FYRIR skömmu var haldinn fræðslufundur á vegum Heyrnarhjálpar þar sem fjallað var eingöngu um tinnitus, sem er stöðugt suð fyrir eyrum. Þetta er ekki sjúkdómur heldur flokkast sem einkenni frá eyrum. Talið er að tíu til fimmtán prósent fólks hafi svona suð fyrir eyrum á mismunandi stigum. Samkvæmt þessum upplýsingum ættu að vera um 30 þúsund Íslendingar með stöðugt suð fyrir eyrum í mismiklum mæli. Þar af eru eitt prósent manna verulega illa haldnir. Kaj Fjellerad hélt fyrirlestur á þessum fræðslufundi, en hann hefur sérhæft sig í að finna ráð til þess að létta þeim lífið sem ganga með tinnitus. Sjálfur er hann með þessi einkenni á slæmu stigi og hefur haft þau í þrjátíu ár. Er hægt að laga þetta? – Nei, það er ekki hægt að gera það, nema þá í undantekningartilvikum.

Hvað er þá til ráða? – Nauðsynlegt er að fullvissa sig um að viðkomandi sé ekki með sjúkdóm. Reynist svo ekki vera eru til ráð til að létta fólki tilveruna. Við köllum það gjarnan Tíu góð ráð til þeirra sem hafa eyrnasuð (tinnitus) 1. Ekki einskorða alla athygli þína við eyrnasuðið. 2. Ekki magna upp áhyggjur þínar vegna eyrnasuðsins ­ þetta er ekki alvarlegur sjúkdómur. 3. Forðastu streitu og spennu. Vertu betri við sjálfan þig og þjálfaðu þig í að segja nei. 4. Reyndu að fást við eitthvað það sem dreifir huganum. Vertu starfsamur en gættu þó allrar hófsemi. 5. Forðastu algjöra þögn. hlustaðu t.d. á tónlist. 6. Ekki áfellast sjálfan þig þótt þú búir við svona íþyngjandi einkenni. 7. Leitaðu eftir viðurkenningu á vanda þínum frá samferðafólki en ekki sækjast eftir fullkomnum skilningi hvað þá meðaumkvun. 8. Ekki reyna að vera fullkominn og ekki setja þér markmið sem þú ræður ekki við. Settu þér fremur minni og raunhæfari áform. 9. Ekki skella sökinni á öllum þínum vandamálum yfir á eyrnasuðið. Forðastu að nota það sem blóraböggul. 10. Forðastu að skynja þig sem einstakling sem þjáist af tinnitus. Orðið þjáning kallar fram neikvæðar hugsanir. Í stað þess skaltu reyna að hugsa jákvætt um eyrnasuðið. Það lætur þig t.d. vita þegar þér hættir til að fara yfir þreytumörk þín.

Hver er algengasta ástæðan fyrir tinnitus? – Helstu orsakir eru hávaðaskemmdir, t.d. vegna sprengingar, skots eða hávaðasamrar tónlistar. Margir tónlistarmenn í Danmörku hafa tinnitus. Fólk er ekki nægilega varkárt varðandi heyrn sína. Fólk setur á sig sólgleraugu þegar það horfir í sólina, það ætti að gera álíka varúðarráðstafanir þar sem mikill hávaði er, bæði á vinnustöðum og líka á hávaðasömum tónleikum.

Hvað eiga læknar og annað fagfólk að gera þegar einhver kvartar undan eyrnasuði? – Læknar geta útskýrt fyrir viðkomandi uppbyggingu eyrans og þá eru möguleikar á mismunandi meðulum sem meðal annars auka blóðrásina í eyranu. Í nokkrum tilvikum hjálpar akupunktur til að minnka suðið. Einnig geta læknar vísað sjúklingnum til heyrnar- og talmeinastöðvar, hér Heyrnar-og talmeinastöð Íslands, þar sem hægt er að fá heyrnartæki, það hjálpar stundum upp á sakirnar. Í öðru lagi er möguleiki að búa til tæki sem framleiðir samskonar hljóð og viðkomandi hefur þegar í eyranu, það kallast Masker.

Hvernig hjálpar það? – Hljóðið frá Maskernum virkar þá eins og móthljóð gegn innra hljóðinu og hefur því róandi áhrif.

Getur suð fyrir eyrum haft mjög slæm áhrif á fólk? – Það getur orðið svo slæmt að fólk sofi ekki nema stuttan tíma á nóttunni. Það getur verið ótrúlega slæmt fyrir fólk að þurfa að hafa þetta stöðuga hljóð í eyrunum alltaf. Margir verða svo aðþrengdir að þeir vilja ekki lifa lengur. Sjálfsmorðstíðni er hærri í hópi þessa fólk en meðal hinna sem ekki líða af slíkum einkennum.

Geta róandi meðul hjálpað? – Flestir fá um tíma róandi lyf, eða þar til þeir hafa sætt sig við ástandið. Margir finna sig einangraða. Við slíku er hægt að bregðast með því að fara út á meðal fólks sem líkt er komið á með og heyra hvernig því hefur gengið að berjast við sín einkenni og hvernig það hefur leyst sín vandamál. Stundum finna menn út að þeir sjálfir hafi það alls ekki eins slæmt og ýmsir aðrir. Það hjálpar mikið að geta rætt við aðra um líðan sína, ekki síst þá sem þekkja vandamálið af reynslu. Það hefur reynst vel að sameina tvo kosti t.d. slökun og samtalsmeðferð m.a. í því formi að kenna fólki að hjálpa sér sjálft. Oft er fjölskyldan höfð með í ráðum.

Kaj Fjellerad er fæddur árið 1938 á eyjunni Mors á Limafirði í Danmörku. Hann er vélvirki að mennt og sigldi um tíma á ísbrjót við Grænlandsstrendur eftir að námi lauk. Rösklega tvítugur fór hann í land og lærði uppeldisfræði. Hann hefur til fjölda ára unnið sem ráðgjafi fyrir ungt fólk sem hefur misnotað fíkniefni. Fyrir þremur árum hóf hann störf sem ráðgjafi fyrir fólk sem haldið er tinnitus, sem er stöðugt suð fyrir eyrum. Hingað til lands kom Kaj til þess að halda fyrirlestur á vegum Heyrnarhjálpar um tinnitus og ráð við því.

Ekki skella sökinni á öllum þínum vandamálum yfir á eyrnasuðið.

Kaj Fjellerad
Upplýsingar úr greinasafni Morgunblaðsins