Mikið hefur verið að gera hjá hjartalæknum

KARL Andersen, sérfræðingur í hjartasjúkdómum, segir að mikið hafi verið að gera á hjartadeildum undanfarið og mikil eftirspurn sé eftir þjónustu hjartalækna. Hann kveðst ekki vita hvort ástandið sé tímabundið en gefur nokkrar hugsanlegar skýringar á aukinni ásókn í hjartalækna.

„Það varð mikil vakning í sambandi við hjartaheilbrigði og forvarnir á árinu,“ segir Karl. „Þjóðþekktir einstaklingar urðu hjartveikir og fengu hjartaáföll og það vakti mikla athygli.“
Karl segir að einnig hafi opnast ný tækifæri í sambandi við sneiðmyndir af kransæðum og tiltölulega auðvelt sé orðið að athuga hvort fólk sé í áhættuhópi.
„Þessi tækni var ekki til fyrir rúmu ári síðan og þetta hefur aukið aðstreymi til okkar,“ segir hann. „Á síðustu tólf mánuðum hafa líka nokkrir hjartalæknar komið heim úr námi og þeir hafa verið að vinna á stofum og hafa stytt biðlista sem myndast höfðu. Það er styttri bið eftir að hitta hjartalækna en áður.“ Karl segir aukninguna ekki vera neikvæða, heldur sé fólk farið að huga betur að heilsunni.

Hann segir fólk vera að bregðast við vakningunni og það láti skoða sig í auknum mæli. „Mér finnst jákvætt að fólk lætur fylgjast með sér,“ segir hann. „Kransæðastíflum hefur fækkað marktækt en fjöldi hjartasjúklinga er alltaf að aukast, aðallega vegna þess að fólk lifir lengur í dag en það gerði. Nýjum tilfellum fækkar en fólk lifir lengur og þarf meðhöndlun í lengri tíma en áður. Það eru margir með hjartasjúkdóma en fólk er orðið meðvitaðra. Aðalávinningurinn liggur í forvörnum, þær skila sér til langs tíma.“ Morgunblaðið þriðjudaginn 8. nóvember 2005.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *