Sviti er vökvi sem myndast í svitakirtlum í húð okkar. Hann er að mestu leyti vatn en einnig eru uppleyst í honum ýmis sölt og mismikið af úrgangsefnum. Meginhlutverk svita er að taka þátt í stjórnun líkamshita, en einnig á hann þátt í þveiti líkamans, það er að segja losun úrgangsefna úr líkamanum.
Þegar líkamshiti hækkar áreitir það sérstaka hitanema í húðinni. Þegar hitanemarnir skynja þetta áreiti senda þeir skynboð til heila, nánar til tekið til hitastillistöðvar í undirstúku hans. Hitastillistöðin bregst við með því að senda taugaboð til svitakirtla sem örvast við þessi boð og mynda meiri svita. Við það að sviti gufar upp af yfirborði húðarinnar tapar hún varma og kólnar þar sem uppgufun krefst orku og sú orka er tekin úr húðinni. Þetta orkutap húðarinnar er einmitt sérlega mikið af því að um uppgufun er að ræða.
Upplýsingar Vísindarvefurinn