Fólki mismunað í kerfinu

FÓLKI er mismunað með misháum notendagjöldum í sjúkratryggingum hér á landi, til að mynda eftir aldri, heilsu, sjúkdómum og tekjum, en þetta kemur fram í nýlegri samantekt yfirstjórnar og sérfræðinga sjúkratryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins (TR). Samantektin ber yfirskriftina Réttlátari notendagjöld í sjúkratryggingum á Íslandi en í henni segir meðal annars að bæði virðist skorta á samræmingu og heildaryfirsýn í málaflokknum. Taka þurfi til gagngerrar endurskoðunar allt regluverk um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga með það að markmiði að einfalda reglur til að tryggja jöfnuð.

 

Í samantektinni eru gefnar skýringar á því áliti höfunda hennar að ójöfnuður ríki í þessum málaflokki. Fram kemur að hann stafi að einhverju leyti af því að aðgengi einstaklinga og þrýstihópa að stjórnvöldum sé mismunandi. Því geti greiðsluþátttaka sjúkratrygginga verið meiri, og þar með kostnaður sjúklinga minni, vegna ýmissa velmegunarsjúkdóma sem líklegri eru til að hrjá þá sem meira mega sín í þjóðfélaginu en vegna sjúkdóma sem frekar hrjá hina efnaminni.

 

Á Vesturlöndum fjármagni hið opinbera heilbrigðiskerfi að mestu með skatttekjum, en víðast greiði sjúklingar þó umtalsverðan hluta kostnaðar við heilbrigðisþjónustu með notendagjöldum. Gripið hafi verið til þess að velta hluta af kostnaðinum yfir á notendur til þess að draga úr vaxandi kostnaði og meintri óþarfa notkun heilbrigðisþjónustunnar. „Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að notendagjöld eru ámóta líkleg til að draga úr nauðsynlegri þjónustu og ónauðsynlegri,“ segir í samantektinni. Því geti notendagjöld leitt til heilsuskaða þeirra sem ekki hafa efni á að greiða þau.

 

Þá er rætt í samantektinni um tekjutengingu sjúkratrygginga, sem eiga við í sumum tilfellum greiðslna í heilbrigðiskerfinu. Þar segir að mun einfaldara og æskilegra sé, að þeir sem þurfa meiri aðstoð, en almannatryggingum er almennt ætlað að veita, fái hana í gegnum félagslega kerfið. Einnig segir í samantektinni að ekkert bendi til þess að lönd sem hafa hlutfallslega há notendagjöld hafi jafnframt lægri heilbrigðisútgjöld eða að slík útgjöld aukist þar hægar en í þeim löndum þar sem notendagjöld eru lægri.

 

Engin afsláttarkort vegna tannlækninga barna

Rætt er um afsláttarkort í samantektinni og bent á að æskilegt sé að þau miðist við hlaupandi tólf mánaða tímabil í stað almanaksárs, eins og nú er um afslátt sem sjúklingar geta fengið þegar notendagjöld vegna ákveðinnar heilbrigðisþjónustu, sem veitt er á heilsugæslustöðvum, á göngudeildum, bráðamóttöku og slysadeildum sjúkrahúsa, hafa náð ákveðinni upphæð.

Í samantektinni er enn fremur bent á að þeir, sem þurfa að nota heilbrigðisþjónustu innan mismunandi málaflokka sjúkratrygginga, geti borið mikinn kostnað án þess að eiga nokkurn rétt á aukinni þátttöku trygginganna. Tannlækningar barna og lífeyrisþega falli t.d. ekki undir nein afsláttarkort.

 

 

Vill ekki kasta kerfinu fyrir róða

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra kveðst hafa átt einn fund með starfsmönnum TR vegna samantektarinnar, en þar hafi verið ákveðið að ræða efni hennar nánar. Samantektin sé vinnuplagg, en þar komi fram ábendingar sem ráðuneytið sé tilbúið að skoða. Áreiðanlega sé eitthvað sem megi betur fara í kerfinu, en hann vilji þó ekki kasta því fyrir róða.

 

Inntur eftir áliti sínu á þeirri gagnrýni sem fram kemur á notendagjöld í samantektinni, segir Jón velferðarkerfið þannig uppbyggt að mismunandi greiðslur renni til mismunandi hópa. „Við erum með afslætti fyrir eldra fólk og fyrir börn. Þá er niðurgreiðsla lyfjakostnaðar mismunandi eftir þjóðfélagshópum, það eru sérstök kjör fyrir öryrkja,“ nefnir Jón sem dæmi.

Með velferðarkerfinu sé reynt að ná til þeirra sem minna mega sín. „Þetta leiðir af sér flóknara kerfi, eðli málsins samkvæmt.“ Æskilegt að afsláttarkort miðist við 12 mánaða tímabil Ráðherra tekur undir það sem fram kemur í samantektinni um að æskilegt væri að afsláttarkort til sjúklinga miðist ekki við almanaksár, heldur við 12 mánaða tímabil. „Ég tek undir það að það væri skynsamlegra að miða ekki við almanaksárið,“ segir Jón. Jón kveðst telja að notendagjöld í heilbrigðisþjónustunni eigi fullan rétt á sér, en hann hafi hins vegar ekki verið fylgjandi því að hækka þau frekar. „Auðvitað væri miklu einfaldara að fella þau niður, en við höfum ekki haft svigrúm til þess,“ segir Jón. Morgunblaðið 16. febrúar 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *