Haraldur Steinþórsson var einn af forystumönnum í sveit hjartasjúklinga til margra ára. Haraldur sat í stjórn Landssamtaka hjartasjúklinga frá árinu 1985 til 1996. Þegar Haraldur lét af störfum sem stjórnarmaður var hann ávallt tilbúin að leggja samtökunum lið s.s. með því að sækja fundi og taka þátt í ýmsum verkefnum sem til hans var leitað með.
Haraldur var fyrsti formaður stjórnar HL stöðvarinnar í Reykjavík en stöðin sérhæfir sig í endurhæfingu á hjarta og lungnasjúklinga. Haraldur var aðalhvatamaður þess að stöðin yrði stofnuð.
Fyrir Landssamtök hjartasjúklinga var ómetanlegt að fá mann sem Harald til liðs við samtökin, hin mikla reynsla hans á sviði félagsmála kom sér afar vel auk þess sem eftir var tekið þegar Haraldur tók til máls, kraftmikil rödd hans, vandað málfar og rökfesta var mikil hvatning fyrir fólk sem staðið hafði í veikindum og var að sækja í sig veðrið á ný.
Haraldur var mikill baráttumaður og lagði sig fram um að ná góðum árangri í þeim málum sem hann tók að sér, það var sérlega gott að leita til Haraldar eins og þegar hugmyndin um nafnið Hjartaheill kom til umræðu þá var hann alveg samþykkur þeirri breytingu.
Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga þakka Haraldi öll hans störf í þágu samtakanna og senda eiginkonu hans Þóru Sigríði Þórðardóttur og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.
Vilhjálmur B. Vilhjálmsson, formaður
Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri