Heilbrigðisráðherra gefur út reglugerð vegna verktakagreiðslna til hjartalækna

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur gefið út reglugerð sem öðlaðist gildi í gær, 1. apríl, vegna sérfræðinga í hjartalækningum sem sagt hafa sig frá samningi Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar ráðuneytisins. Með henni er sjúklingum sem leita þurfa til þessara hjartalækna tryggð endurgreiðsla þótt læknarnir séu ekki lengur aðilar að samningnum. Skilyrði er að sjúklingar leiti fyrst til heimilis- eða heilsugæslulækna sem meta eiga hvort vísa þurfi sjúklingi áfram til hjartasérfræðings.

Endurgreiðsla til sjúklings tryggð

"Sjúkratryggingaréttur almennings til niðurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sérfræðilækna er háður því að verktakasamningur læknis og samninganefndar HTR sé í fullu gildi," segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu. "Við erum með þessari reglugerð að koma á valfrjálsu endurgreiðslukerfi og tryggja með henni sjúklingum endurgreiðslu kostnaðar við heimsóknir til þessa hóps hjartasérfræðinga," segir heilbrigðisráðherra í samtali við Morgunblaðið. Hún segir að kjarni þessa kerfis sé sá að heilsugæslu- eða heimilislæknir þurfi að skoða sjúkling og meta hvort hann geti fengið úrlausn sinna mála þar eða hvort nauðsynlegt reynist að vísa honum til hjartasérfræðings. "Við erum að koma á nýju greiðslufyrirkomulagi gagnvart þessum læknum til að tryggja endurgreiðslu til sjúklinga sem þurfa að leita til þeirra," segir ráðherra og vekur jafnframt athygli á því að gefinn sé viku aðlögunartími. Þeir sem fá þjónustu hjartasérfræðinganna sem starfa nú án samnings við ráðuneytið þurfa með öðrum orðum ekki tilvísun í eina viku frá gildistöku reglugerðarinnar. Eftir sem áður geta sjúklingar snúið sér beint til hjartalæknis sem ekki er á verktakasamningnum án þess að leita fyrst til heilsugæslunnar en þá greiða sjúklingar sjálfir allan kostnað og eiga ekki rétt á endurgreiðslu frá TR.

Bitni ekki á sjúklingum

"HJARTALÆKNAR munu sinna áfram öllum sjúklingum sem þess óska á sama hátt og áður, með eða án tilvísunar," segir Þórarinn Guðnason, formaður Félags sjálfstætt starfandi hjartalækna. "Tilvísanakerfið er ekki sett á í samvinnu við hjartalækna né hjartasjúklinga. Okkar álit er að þessi tilvísun sé fyrst og fremst ávísun á endurgreiðslu en ekki læknisfræðilegt plagg. Það er ljóst að það að öðrum læknum en heimilislæknum er óheimilt að vísa til hjartalæknis í hinu nýja tilvísanakerfi sýnir að það er verið að setja á fót fjárhagslegt stýrikerfi en ekki kerfi sem á að byggjast á læknisfræðilegu mati á því hvað er sjúklingnum fyrir bestu. Það er í rauninni verið að taka þann rétt annarra lækna til að senda sína sjúklinga til okkar af þeim nema án endurgreiðslu. Það er ljóst að hjartasjúklingar búa ekki við aðgengi að sérfræðiþjónustu á sama grundvelli og aðrir sjúklingahópar nema þeir sem hafa efni á að koma án tilvísunar.

Við vonum að þetta hefta aðgengi muni ekki bitna á sjúklingum og ekki verða til þess að horfur fólks með hjartasjúkdóma versni." Morgunblaðið 2. apríl 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *