Grétar Ólafsson, Kveðja frá Landssamtökum hjartasjúklinga

Grétar Ólafsson fyrrverandi yfirlæknir hjarta-og lungnaskurðdeildar Landspítala háskólasjúkrahúss er látinn. Hann var aðalhvatamaður að því að opnar hjartaaðgerðir hæfust hér á landi. Grétar hafði aflað sér sérmenntunar í Svíþjóð eftir að læknanámi lauk hér heima og var því vel undir það búinn að taka að sér vandasöm verkefni. Fyrsta opna hjartaaðgerðin var gerð hér á landi í júnímánuði 1986 undir stjórn Grétars

Grétar Ólafsson minning
Kveðja frá Landssamtökum hjartasjúklinga.
Grétar Ólafsson fyrrverandi yfirlæknir hjarta-og lungnaskurðdeildar Landspítala háskólasjúkrahúss er látinn. Hann var aðalhvatamaður að því að opnar hjartaaðgerðir hæfust hér á landi.

Grétar hafði aflað sér sérmenntunar í Svíþjóð eftir að læknanámi lauk hér heima og var því vel undir það búinn að taka að sér vandasöm verkefni. Fyrsta opna hjartaaðgerðin var gerð hér á landi í júnímánuði 1986 undir stjórn Grétars.

Hann var alla tíð mjög hlynntur Landssamtökum hjartasjúklinga og góður stuðningsmaður, enda mikill áhugamaður um félagsmál. Grétar var afar traustur maður og sjúklingar virtu hann og dáðu fyrir hlýhug og velvilja. Á þeim árum þegar opnar hjartaaðgerðir hófust hér á landi voru ýmsir af ráðamönnum þjóðarinnar efins um hæfni íslenskra lækna til að takast á við svo vandasöm verkefni. Í ljós hefur komið að árangur af þessu starfi er mjög góður og nú orðið er sjaldgæft að heyra efasemdir um hæfni íslenska hjartalækna.

Landssamtök hjartasjúklinga sýndu hug sinn í verki er þau sæmdu Grétar gullmerki samtakanna, gullhjartanu.
Landsamtök hjartasjúklinga þakka Grétari farsæla samfylgd og senda eftirlifandi eiginkonu og dóttur innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna Landssamtaka hjartasjúklinga
Vilhjálmur B. Vilhjálmsson, formaður
Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *