Minningarorð um Ólaf Aðalstein Jónsson

Ólafur Aðalsteinn Jónsson tollvörður er látinn. Ólafur var félagi í Hjartaheill, landssamtökum hjartasjúklinga og tók þátt í starfi samtakanna með ýmsum hætti.

Ólafur var fulltrúi á landsþingum, hann átti sæti í nefndum samtakanna og var oft til hans leitað.

Ólafur var þekktur fyrir frísklega framgöngu og höfðu hugmyndir hans mikið vægi enda ævinlega settar fram á skýran og hnitmiðaðan hátt.

Í mörg undanfarin ár tók Ólafur þátt í gönguferðum hjartasjúklinga í hverri viku og var ævinlega ánægjulegt að vera í návist hans.

Ólafur var tollvörður að ævistarfi og var starfsferill hans hjá tollinum afar farsæll.

Vegna sjónskerðingar þurfti Ólafur að ganga með öflug gleraugu en aldrei kom það fram að hann væri hindraður af þeim sökum.

Glaðværð hans og lífsgleði var eftirtektarverð og er hans saknað fyrir góða mannkosti og góða nærveru.

Stjórn og starfsmenn Hjartaheilla senda innilegar samúðarkveðjur til eiginkonu hans, barna og annarra ástvina.

Fyrir hönd Hjartaheill
Vilhjálmur B. Vilhjálmsson, formaður
Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *