UPPSAGNIR sjálfstætt starfandi hjartalækna á samningi við Tryggingastofnun ríkisins taka gildi frá og með morgundeginum, 1. apríl. „Samninganefnd Læknafélags Reykjavíkur var boðuð á fund sl. þriðjudag en þeim fundi var aflýst með 20 mínútna fyrirvara.
Ég hef ekkert heyrt í fulltrúum Tryggingastofnunar eða samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins síðan þá. Ég veit ekki hvað þeir eru að hugsa. Við lítum svo á að boltinn sé hjá þeim og höfum verið að undirbúa hvernig við höldum áfram að sinna okkar sjúklingum utan samnings. Þjónustan verður algerlega óbreytt af okkar hálfu,“ segir Þórarinn Guðnason, formaður Félags sjálfstætt starfandi hjartalækna.
Sjálfstætt starfandi hjartalæknar sögðu upp samningi við TR um síðustu áramót og taka uppsagnirnar gildi 1. apríl. Náist ekki samningar verða sjúklingar að greiða allan kostnað við komur til hjartalækna en TR hefur að meðaltali greitt um tvo þriðju af kostnaðinum.
„Greiðslufyrirkomulagið breytist,“ segir Þórarinn. „Við hættum að taka að okkur að vera milliliður við Tryggingastofnun ríkisins og fyrirkomulagið verður rétt eins og hjá tannlæknum, við tökum við fullri greiðslu hjá sjúklingunum en það er ekki á okkar ábyrgð hvort eða hvernig Tryggingastofnun tekur á endurgreiðslum. Við munum áfram veita öllum fulla þjónustu en verðum þá að innheimta samkvæmt gjaldskránni.“
Þórarinn segir að sjálfstætt starfandi hjartalæknar geti ekki unnið eftir þeim samningi sem í gildi hefur verið. Í nóvember og desember á síðasta ári hafi hjartalæknar í raun þurft að standa straum af stærstum hluta kostnaðar við meðferð hjartasjúklinganna.
„Augljóslega geta hjartalæknar ekki tekið á sig skuldbindingar TR á þennan hátt til frambúðar,“ segir hann.
Vaxandi eftirspurn „Vandinn er til kominn vegna þess að einingar í samningnum vegna hjartalækninga eru allt of fáar og kláruðust í lok október. Þegar einingarnar eru búnar eiga sjúklingarnir samkvæmt samningnum að fá þjónustu áfram en læknarnir verða að veita Tryggingastofnun frá 50–100% afslátt. Það sem eftir er dugir ekki fyrir launa- og rekstrarkostnaði hjá okkur.“
Þórarinn segir að eftirspurn eftir þjónustu hjartalækna fari ört vaxandi af ýmsum ástæðum, m.a. vegna hærri meðalaldurs þjóðarinnar og þess að fleiri lifa með hjartasjúkdóma vegna bættrar meðferðar. Einnig hafi aðsóknin aukist eftir að ýmsir hafi í fjölmiðlum hvatt fólk til þess að fara í skoðun og eftirlit hjá hjartalæknum til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll. Í mörgum tilvikum hafi þetta orðið til þess að sjúkdómar hafa uppgötvast og verið meðhöndlaðir í tíma. Morgunblaðið föstudaginn 31. mars 2006