Afnám virðisaukaskatts á lyf – raunveruleg kjarabót

Á 34. þingi SÍBS sem halið var dagana 22. og 23. október s.l. var samþykkt einróma að skora á ríkisstjórn Íslands að leggja niður virðisaukaskatt á lyf. Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin lofað því, í málefnasamningi sínum, að lækka skatta og endurskoða virðisaukakerfið. Allir eru sammála um að slíkar aðgerðir eiga að gagnast sem flestum en helst þeim sem minnst mega sín; þurfa á slíkum kjarabótum að halda. Ofangreind ályktun er lögð fram með það í huga að minnka greiðslubyrði notenda, að ávinningurinn skili sér til þeirra og verði ekki skertur með hækkun greiðsluþátttöku eða hækkun smásöluverðs.

14 milljarðar Heildarlyfjasalan s.l. ár nam14 milljörðum króna. Lyf eru eini þáttur heilbrigðisþjónustunnar sem bera virðisaukaskatt. Nauðsynlegt er að benda á að enginn tekur lyf nema að hann nauðsynlega þurfi þess og margir þeir sem taka lyf að staðaldri verða að glíma við erfiða sjúkdóma sem há þeim við störf og daglegt líf. Flestir stórnotendur lyfja eru eldri borgarar, sjúklingar með þráláta sjúkdóma og ung börn. Athyglisvert er að hér á landi eru tvö þrep virðisaukaskatts. Almennt eru það svokallaðar nauðsynjavörur sem eru í lægra virðisaukaþrepi. Í því sambandi mætti nefna matvæli. Allir hljóta að vera sammála um að lyf eru nauðsynjavara og ættu því skilyrðislaust að vera í neðra virðisaukaþrepi.

Lækkum verð á lyfjum Undanfarna mánuði hefur nokkuð verið fjallað um hátt lyfjaverð hér á landi. Ýmsar ástæður eru fyrir því að sumar tegundir lyfja eru á hærra verði hér en í nágrannalöndunum og er ein ástæðan án efa smæð markaðarins. Ljóst er að lækka má verulega lyfjakostnað almennings í landinu, sjúkrastofnana og Tryggingastofnunar ríkisins með því að afnema virðisauka á lyf. Ríkið greiðir nú um 56% af heildarkostnaði lyfja sem ávísað er með lyfseðlum sem afgreiddir eru í apótekum. Ríkið er semsagt að greiða hátt á annan milljarð króna vegna sjúkratrygginga árið 2003 út af virðisauka af lyfjum þ.e. helmingur þeirrar upphæðar sem ríkissjóður hefur í tekjur af lyfjasölunni.

Þungar byrðar Að þjást af langvarandi erfiðum sjúkdómi, eða að eiga langveik börn ellegar maka við bága heilsu er þungur kross. Ekki bætir það úr skák að búa við þröngan efnahag. Það er staðreynd að lyfjakosnaður hundruða Íslendinga er þeim þungur baggi. Þess vegna er það kjarabót sem kemur þeim helst að gagni sem búa við hvað bágust kjör hér á landi, þ.e.a.s. öryrkjar, sjúklingar, barnafjölskyldur og eldri borgarar ef virðisauki á lyf yrði felldur niður.

Astma- og ofnæmisfélagið heldur fund um þetta mál kl. 12.00, fimmtudaginn 18. nóvember í Iðnó. Þar munu fulltrúar stjórnmálaflokkanna lýsa skoðun sinni á þessari áskorun SÍBS um niðurfellingu virðisauka á lyf. Þá munum við heyra skoðun fulltrúa Alþýðusambands Íslands á þessu nauðsynjamáli.

Við skorum á alla þá sem áhuga hafa á að bæta kjör öryrkja, sjúklinga og eldri borgara að mæta á fundinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *