Subway styrkir Hjartaheill

Helgi Einar Harðarson, hjartaþegi, tók við styrk frá Subway fyrir hönd Hjartaheilla.
Styrkurinn nemur rúmum 740.000 krónum en Hjartaheill fékk allan ágóða af sölu Subway á Íslandi á heilsubátum á Alþjóðlega hjartadaginn, 26. september s.l.

Þetta er annað árið í röð sem Subway styrkir samtökin með þessum hætti og segir Eggert Skúlason, varaformaður Hjartaheilla, að svona upphæð breyti miklu. „Við erum stórkostlega þakklát,“ sagði hann í gær og benti sérstaklega á að peningarnir kæmu sér vel nú þegar liði að jólum.

„Allt jafnt og þétt upp á við“ Helgi Einar hefur nú í eitt og hálft ár verið með nýtt hjarta og
nýru og segir hann að mjög vel hafi gengið hjá sér. „Ég fór í ársskoðun í júní,“ segir hann.  „Skoðunin sjálf gekk ekkert voðalega vel, því þeir stungu á slagæð í hálsinum á mér og ég
fékk smá innvortis blæðingar, en ég fékk mjög góða skoðun.

Hjartað er gott og virkar vel og er alltaf að bæta við sig. Það hefur allt verið jafnt og þétt upp á við og vonandi verður það þannig áfram.

“ Helgi vinnur og leikur sér eins og aðrir og undanfarið hefur hann keyrt vörubíl og sinnt hestunum sínum mikið. Hann segist gera sitt lítið af hverju og fer til dæmis í sund og gönguferðir auk þess að sinna hestamennskunni. Helgi er að vonum mjög ánægður með framtak Subway og segir að þar fáist skyndibitinn sem allir geti borðað án samviskubits.
Morgunblaðið þriðjudaginn 8. nóvember 2005.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *