Nýtt fyrirkomulag í heilbrigðiskerfinu vekur litla gleði meðal hjartasjúklinga. Nú um helgina tók í gildi ný reglugerð og nýjar vinnureglur varðandi sjúklinga sem vilja leita til hjartasérfræðinga. Ef sjúklingur vill fá heimsóknina endurgreidda frá Tryggingastofnun þarf hann fyrst að heimsækja heimilislækni. Sá metur þörf viðkomandi sjúklings á aðstoð hjartasérfræðings og gefur út sérstaka tilvísun ef hann telur að þörf sé á heimsókn til sérfræðingsins.
Ef sjúklingur kýs hinsvegar að fara beint til sérfræðings fær hann augljóslega ekki viðkomandi tilvísun og missir þannig af endurgreiðslu Tryggingastofnunar. Með öðrum orðum þá þarf viðkomandi sjúklingur að greiða heimsóknina að fullu sjálfur.
Eggert Skúlason er varaformaður Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga.
„Mér finnast þetta afar vond tíðindi. Ég minni til að mynda á að hundruð eða þúsundir Reykvíkinga hafa ekki aðgang að heimilislækni. Ég spyr af hverju ekki að ganga alla leið og heimta tilvísanir af þeim sem þurfa að kalla eftir sjúkrabíl. Þetta er að mínu mati dæmi um gjaldþrota smáskammta og reddingastefnu ráðuneytis sem ekki hefur staðið sig,“ segir Eggert.
„Það er stöðugt verið að tala um forvarnir. Eins og kerfið var fyrir breytingu fara menn frekar til sérfræðinga og láta kanna ástand sitt. Það leiðir til þess að við björgum fleiri mannslífum, þ.e. það eru fleiri einstaklingar sem eru með
hjartasjúkdóma sem lifa.“
Tvöfalt heilbrigðiskerfi
Aðspurður um aðgerðir vegna þessara breytinga segir Eggert að samtökin muni ekki beita sér í málinu. Það sé hinsvegar ekki komið til af góðu. „Við höf um reynt að ræða við heilbrigðisráðuneytið vegna skyldra mála og ávallt fengið lítil og léleg svör.“ Hann segir ennfremur ljóst hverjir tapi á ástandinu sem nú blasir við.
„Ég vona bara að þarna sé um að ræða kjaradeilu milli þessara ágætu lækna og heilbrigðisráðherra. Það er bara einn hópur sem tapar á slíkri kjaradeilu og það eru sjúklingar. Það hefur verið talað um tvöfalt heilbrigðiskerfi að undanförnu og mér sýnist að þarna sé verið að setja það á. Ég vil hinsvegar taka það fram að ég er bara að hugsa um hag fólksins sem er í félaginu okkar“.
Blaðið mánudaginn 3. apríl 2006.