Iceland Express gengur til liðs við Hjartaheill

Iceland Express hefur gert styrktarsamning við Hjartaheill. Samningurinn er afar rausnarlegur og leggur Iceland Express samtökunum til fjölda flugmiða á þessu ári. Flugmiðarnir verða samkvæmt samningnum nýttir á tvennan máta. Annars vegar verður fjölskyldum hjartveikra barna boðið til útlanda og hins vegar verður ákveðinn fjölda miða nýttur til þátttöku í erlendu samstarfi. Hjartaheill hefur fram til þessa ekki tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi, þrátt fyrir að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir samtökin. 

Neistinn, sú deild innan Hjartaheillar sem annast málefni hjartveikra barna og aðstandenda á stórafmæli á þessu ári. Tíu ár eru liðin frá stofnun Neistans og er þetta um leið vegleg afmælisgjöf frá Iceland Express. Fjölskyldur sem fá þennan ánægjulega glaðning frá Iceland Express verða látnar vita, þegar líður nær sumri. Fjölskyldurnar verða valdar með aðstoð félagsráðgjafa sem unnið hefur með Hjartaheill.  

Samningur sem þessi er Hjartaheill ómetanlegur og styrkir allar helstu stoðir samtakanna. 

Iceland Express kynnti nýlega þriðja áfangastað sinn í Evrópu, Frankfurt Hahn í Þýskalandi. Frá og með maí verður reglulegt flug til Englands, Danmerkur og Þýskalands. Hjartaheill hvetur félgagsmenn sína til að kynna sér frábær kjör Iceland Express á flugfargjöldum. 

Iceland Express tók til starfa 27. febrúar 2003 og hefur því boðið áætlunarflug á lágum fargjöldum í tæp tvö ár.

Hjartaheill eru fjölmennustu forvarnarsamtök á Íslandi með um fjögur þúsund félagsmenn innaborðs um land allt. 

Myndatexti: Samningurinn undirritaður í húsnæði Iceland Express við Suðurlandsbraut. Frá vinstri: Ásgeir Þór Árnason framkvæmdastjóri Hjartaheillar og Birgir Jónsson sölu- og markaðsstjóri Iceland Express.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *