Hvetja heilbrigðisyfirvöld og Alþingi

Samtökin um betri byggð hvetja heilbrigðisyfirvöld og Alþingi til að fresta um sinn frekari ákvörðunum um skipulag og hönnun nýs hátæknisjúkrahúss við Hringbraut þar til forsvaranleg undirbúningsvinna fyrir þessa ákvörðun hefur verið unnin, eins og segir í ályktun frá stjórn samtakanna.

Samtökin segja að framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu sé ein mikilvægasta ákvörðun sem Íslendingar standi frammi fyrir. Ekki hafi verið lagður fram neinn faglegur samanburður á þeim kostum sem koma til greina né mat á líklegum afleiðingum mismunandi kosta. „Á undanförnum mánuðum og misserum hafa því komið fram rökstuddar efasemdir við áform heilbrigðisyfirvalda um hátæknisjúkrahús LSH við Hringbraut, m.a. efasemdir um að rétt sé að hafa einungis eitt bráðasjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu.

Í nýlegri skoðanakönnun kom fram andstaða við staðsetningu sjúkrahússins við Hringbraut. Grenndarkynning á áformum um uppbyggingu við Hringbraut, sem heitið var á sl. ári, hefur enn ekki farið fram meðal íbúa í aðliggjandi borgarhverfum og ekki hefur verið unnið lögformlegt deiliskipulag af lóðum LSH og nánasta umhverfi.

Samtök um betri byggð vekja athygli á því að umferðarskipulag umhverfis lóð LSH við  Hringbraut er með öllu ófullnægjandi fyrir sjúkrahúsið, umferðarkerfi borgarinnar og aðliggjandi borgarhverfi.

Það er mat samtakanna að öll áform um uppbyggingu LSH, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og annarra stofnana hljóti að taka mið af niðurstöðum alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um heildarskipulag Vatnsmýrarsvæðisins, sem nú er í undirbúningi.“ Morgunblaðið 31. janúar 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *