Lög Hjartaheilla og deilda

1. gr.

Samtökin heita Hjartaheill.
Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. gr.

Hjartaheill eru samtök deilda sem starfa hver á sínu svæði og Neistans, styrktarfélags hjartveikra barna. Félagsmenn í hverri deild eru hjartasjúklingar og aðrir þeir sem styðja markmið samtakanna. Nafn deildar er Hjartaheill að viðbættu svæðisheiti.

 

Deildir geta myndað stjórnir sem halda árlega aðalfund. Þar skal leggja fram ársskýrslu og ársreikning. Skila skal afriti af ársskýrslu og ársreikningi til heildarsamtakanna eigi síðar en 1. september ár hvert.

 

Í þeim deildum sem ekki starfa stjórnir getur stjórn Hjartaheilla fundið sér tengla á viðkomandi svæði sem vinna að hagsmunum Hjartaheilla. Slíkar deildir þurfa einnig að skila árlega til heildarsamtakanna yfirliti yfir starfsemi sína og fjárreiður, eigi síðar en 1. september ár hvert.

 

Deildir Hjartaheilla skulu starfa eftir samræmdum lögum sem staðfest eru af stjórn Hjartaheilla.

 

3. gr.

Hlutverk Hjartaheilla er:
• að sameina hjartasjúklinga, aðstandendur þeirra og áhugafólk um heilbrigt hjarta
• að stuðla að betri heilsu og bættum lífsgæðum í íslensku samfélagi, með áherslu á framfarir í forvörnum, fræðslu og meðferð hjartasjúkdóma
• að standa vörð um hagsmuni og réttindi hjartasjúklinga
• að starfa faglega
• að framfylgja markmiðum samtakanna

 

4. gr.

Árgjald skal ákveðið á aðalfundi Hjartaheilla. Heimilt er að taka eitt gjald af fjölskyldu. Tekjur og kostnaður af árgjöldum skiptist jafnt milli Hjartaheilla og deilda. Stjórn Hjartaheilla ákveður skiptingu söfnunarfjár. Ráðstöfun fjármuna deilda er á ábyrgð stjórna þeirra. Þar sem aðeins eru starfandi tengiliðir en ekki formlegar stjórnir deilda skal ráðstöfun fjár vera í samráði við stjórn Hjartaheilla.

 

5. gr.

Þriðja hvert ár kjósa deildir fulltrúa á aðalfund Hjartaheilla. Einn fulltrúa fyrir hverja 50 félagsmenn upp að 500, en einn fulltrúa fyrir hverja 200 umfram það. Fyrir brot úr þrepi kemur einn fulltrúi. Deildir með færri en 50 félagsmenn eiga rétt á einum fulltrúa. Þar sem aðeins eru starfandi tengiliðir, en ekki formlegar stjórnir deilda, skulu tengiliðir velja fulltrúa á aðalfund í samráði við framkvæmdastjóra Hjartaheilla.

 

6. gr.

Aðalfund Hjartaheilla skal halda í september eða október þriðja hvert ár. Stjórn Hjartaheilla skal með eins mánaðar fyrirvara tilkynna formönnum eða tenglum deildanna fundartíma, fundarstað og drög að dagskrá ásamt kynningu á helstu málum er hún hyggst leggja fyrir fundinn. Aðalfund skal boða bréflega, með tölvupósti eða öðrum sannanlegum hætti. Mál sem fulltrúar vilja leggja fram skulu berast stjórn Hjartaheilla minnst hálfum mánuði fyrir aðalfund og skal hún senda þau formönnum – tengiliðum til kynningar. Aðalmenn og varamenn stjórnar og starfsmenn Hjartaheilla, sem ekki eru kjörnir fulltrúar á aðalfundinn, hafa þar fullt málfrelsi og tillögurétt. Stjórn Hjartaheilla getur boðað til aukafundar, ef brýn þörf er á. Aðalfundir samtakanna skulu opnir öllum félagsmönnum.

 

7. gr.

Á aðalfundi Hjartaheilla skal:

a) Leggja fram til umræðu skýrslu stjórnar og afgreiða endurskoðaða reikninga Hjartaheilla og Styrktarsjóðs hjartasjúklinga.

b) Kjósa formann stjórnar til þriggja ára.

c) Kjósa sex aðalmenn í stjórn og þrjá til vara. 

Skulu 3 aðalfulltrúar vera af höfuðborgarsvæðinu og 3 af landsbyggðinni.

d) Kjósa þrjá aðalmenn og einn til vara í stjórn Styrktarsjóðs hjartasjúklinga

e) Kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara.

f) Fastanefndir Hjartaheilla eru laga- og skipulagsnefnd og kjörbréfa- og uppstillingarnefnd og skulu kjörnir 5 félagsmenn í hvora nefnd. 

Stjórn Hjartaheilla skipar aðrar nefndir eftir þörfum.

Kosning skal vera skrifleg, ef stungið er upp á fleirum en kjósa ber. Þeir sem flest atkvæði hljóta teljast rétt kjörnir. Ef atkvæði eru jöfn skal hlutkesti ráða.

g) Leggja fram tillögur til lagabreytinga sem skulu hafa borist stjórn Hjartaheilla hálfum mánuði fyrir aðalfund. 

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi Hjartaheilla með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.

h) Afgreiða mál sem stjórn eða félagsmenn hafa lagt fram, svo og önnur þau mál sem aðalfundurinn samþykkir að taka á dagskrá.

 

8. gr.

Stjórnin ræður málefnum Hjartaheilla milli aðalfunda og er ábyrg gerða sinna fyrir aðalfundi.

 

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sem starfar eftir ráðningarsamningi.
Framkvæmdastjóri hefur heimild til að ráða aðstoðarfólk. Stjórn Hjartaheilla þarf ávallt að samþykkja slíka ráðningu.

 

Á stjórnarfundi skal boða aðal- og varamenn með tryggilegum hætti með minnst þriggja daga fyrirvara. Stjórnarfundir eru löglegir ef fimm stjórnarmenn eru mættir hið minnsta. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns.

 

Stjórn Hjartaheilla tilnefnir fulltrúa á þing SÍBS.

 

Stjórn Hjartaheilla er heimilt að sæma einstaklinga eða aðra heiðursmerki eða heiðursskjali samtakanna fyrir sérstaklega vel unnin störf í þágu hjartasjúklinga eða einstakra deilda skv. reglugerð þar um.

 

Þau ár sem ekki er aðalfundur skal stjórnin halda fund með formönnum og tenglum deilda og starfsnefnda. Þar skulu lagðir fram reikningar síðasta árs og fjallað um helstu málefni líðandi stundar innan samtakanna. Fundurinn er ráðgefandi fyrir stjórn samtakanna.

 

9. gr.

Komi fram tillaga um að Hjartaheillum verði slitið, skal stjórn samtakanna kynna slíka tillögu í deildunum með a.m.k. sex mánaða fyrirvara fyrir næsta aðalfund Hjartaheilla.
Um afgreiðslu málsins gildir að öðru leyti ákvæði laganna um lagabreytingar.

 

10. gr.

Verði Hjartaheillum slitið skal eignum þess ráðstafað til deildanna í samræmi við stærð þeirra.

 

Breytt á aðalfundi samtakanna 12. september 2015.

 

 

Lög deilda Hjartaheilla

               1. gr.
Nafnið er Hjartaheill, (viðeigandi svæðisfélag) og er deild í landssamtökunum Hjartaheill. Heimili og varnarþing er (viðkomandi svæði).

 

               2. gr.
Hlutverk deildanna er að vinna að hagsmunamálum hjartasjúklinga í samræmi við markmið landssamtakanna.

 

               3. gr.
Félagsmenn geta allir þeir orðið sem styðja tilgang deildanna og eru búsettir á (viðkomandi svæði).

 

               4. grein
Árgjöld skulu vera samkvæmt lögum landssamtakanna og upphæð þeirra ákveðin á aðalfundi þeirra. Tekjur og kostnaður af árgjöldum skiptist jafnt á milli landssamtakanna og deilda sem eru með starfandi stjórn. Ráðstöfun fjármuna deilda er á ábyrgð stjórna þeirra. Þar sem eru tengiliðir en ekki formlegar stjórnir deilda skal ráðstöfun fjár vera í samráði við stjórn landssamtakanna. Deildir eiga að skila yfirliti yfir starfsemi sína og fjárreiður, eigi síðar en 1. september ár hvert. Bersit ekki gögn falla greiðslur árgjalda niður það árið eða verða greiddar þegar gögnin berast skrifstofu Hjartaheilla.

 

               5. gr.
Reikningsár deildanna er almanaksárið.

 

               6. gr.
Aðalfund deilda skal halda einu sinni á ári. Skal þar velja stjórn eða tengilið við stjórn landssamtakanna. Hver deild ákveður form aðalfundar. Í deildum þar sem hvorki hefur verið kosin stjórn né tengiliður getur stjórn landssamtakanna valið sér tengilið frá deildinni. Aðalfundur getur kosið sér stjórn að nýju þótt tengiliður hafi verið starfandi.

 

               7. gr.
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda skal lagabreytinga getið í fundarboði. Slíkar tillögur taka því aðeins gildi að þær hljóti samþykki 2/3 greiddra atkvæða og staðfestingu stjórnar landssamtakanna.

 

               8. gr.
Deildunum ber að tilkynna stjórn landssamtakanna um fulltrúa sína á þing Hjartaheilla með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Fjöldi fulltrúa skal vera í samræmi við lög landssamtakanna.

 

               9. gr.
Komi fram tillaga um að deild verði lögð niður þarf til þess samþykki tveggja funda og skal annar þeirra vera aðalfundur. Á báðum fundum þurfa 2/3 fundarmanna að samþykkja tillöguna. Hætti deildin störfum skal landssamtökunum falin umsjón eigna. Verði stofnað nýtt félag innan fimm ára, sem ótvírætt telst arftaki deildarinnar, fær það eignirnar, en að öðrum kosti fær Hjartaheill þær til frjálsrar ráðstöfunar eftir þann tíma.

 

Þannig samþykkt á stjórnarfundi 2. desember 2016 og breytt 8. desember 2017.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *