Laugardaginn 19. febrúar 2005 verður mæling í Þorlákshöfn

Félag hjartasjúklinga á Suðurlandi færði síðastliðið haust líkamsræktarstöðinni „Styrk á Selfossi“ hjartastuðtæki að gjöf. Í „Styrk“ er fólk á öllum aldri við þjálfun, bæði undir leiðsögn sjúkraþjálfara og líkamsræktarþjálfara.
Hjartastuðtæki eru komin víða í íþróttahús, skip og hina ýmsu staði þar sem margmenni er. Tækin eru auðveld í notkun og hafa þegar bjargað mannslífum.
Aðrar gjafir á árinu 2004, eru peningastyrkur til ungs drengs sem þurfti að fara í hjartaaðgerð og peningastyrkur til Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands til kaupa á ómskoðunartæki sem nýtist til hjartaómskoðunar.

Næstkomandi laugardag 19. febrúar 2005 verður félagið, ásamt AstraZeneca með mælingu á kólesteróli að Egilsbraut 9, Þorlákshöfn. Mælt verður með nýjum mælum CardioChek, sem reynst hafa vel og hlotið viðurkenningu í Bandaríkjunum. Margar rannsóknir á undanförnum árum hafa sýnt fram á hve nauðsynlegt er að lækka kólesteról til að koma í veg fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Mælingin er ókeypis. Lyfjafræðingur verður með fræðslu meðan á mælingu stendur. Heilbrigðisstarfsfólk mun sjá um mælingar og læknir verður til ráðleggingar.
Í tilefni mælingarinnar ætlar AstraZeneca að færa heilsugæslunni í Þorlákshöfn kólesterólmæli að gjöf og Félag hjartasjúklinga á Suðurlandi færa heilsugæslunni sjálfvirkan blóðþrýstingsmæli.
Sigríður Bergsteinsdóttir, formaður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *