Breska þingið samþykkti reykingabann

Breska þingið samþykkti í fyrrakvöld algert bann við reykingum á opinberum stöðum í Englandi en áður hafa sambærileg lög gengið í gildi á Norður-Írlandi og frá og með næsta mánuði er bannað að reykja á opinberum stöðum í Skotlandi. Reykingabannið nær til kráa, einkaklúbba, veitingastaða og vinnustaða og markar mikil tímamót í Bretlandi, þar sem  áætlað er að einn af hverjum fjórum reyki. Fylgir breska þingið með þessu í fótspor Íra, Ítala, Norðmanna, Möltumanna og Svía.

Í gildi sumarið 2007

Öruggur meirihluti var fyrir því að banna reykingar á öllum krám en síðan samþykkti þingið einnig að banna reykingar í einkaklúbbum. Skiptar skoðanir voru um hversu langt bannið skyldi ná, en þegar til kastanna kom samþykkti þingheimur semsé að fara alla leið í þessum efnum, þ.e. banna reykingar á öllum opinberum stöðum. Breski heilbrigðisráðherrann,  Patricia Hewitt, fagnaði ákvörðun þingsins en bannið á að ganga í gildi sumarið 2007. Sagði hún að með þessu yrði „þúsundum mannslífa bjargað“. Morgunblaðið 16. febrúar 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *