Sandra Franks fjallar um líknarfélög

LÍKNARFÉLÖG hér á landi vinna margvísleg þjóðþrifaverk. Þau njóta samt ekki sömu skattfríðinda og líknarfélög í Evrópu og Bandaríkjunum.

Ég hef því lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um skattfrelsi íslenskra líknarfélaga. Í henni er lagt til að fjármálaráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp um að skattreglum verði breytt þannig að íslensk líknarfélög njóti sömu skattfríðinda og erlendis. Ég hef lagt mesta áherslu á undanþágu vegna fjármagnstekjuskatts, því löng reynsla mín af starfi fyrir líknarfélög sýnir mér, að það er stærsti bitinn sem ríkið klípur af þeim með skattheimtu. 

Ísland er eftirbátur annarra 

Í dag njóta íslensk líknarfélög ekki undanþágu frá greiðslu fjármagnstekjuskatts. Þau eru heldur ekki undanþegin erfðafjárskatti eftir   lagabreytingu 2004. Þau hafa ekki lagalegan rétt til endurgreiðslu á virðisaukaskatti á aðföngum. Á Íslandi er einstaklingum heldur ekki heimilt að draga framlög sín til góðgerðarfélaga eða líknarfélaga frá skattstofni – eins og gilti þó eitt sinn og var þeim mikil lyftistöng. Í Evrópu og Bandaríkjunum eru allar þessar undanþágur í gildi. Þar skilja stjórnvöld greinilega betur, hversu gríðarlega mikilvægt starf líknarfélaga er, og hversu þýðingarmikið er að styðja við bakið á þeim.

 

Ísland er reyndar eina landið sem ég veit um þar sem stjórnvöld ýta ekki undir framlög einstaklinga til líknarfélaga með því að leyfa þeim að draga framlagið frá skattstofni. Í öllum öðrum löndum er skattafrádráttur vegna framlaga til góðgerðarsamtaka og líknarfélaga talinn vera  mikilvæg hvatning til einstaklinga til að láta eitthvað af höndum rakna til starfsemi þeirra. Þetta kom fram í skýrslu sem Jónas Guðmundsson, hagfræðingur, gerði 2004 fyrir ýmis hjálparsamtök  hér á landi. Lögaðilar mega þó hér á landi draga 0,5% af tekjum sínum frá skattstofni vegna  framlaga til líknar- og mannúðarmála.

 

Mikilvægt hlutverk líknarfélaga

Ég hef sjálf unnið í áratug fyrir ýmis styrktarsamtök hjartveikra barna, því ég á eitt slíkt.  Styrktarsjóður hjartveikra barna hefur til dæmis á sl. 5 árum samtals greitt í fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum kringum 1.700 þúsund kr. Óhætt er að segja að það skýtur skökku við, að frjáls félagasamtök sem með söfnunum og sjálfboðastarfi létta á útgjöldum ríkisins skuli þurfa að greiða því háar upphæðir í skatta af vaxtatekjum.

 

Líknarfélög, eins og Umhyggja, styrktarsjóður hjartveikra barna, Neistinn, og  Krabbameinsfélagið og SKB svo eitthvað sé nefnt, vinna að verðugum félagslegum verkefnum, sem opinberar stofnanir þyrftu annars að sinna. Hið opinbera þyrfti þá að verja til þess meira af fjármagni skattborgaranna en ella. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að það væri æskilegt að frjáls líknarsamtök og góðgerðarsamtök tækju að sér meira hlutverk í samfélaginu í framtíðinni. Þau vinna af hugsjónum. Starf þeirra er yfirleitt ólaunað sjálfboðaliðastarf. Þau eiga betra með að hjálpa einstaklingum en ópersónulegar stofnanir, hversu góðir einstaklingarnir eru sem þar vinna. Þess vegna eiga stjórnvöld að auðvelda þeim tilveruna með því að létta af þeim skatti, og beita skattareglum til að örva almenning til að láta fé renna til þeirra.

 

Ferns konar breytingar

Tilgangur minn með tillögunni er því að fá stjórnvöld til að breyta skattalögum með ferns konar hætti: Líknarfélög ættu ekki að þurfa að greiða fjármagnstekjuskatt og erfðafjárskatt. Auk þess ættu þau að fá lagalegan rétt til endurgreiðslu á virðisaukaskatti á aðföngum, og einstaklingar ættu að fá rúma heimild til að draga frá skattstofni sínum framlög til líknarfélaga. Morgunblaðið 26. febrúar 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *