Lyfjameðferð virðist vinna á æðakölkun

Lyfjameðferð virðist vinna á æðakölkun
Kröftug meðferð með statínlyfjum virðist ekki aðeins geta stöðvað æðakölkun heldur beinlínis unnið á henni, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Æðakölkun, eða uppsöfnun fitu innan í slagæðum, veldur hjartasjúkdómum. Alls tóku 349 sjúklingar í nokkrum löndum þátt í rannsókninni, sem stóð í tvö ár. Í ljós kom að stórir skammtar af nýju, öflugu statínlyfi, rosuvastatin, minnkuðu fitu sem safnast hafði í æðar.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á fundi American College of Cardiology.

Haft er eftir breskum lækni að niðurstöðurnar séu „virkilega spennandi“, en framkvæmdastjóri Hjartaverndarstofnunarinnar í Bretlandi segir að enn eigi þó eftir að sýna fram á að þótt takist að minnka fituna í æðum sjúklinga leiði það til færri hjartaáfalla. Hann taldi þó rannsóknina mikilvæga.

Rovustatin og önnur statínlyf draga úr blóðfitumagni. Athuganir sýndu að lyfið minnkaði magn LDL-blóðfitu, sem er hættuleg, um 50% og jók magn HDL-blóðfitu, sem minnkar hættu á æðakölkun, um 15%. Auk þess sáust merki um að uppsöfnuð fita í æðum sjúklinga minnkaði. Eftir tveggja ára meðferð hafði uppsafnað magn fitu minnkað um 6,8%, og meira þar sem kölkunin var verst. mbl.is 14. mars 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *