Komið á Klaustur í hellirigningu.

Hringferðin hefur sóst mjög vel þrátt fyrir afleitt veður á köflum. Frá Vík í Mýrdal var haldið í fremur björtu veðri. Þegar leið á morguninn fór að rigna og blása, auðvitað í andlitið. Með í för var Brandur Guðjónsson hjólreiðakappi frá Vík og Helgi Geirharðsson verkfræðingur og fyrrum Íslandsmeistari í hjólreiðum.

 

Brandur sagði okkur söguna úr svokölluðu Sturluhlaupi Kötlu um 1396. Sturla var bóndi á Mýrdalssandi og þegar Katla gaus gerði hamfarahlaup um allan sand. Sturla var barnmargur og þegar beljandi jökulaurinn hóf að vella fram sandinn og úti fyrir bænum greip Sturla yngsta barn sitt og stökk á ísjaka sem flaut hjá. Sturla bað Guð að vernda þá sem eftir voru. Sturla fannst nokkrum dögum síðar með kornabarnið enn á lífi. Hann hélt lífi í barninu með því að skera í gerivörtur sínar og láta barnið sjúga volgt blóðið. Miklar söguslóðir.

 

Brandur kvaddi okkur við Hjörleifshöfða og við Helgi héldum áfram mót suð-austan áttinni og óveðrinu. Til Klausturs komum við um klukkan 14 og borðuðum og skiptum um föt. Haldið var á stað á nýjan leik um klukkan 16 og hjólað út fyrir Djúpá um 30 km austan við Klaustur. Á morgun er markmiðið að komast 60 km austur fyrir Skaftafell. Þá eru 70 km eftir í Höfn og lok fyrstu viku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *