Þindin er þunnur vöðvi neðan á brjóstkassanum og skilur brjóstholið, með hjarta og lungum, frá kviðarholi með meltingarfærum. Hún er helsti öndunarvöðvi líkamans og sem slík stuðlar hún að öndunarhreyfingum sem leiða til inn- og útöndunar. Rifjavöðvar milli rifbeina eru einnig öndunarvöðvar.

 

Þindin fær hreyfiboð frá þindartaugum sem tengjast öndunarstöð í mænukylfu og brú heilans. Þegar boð berast frá öndunarstöð um þindartaugar dregst þindin saman. Hún togar þá í ytri fleiðrur eða brjósthimnur lungna sem eru fastar við hana.

Við það eykst rúmmál lungna, loftþrýstingur innan þeirra fellur og verður lægri en loftþrýstingur andrúmsloftsins. Þá streymir loft ofan í lungun. Þetta er innöndunÚtöndun verður þegar slaknar á þindinni. Þá hvelfist hún upp í brjóstholið og þrýstir á lungun, rúmmál þeirra minnkar, loftþrýstingur í þeim eykst og loft streymir út.

 

Öndunarhreyfingar eru taktfastar og nokkuð reglulegar. Í hvíld andar fólk að um það bil 12-15 sinnum á mínútu, en það er þó einstaklingsbundið og háð aldri og líkamsástandi. Róleg öndun í hvíld verður fyrst og fremst vegna starfsemi þindar. Rifjavöðvarnir, sem eru einnig tengdir við ytri fleiðru lungnanna, geta þó framkallað svipaða atburðarás.

 

Auk þess að vera helsti öndunarvöðvi líkamans gegnir þindin einnig hlutverki við að losa líkamann við æluhægðir og þvag. Enn fremur kemur hún við sögu á öðru stigi fæðingar þegar konan fær svokallaðar rembingshríðir. Þá aðstoðar þindin, ásamt kviðvöðvum, legið við að þrýsta barninu út um fæðingarveginn (leggöngin).

Rifa eða gat á þindinni getur haft kviðslit í för með sér. Þá þrýstast magi eða jafnvel smáþarmar í gegnum rifuna upp í brjóstholið. Þetta er sérstök tegund kviðslits þar sem einkennin koma ekki út á húðinni, til dæmis í nára, eins og önnur kviðslit. Mætti ef til vill kalla þessa gerð af kviðsliti þindarkviðslit eða þindarslit (e. hiatal hernia).

Þótt engin sjáanleg merki fylgi þindarsliti er það ekki einkennalaust. Þindarslit verður oft þar sem vélindað gengur í gegnum þindina og ofan í magann. Ef slaknar á þessu gati á þindinni er hætta á að hluti af maganum þrýstist upp í brjóstholið og magainnihald fari í öfuga átt, úr maga og upp í vélinda. Þetta kallast bakflæði. Þar sem vélindað er ekki varið fyrir súru innihaldi magans veldur þetta sársaukafullri sviðatilfinningu eða brjóstsviða.

Heimildir og myndir:

Upplýsingar Vísindarvefurinn