Fréttatilkynning frá Hjartaheill:

Gífurlegur kostnaður samfélaga um allan heim vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Ísland engin undantekning.

Milljón á klukkustund – allt árið

Nýútkomin og afar viðamikil skýrsla Evrópsku hjartasamtakanna tekur í fyrsta skipti á efnahagsáhrifum hjarta- og æðasjúkdóma. Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga er aðili að Evrópsku hjartasamtökunum. Tölurnar eru risavaxnar og hafa ekki verið settar fram með þessum hætti fyrr. Um er að ræða tvíþættan kostnað. Í fyrsta lagi kostnað heilbrigðiskerfis og í öðru lagi kostnað samfélags, svo sem vegna minni framleiðni og kostnaður vegna fjarvista starfsmanna, hvort sem er sjúklinga eða aðstandenda. Loks mætti nefna þriðja liðinn sem raunar er ekki inni í þessum tölum en það er kostnaður vegna forvarna að hluta og kostnaður við ýmislegt fyrirbyggjandi starf.

Meðaltöl frá Evrópusambandinu

Heildarkostnaður Evrópusambandsríkja þegar þessi kostnaður er tekinn saman er hvorki meira né minna en 169 milljarðar evra. Evran er um 82 kr. Tveir þriðju hlutar kostnaðarins er flokkaður sem beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins. Sjúkrahúslega, aðgerðir og annað tengt beinum útgjöldum vegna sjúkdómanna. Þriðjungur er svo hinn óeiginlegi kostnaður sem birtist í framleiðslutapi og lakari lífskjörum. Í skýrslu Evrópsku hjartasamtakanna er annars vegar verið að miða við Evrópu alla og hins vegar aðildarríki Evrópusambandsins. Við horfum hér til Evrópusambandsins og þegar búið er að reikna þetta fram og til baka stendur eftir afar áhugaverð en jafnframt há tala, eða 374 evrur að meðaltali, á hvern íbúa Evrópusambandsins, sem er kostnaður við hjarta- og æðasjúkdóma á hverju ári. Evran er 82 kr. eins og fyrr segir. Það þýðir að ef við yfirfærum þessi meðaltöl Evrópusambandsins yfir á Ísland þá jafngildir það um 30.000 krónum á hvert mannsbarn á Íslandi. Ef sú tala er svo margfölduð með fjölda íslendinga þá fáum við út töluna 8.785 milljónir króna, eða 8.8 milljarða króna á ári. Þetta má áætla að sé kostnaður Íslands á ári vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Deilt niður á klukkustundir, allan ársins hring er þetta rétt rúm milljón á klukkustund.

Jafnvel 2 milljónir á klukkustund

En meðaltal þýðir að hjá einhverjum er þetta verulega lægri upphæð og mun hærri hjá öðrum. Bretland og Þýskaland eru til að mynda að greiða mun hærra gjald fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Þannig er kostnaður á hvern íbúa á ári í þessum löndum tæplega 50 þúsund krónur, sem myndi þýða yfirfært á Ísland rúma fjórtán milljarða á ári og þá er farið að styttast í að kostnaðurinn sé um tvær milljónir á klukkustund.  Þegar rætt er um hjarta og æðasjúkdóma er einnig verið að tala um heilablóðfall. Ef litið er á skiptingu milli kransæðasjúkdóma annars vegar og heilablóðfalls hins vegar kemur í ljóst að ríflega fjórðungur alls kostnaðarins fellur til vegna kransæðastíflu. Ríflega fimmtung má rekja til heilablóðfalls. Ef horft á hvernig þessi kostnaður skiptist niður þá hafa Evrópsku hjartasamtökin grein kostnaðinn þannig: Kransæðastífla – 51% beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins, 34% framleiðnitap og kostnaður vegna fjarveru og umönnunar 15%.

Þegar um er að ræða heilablóðfall er hlutfallið nokkuð annað eða: 62% beinn kostnaður heilbrigiskerfisins, 18% framleiðnitap og 20% kostnaður vegna fjarveru og umönnunar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *