Köflóttur dagur

Fyrsti dagurinn í hjólaferðinni okkar var afar köflóttur. Frábær félagsskapur og mikið hlegið. Eiður Smári verndari Hjartaheilla var fyrsti gesturinn og hjólaði upp að Litlu kaffistofunni í Svínahrauni. Eftir að hafa gefið Birki Árnasyni, sem fæddist með hjartagalla, deildarbikartreyjuna sína skokkaði gulldrengurinn aftur til Reykjavíkur. Íslandsbanki hafði keypt treyjuna fyrir 500 þúsund krónur og styrkt með því Neistann. Bjarni Ármannsson forstjóri bankans mætti með treyjuna á kaffistofuna og það mátti sjá stöku tár innan um regndropana á andliti viðstaddra. Bjarni hjólaði með okkur til Hveragerðis í grenjandi rigningu. Þegar þangað var komið tilkynnti hann um framlag bankans til söfnunarinnar 500 þúsund krónur. Takk Íslandsbanki.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra tók við í Hveragerði og hjólaði á Selfoss. Þar með var frábær félagsskapur að baki og við tók martröðin.

Það fór að hvessa. Og svo hvessti aðeins meira. Meðalhraðinn fór úr 17 km á klst. niður í 12.5 og því næst niður í 9 km. Síðustu kílómetrarnir voru virkilega erfiðir og við komum á Hvolsvöll klukkan 21:30 í gærkvöldi.

Nú að morgni annars dags er áfram rok á Suðurlandi. Þessi veðurstofa er tæpast að standa sig í stykkinu? Eða hvað. Hvernig væri að fá stífa vestanátt? Er ekki hægt að redda því? Við ætlum að hjóla til Víkur í Mýrdal og taka okkur allt að átta tíma í það. Þá verður botninn orðinn eldrauður og jafnvel sár, en vonandi lægir og við verðum mun fljótari.

Með mér leggur af stað hjartahjúkkan og einkaþjálfarinn minn Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir – Hvolsvellingur. Ég á von á fleiri gestum í dag en nánar um það síðar…..

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *