRK HARALDSDÓTTIR,
KRISTÍN SÆMUNDSDÓTTIR,
ÓLÍNA BJÖRG EINARSDÓTTIR,
SIGURBJÖRG VALSDÓTTIR,
STEINUNN ÞÓRARINSDÓTTIR,
hjúkrunarfræðingar á Landspítala– háskólasjúkrahúsi. Morgunblaðið föstudaginn 12. maí 2006.