Alþjóðlegi hjartadagurinn 25. september 2005

Alþjóðlegi hjartadagurinn er í dag, sunnudaginn 25. september.
Í því tilefni leggja alþjóðasamtök hjartasjúklinga áhersla á nauðsyn þess að halda líkamsþyngdinni í skefjum ásamt því að stunda reglubundna og markvissa hreyfingu.

Hjartaheill tekur heilshugar undir þessi þýðingarmiklu atriði, en þau eru alger lífsnauðsyn til að draga úr áhættu á hjartasjúkdómum.

 

Fyrir hvern einstakling er það leið til bættrar heilsu og betri líðan að vera í góðu formi og gæta að líkamsþyngdinni.

Aukin hreyfing og útivist er beinlínis heilsubót og hefur ómetanlegt gildi. Hjartaheill hefur ávallt lagt áherslu á framangreind atriði og fer þar saman velferð einstaklinganna og hagur þjóðfélagsins í heild.

Hjartaheill á höfuðborgarsvæðinu verður með göngu sem hefst frá Heilsugæslu Kópavogs við Smáralind kl. 14.00. Gengið verður niður í Kópavogsdalinn og verður Björn Þorsteinsson sagnfræðingur leiðsögumaður. Hann mun fræða göngufólk um sögu svæðisins bæði fyrr og nú. Gengnir verða tveir til þrír kílómetrar. Deildir Hjartaheilla um land allt efna til hjarta- og fjölskyldugöngu þennan dag og eru allir hvattir til þess að mæta.

Mælingar á blóðþrýstingi og blóðfitu verða í Smáralind og Kringlunni frá kl. 13:00 til 17:00.

Subway hefur styrkt samtökin veglega á þessum degi og getur almenningur styrkt samtökin með því að fara á Subway og kaupa sér bát í flokknum 7 undir 6, en það eru heilsubátar Subway. Öll sala af þessum bátum, allan daginn á öllum stöðum Subway rennur beint og óskipt til samtakanna. Við hvetjum alla til að fara á Subway og styðja við bakið á Hjartaheill.
 
Í tilefni dagsins verður hjartarósin seld til styrktar samtökunum. Lyf og heilsa mun selja rósina í verslunum sínum á höfuðborgarsvæðinu og einnig verður rósin til sölu í Smáralind. Allur hagnaður af sölu rósarinnar rennur til Hjartaheilla.

Lyf og heilsa ásamt Flexor, göngugreiningu Suðurlandsbraut 34 eru aðalstyrktaraðilar Hjartaheilla á alþjóðlega hjartadaginn.

Vilhjálmur B. Vilhjálmsson, formaður
Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *